30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

14. mál, dreifing sjónvarps

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég beini því til hæstv. menntmrh., að það sé aðkallandi að íhuga þetta mál, og getur ekki lengi staðið svo, að stjórnvöld hafi engin áform um að reyna að afla frekari tekna til dreifingar sjónvarps.

Það verkefni, sem spurt er um í dag, að koma sjónvarpi til þeirra, sem ekki hafa það enn, er aðeins einn hluti af verkefninu dreifing sjónvarps. Það er almennt talið, að sjónvarpsstöðvar hafi að endingartíma 7, 8 eða 9 ár, og þær elstu, sem þjóna mesta þéttbýli hér á landi, eru nú orðnar 7 ára gamlar og fara að bila í vaxandi mæli, ef marka má eftir reynslu, svo að það má búast við verulegum kostnaði við endurnýjun á dýrast.a hluta kerfisins alveg á næstunni.

Þar að auki vil ég benda á, að dreifingarkerfi sjónvarps á Íslandi er allt einfalt, en í öðrum löndum er ekki talið ráðlegt að hafa a. m. k. meginþætti dreifingarkerfisins einfalda, heldur tvöfalda, þ. e. a. s. það eru tvær sendistöðvar hafðar hlið við hlið, þar sem varastöðin fer af sjálfu sér í gang, ef sú, sem notuð er, bilar. Öryggisleysið er því ákaflega mikið og getur valdið mjög miklum kostnaði á næstu árum.

Ég vil beina því til hæstv. ráðh., að þetta mál þarfnast vandlegrar íhugunar og athugunar.