28.01.1974
Neðri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. jan. s.l. Þessi brbl. voru sett til þess að binda í lögum ákveðið samkomulag, sem orðið hafði milli fiskseljenda og fiskkaupenda í sambandi við ákvörðun á fiskverði nú um áramótin.

Eins og kunnugt er, tókst fullkomið samkomulag allra þeirra aðila, sem með þau mál hafa að gera, að ákveða fiskverðið fyrir vetrarvertíðartímabilið eða til loka maímánaðar. Það byggðist þó m.a á því, að þær ráðstafanir yrðu gerðar, sem er að finna í þessum brbl. En meginefni þeirra er það að leggja skuli sérstakt nýtt útflutningsgjald á loðnuafurðir, þ.e.a.s. á loðnumjöl og loðnulýsi og á frysta loðnu til manneldis. Er gert ráð fyrir, að þetta nýja útflutningsgjald nemi 5% af fob-verði þessara afurða, og reiknað er með því, að hér geti orðið um gjaldtöku að ræða, sem nemi í kringum 250 millj. kr. Að sjálfsögðu er þar lagt til grundvallar áætlað aflamagn og ákveðið verð á þessum vörum, en allt slíkt getur vitanlega hreyfst til í reyndinni.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir því, að 25 millj. kr. af þessari fjárhæð verði varið á þann hátt, að þær renni í lífeyrissjóði sjómanna, en þeir eru nokkrir starfandi, og þá verði leitað eftir samkomulagi við þá um að breyta núgildandi ákvæðum um eftirlaunaaldur, sem gildir hjá þessum sjóðum. Það er stefnt að því, að sjómenn, sem starfað hafa tiltekinn tíma, geti komist á eftirlaun á allmiklu lægra aldri en verið hefur gildandi.

En meginhluta þeirrar fjárhæðar, sem gert er ráð fyrir að innheimta með þessu gjaldi, eða í kringum 225 millj., er gert ráð fyrir, að verði varið til að halda niðri verði á brennsluolíum til fiskiskipaflotans á þessu samningstímabili, þ.e.a.s. til maíloka á þessu ári. Hefur verið gengið út frá því, að á þennan hátt ætti að vera hægt að tryggja fiskiskipaflotanum Íslenska sama verð á olíu og var fyrir hækkunina, sem ákveðin var 8. des., eða sem sagt, þá er miðað við það verð á brennsluofnum, sem var í nóvembermánuði s.l.

Að vísu er ekki hægt að segja með neinni vissu, hvað þarf að greiða olíuna mikið niður í verði skv. þessum reglum, vegna þess að við vitum ekki enn, hvað olíuverðið verður raunverulega hátt allan þennan tíma. En mikið af tímanum má þó nokkurn veginn sjá fyrir, hvað verðið verður hátt. Það er m.ö.o. gert ráð fyrir því, að verð á aðalolíutegundinni, þeirri sem bátaflotinn notar, gasolíu, til fiskiskipa verði á þessu tímabili kr. 5.80, en það var komið eftir hækkunina frá 8. des. upp í kr. 7.70. En fyrirsjáanlegt er, að það muni einnig hækka, þegar kemur fram í febrúarmánuð.

Það er sem sagt við það miðað, að þessi fjárhæð eigi að nægja til að tryggja fiskveiðiflotanum þetta verð. Það kom greinilega í ljós við samningana um rekstrargrundvöll skipanna á komandi vetrarvertíð, að það væri mjög erfitt að ná samkomulagi um þessi mál, ef fiskiskipaflotinn ætti að standa undir þessu mjög svo háa olíuverði, sem hér var fyrirsjáanlegt. Þá var horfið að því ráði að gera ákveðna millifærslu á milli útgerðargreina. Loðnuframleiðslan þótti mjög hagstæð miðað við þær áætlanir, sem lágu fyrir. Hvort heldur litið var á framleiðslu á frystri loðnu eða framleiðslu á loðnumjöli og loðnulýsi, var talið, að hér væri um mjög hagstæðan rekstur að ræða. Hækkanir höfðu orðið óvenjumiklar á afurðunum frá síðasta framleiðslutímabili. Var því álit manna, að hægt væri að taka þessa fjárhæð af þessari framleiðslu, færa hana yfir og láta hana standa undir þessum óvænta kostnaði, sem nú skall á í hækkuðu olíuverði.

En þrátt fyrir það að þetta gjald verði lagt á loðnuafurðirnar, var möguleiki á því — eins og fram hefur komið í samkomulagi á milli fiskseljenda og fiskkaupenda — að tryggja mjög mikla hækkun á loðnuverði til fiskimjölsverksmiðjanna og eins til frystihúsanna. Þar er sem sagt um meiri hækkun á hráefni að ræða en hefur verið samið um í sambandi við hið almenna fiskverð.

En þessi ráðstöfun verður að sjálfsögðu til þess, að nokkru minna fjármagn rennur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, í þá deild, sem hefði tekið við þessu fé. Í stað þess að leggja allmiklu meira fé til Verðjöfnunarsjóðsins hefur þessi leið verið farin, þ.e. að verja talsvert miklu af þessum hagnaði til að halda niðri olíuverði á þessu tímabili.

Í sambandi við það samkomulag, sem gert var við ákvörðun fiskverðsins og þegar samkomulag varð um þessa gjaldtöku, var gefin út sérstök yfirlýsing, sem mér þykir rétt að lesa hér upp. Hún var gefin af hálfu ríkisstj. og hefur að vísu verið hirt. Yfirlýsingin er á þessa leið:

„Verðhækkun á olíu í heiminum kemur sérstaklega hart niður á útgerðinni, og geta hinna ýmsu greina sjávarútvegs til þess að mæta þessari hækkun er afar misjöfn. Til þess að greiða fyrir ákvörðun almenns fiskverðs frá áramótum 1973–74 og treysta rekstrargrundvöll þorskveiða hefur ríkisstj. í samráði við hagsmunasamtök sjávarútvegsins ákveðið að beita sér fyrir því, að á árinu 1974 verði lagt sérstakt 5% útflutningsgjald á fob: verðmæti útflutningsframleiðslu loðnuafurða fiskimjölsverksmiðja og frystihúsa. Ríkjandi verðlag á þessum afurðum er nú mjög hagstætt. Þessi grein er því talin aflögufær. Raunar er sýnt, að hagur loðnuveiða og vinnslu getur orðið mjög góður þrátt fyrir þessa gjaldtöku og sjóðsaukning á reikningi loðnuafurða í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.

Tekjum af þessu gjaldi verður varið þannig:

1) Til þess að greiða niður verð á brennsluolíu til íslenskra fiskiskipa, sem taka olíu hérlendis. Þannig verði við það miðað, að olíuverð hérlendis til fiskiskipa verði ekki hærra á fyrstu 5 mánuðum ársins 1974 en það var í nóv. s.l.

2) 25 millj. kr. skulu renna í lífeyrissjóði sjómanna eftir nánari ákvörðun ríkisstj. Jafnframt verði tryggt, að sjóðirnir miði eftirlaunagreiðslur til sjómanna við lægri aldur en nú er gert.

Ríkisstj. leggur áherslu á, að ráðstafanir þær innan sjávarútvegsins, sem fyrirhugaðar eru til þess að leysa vanda þorskveiðibáta á vetrarvertíð, eru í eðli sínu tímabundnar. Tilefni þeirra er skyndileg stórhækkun olíuverðs og mikil óvissa um verðlag á olíu á næstu mánuðum. Við þessar aðstæður virðist eðlilegt að leysa þennan vanda á þann hátt, sem hér er lagt til.

Ríkisstj. telur, að við ákvörðun almenns fiskverðs hinn 1. júní n.k. beri að stefna að því, að rekstrargrundvöllur þorskveiðibáta raskist ekki í meginatriðum frá því, sem við er miðað við fiskverðsákvörðunina um áramótin 1973–74. Hækki olíuverð frá því, sem við er miðað um áramót, umfram það, sem fiskverðshækkun, annar tekjuauki eða létting gjalda fyrir útgerðina getur staðið undir með eðlilegum hætti, þyrftu að koma sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur þorskveiðiskipa, sem landa afla sínum hérlendis, á síðari helmingi ársins, og munu verða gerðar ráðstafanir í þeim efnum, eftir því sem nauðsynlegt kann að reynast.“

Í þessari yfirlýsingu felst það m.a., sem rétt er að vekja athygli á, að gengið er út frá því, að þegar þessari sérstöku niðurgreiðslu á olíuverði til fiskveiðiskipaflotans lýkur í lok maímánaðar og þegar að því kemur, að ákveðið verður nýtt fiskverð 1. júní, eins og reglur standa til, beri að stefna að því að tryggja þann rekstrargrundvöll eða þann afkomugrundvöll. sem miðað var við í þessu áramótasamkomulagi, fyrir þorskveiðiflotann. Ef þá verður um að ræða allverulega olíuverðshækkun umfram það verð, sem nú er reiknað með, að skipin þurfi að greiða fyrir olíu, verður að meta í fyrsta lagi, um hvaða tekjuauka er þá orðið að ræða hjá fiskiskipunum umfram það, sem var um áramótin, þ.e.a.s. hvaða fiskverðshækkun getur komið til greina 1. júní eða annar nýr tekjuauki eða þá sparnaður á einhverjum útgjöldum. Það verður sem sagt athugað, að hvað miklu leyti útgerðin geti þá staðið undir nýju olíuverði án þess að raska afkomugrundvellinum, af því að miðað er við það, að þessi afkomugrundvöllur eigi að haldast. Til þess getur að sjálfsögðu komið, að þá verði að grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja útgerðinni þennan afkomugrundvöll, ef ytri aðstæður hennar sjálfrar hrökkva ekki til að mæta þeim vanda, sem þá kann að vera fyrir hendi. En það er ekki rétt, sem sést hefur hér í blöðum, að gefin hafi verið yfirlýsing um að tryggja óbreytt olíuverð út árið, um það er ekki að ræða, en hins vegar gengið út frá því, að sá afkomugrundvöllur, sem við var miðað um áramótin, eigi að haldast áfram út árið. Þá verður aðeins um það að ræða að meta þá stöðu, sem upp kemur um það leyti, þegar taka þarf ákvörðun að nýju um fiskverð.

Nú síðustu dagana hefur nokkuð verið að því víkið, að óvissa sé ríkjandi um sölu á loðnuafurðunum, og það er rétt, að nokkrar breytingar hafa orðið á í þeim efnum. Þó hygg ég, að nú sé svo komið, að treysta megi því, að það náist fyllilega það verð fyrir frystu loðnuna til Japans, sem við var miðað í þeim útreikningum, sem lagðir voru til grundvallar um áramótin. Hins vegar er enn nokkur óvissa um það, hvernig muni fara um verðið á loðnumjölinu, því að enn er allmikið af því, sem væntanlega verður framleitt af loðnumjöli, óselt. En markaðsverðið hefur verið nokkuð flöktandi, hefur ýmist verið allmiklu hærra en það, sem miðað var við í útreikningunum um áramótin, eða allmiklu lægra. Þó nokkuð magn hefur verið selt á því verði, sem lagt var til grundvallar við útreikningana, en hins vegar er, eins og ég sagði, líka allmikið magn, sem enn er óselt. Ég vænti þess, að það verði svo í reynd, að það verð náist, sem við var miðað.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, við þessa umræðu að ræða þetta mál frekar, nema tilefni gefist til. En ég vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu, og getur hún þá að sjálfsögðu fengið allar þær upplýsingar varðandi málið, sem hún óskar sérstaklega eftir.