29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

121. mál, z í ritmáli

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég kýs að hefja þau orð, sem ég mun segja hér um þáltill. á þskj. 148, með því að víkja nokkrum orðum að grundvallaratriði þessa máls, sem frsm. kom þó ekki að fyrr en í lokasetningunni, sem hann mælti. Það er, að íslensk tunga haldist óbjöguð. Íslensk tunga er nákvæmlega jafnbjöguð eða óbjöguð, hvort sem menn skrifa s-hljóðið með z eða s. Það heyrist enginn munur, hvorki þegar ég né hv. 4. þm. Austf. segir bestur eða hestur, þetta er sama s-ið, sem við notum báðir tveir. Og það gera allir Íslendingar.

Z hefur verið notuð í íslensku ritmáli, frá því að bækur voru fyrst skrifaðar á íslensku, það er alveg rétt hjá frsm. En z hefur aldrei á því málsögutímabili, sem íslensk tunga nær yfir, táknað í Íslenskra manna munni sérstakt hljóð. Kjarni tungunnar, eðli tungunnar, tungan sjálf kemur ekki fram í rittáknum, heldur hljóðtáknum. Tunga var til í munni manna, áður en nokkur kunni að rita. Tungan er hljóðin, sem byggja hið mælta mál. Hún er beygingarkerfið, sem íslenskan hefur varðveitt nákvæmara og liprara heldur en önnur skyld mál, sem hún átti beygingakerfið sameiginlegt með á fyrri málsstigum. Og hún er orðaröðin, skipun orðanna í setningar, þegar menn tjá hugsanir sínar. Rittáknin, sem notuð eru, þegar við tjáum mál okkar í riti, er ekki eðli tungunnar, heldur búningur tungunnar. Þetta er grundvallaratriði, sem menn verða að gera sér grein fyrir, þegar fjallað er um þau efni, sem varða réttritun.

Hér hefur frsm. talað æði digurbarkalega, valið þeim, sem eru á öðru máli en hann, ýmis háðuleg nöfn, og það sem alvarlegt er, hann hefur látið sér sæma að gera fjarstöddum mönnum, sem ekki eiga þess nokkurn kost að skýra sitt mál, hvers konar getsakir um hvatir þeirra, hvað þeir ætli sér, hvað þeir kunni að gera. Nú stendur svo á, að ekki þarf lengur neinar getsakir um það, það þarf ekki að standa hér í ræðustól á Alþ. og gera mönnum, sem falið hefur verið að vinna vandasamt verk og hafa lagt sig fram um að vinna það af bestu samvisku, upp skoðanir, hafa í frammi getsakir um, hvað þeim gangi til. til að mynda fjárgræðgi, að þeir skuli taka slíkt verkefni að sér. Álit stafsetningarnefndar liggur hér fyrir, það er vika síðan það barst í mínar hendur. Það þarf ekki neinar getsakir né dylgjur um það, hvað fyrir þeim mönnum vakir, sem þar hafa lagt hönd að verki. En þessi málflutningur, sem frsm. lætur sér sæma að hafa hér í frammi, er því miður — verð ég að segja — í fyllsta samræmi við búning þeirrar till. á þskj. 148, sem til umr. er. Greinargerð með þessari till. er einn órökstuddur sleggjudómur, og ég hygg, að fá dæmi séu þess, að af svo miklum hroka sé unnið, þegar búin eru mál í hendur Alþingis.

Hv. 4. þm. Austf. lét eins og það hefði komið alþjóð á óvart, þegar gefin var út í haust auglýsing um afnám z, bókstafsins z, úr þeim opinberu reglum, sem gilt hafa um stafsetningu. Annaðhvort eru þetta látalæti eða hv. þm. fylgist ekki vel með þeim málum, sem hann þó þykist hafa mikinn áhuga á. Nefnd til að fjalla um gildandi stafsetningu og greinarmerkjasetningu og gera tili. að nýjum reglum þar að lútandi var skipuð 11. maí á s.l. ári. Opinber fréttatilkynning var send út um skipun þessarar n., og ég veit ekki betur en hún hafi birst í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Þar var skýrt frá nöfnum nm., og ég skal fúslega endurtaka þau, fyrst hv. frsm. þykist ekki hafa heyrt þau fyrr.

Formaður n. var skipaður dr. Halldór Halldórsson prófessor. Aðrir nm. voru skipaðir Baldur Ragnarsson kennari, Gunnar Guðmundsson skólastjóri Laugarnesskóla, Indriði Gíslason lektor við Kennaraháskólann og Kristinn Kristmundsson skólameistari við Menntaskólann á Laugarvatni.

Allir eru þessir menn vel menntaðir og þrautreyndir móðurmálskennarar. Einmitt þess vegna voru þeir valdir til að gegna því starfi, sem um var að ræða. Það erindisbréf, sem ég setti þessari n., um leið og hún var skipuð, er á þessa leið:

„Verkefni n. skulu vera í aðalatriðum sem hér segir:

1. Endurskoðun núgildandi stafsetningar íslenskrar tungu með nokkra einföldun tiltekinna stafsetningarreglna að markmiði. Nánar tiltekið skal n. einkum taka til athugunar eftirtalin stafsetningaratriði:

a. Z.

b. Stóran og lítinn staf.

c. Tvöfaldan samhljóða. d. Y, ý og ey.

e. J-reglur.

f. É.

g. Sérhljóða á undan ng og nk.

h. Eitt orð eða tvö.

i. Hugsanlegt aukið valfrelsi um rithátt tiltekinna orða eða hljóða.

2. Athugun á greinarmerkjasetningu með samningu nýrra, einfaldari reglna að markmiði.

3. Tillögugerð um framkvæmd þeirra hugmynda, sem n. kann að setja fram um breytta stafsetningu, einkum að því er varðar samningu kennslubókar í nýrri stafsetningu og greinarmerkjasetningu, kennslu þessara greina í skólum, svo og notkun nýrrar stafsetningar og greinarmerkjasetningar á öllu prentuðu máli, sem gefið er út á vegum ríkisins.“

Frá þessari n. barst mér síðan bréf 20. ágúst, þar sem n. skýrði frá því, að hún hefði starfað allmikið á liðnu sumri. Að svo athuguðu máli kvaðst n. vilja gera eina till. þegar í stað, og síðan segir orðrétt í bréfi hennar:

„Í n. varð samkomulag um, að stafurinn z skuli, ef menntmrn. samþykkir, verða brott numinn úr Íslenskri stafsetningu og í hans stað skrifað s.“

Þegar ég hafði athugað þessa till. og afráðið að samþykkja hana, var síðan gefin út auglýsingin um afnám z, nr. 272 1973, Stjórnartíðindi, B-deild. Í bréfi þessu er ekki tilfærður rökstuðningur nm. fyrir till. um að nema z burt úr lögboðinni stafsetningu. En ég hygg, að rökstuðninginn megi nokkuð ráða af því, sem hv. frsm. skýrði frá í ræðu sinni um þá stafsetningu, sem hann virðist telja eina koma til greina, að 5 árum eftir að sú stafsetning var löggilt, var gefin undanþága frá kennslu reglna hennar um stafinn z í barnaskólum. Sú undanþága er í gildi enn í dag. Ástæðurnar til þess, að þessi undanþága var gefin og eftir þessari undanþágu var sótt, eru auðvitað þær, að z hefur meðal rittákna íslensks máls, sem notuð hafa verið, algera sérstöðu. Hún ein táknar ekki og hefur aldrei táknað sérstakt hljóð. Hún var í allri sögu íslensks máls fram á 19. öld notuð án þess, að nokkrar reglur um þá notkun sé hægt að finna í þeim ritverkum, sem varðveitt eru frá þessum mörgu öldum. Til eru tákn eins og y, sem ekki tákna nú sérstakt hljóð, en þau gerðu það á fyrra stigi íslenskrar málsögu, og þess vegna veita þau þýðingarmikla vitneskju um sögu málsins og breytingar hljóðkerfisins. Þetta gerir z ekki. Vegna þessa, vegna þess, að z eykur ekki á það fyrirbæri málsins, sem kallað er gagnsæi þess, að rithátturinn geri nemandanum auðveldara að greina sögu einstakra orða og hljóða, geri allt málið ljósara fyrir nemandanum, vegna þessa hefur það ætið sætt mikilli andstöðu, að z væri í lögskipaðri stafsetningu. Ýmis önnur hljóðtákn koma til greina, sem notuð hafa verið jafnvel svo öldum skipti í íslenskri stafsetningu og hægt væri að leiða að fullt eins sterk og jafnvel miklu sterkari málsöguleg rök að eigi heima í Íslensku ritmáli heldur en z. Ég nefni bara tvenns konar æ eftir uppruna og tvenns konar ö, sem lengi tíðkaðist. Og um annað atriði a.m.k. vildi Halldór Kr. Friðriksson á síðustu öld gera greinarmun í sinni stafsetningu, um æ-ið.

Höfuðviðmiðanir um stafsetningu eru að sjálfsögðu einkum tvær: framburðarstafsetning og upprunastafsetning. En við ákvörðun stafsetningar, sem almenna notkun á að hljóta, hefur í íslensku og í öllum málum, sem ég þekki til og skyld eru íslenzku, verið farin millileið. Það hefur verið tekin upp hagkvæmnistafsetning, miðuð við það að rjúfa ekki tengsl við ritað mál frá fyrri öldum, en að valda jafnframt ekki óþarfa vandkvæðum við móðurmálsnám. Þetta er það sjónarmið, sem ráðið hefur við gerð Íslenskrar stafsetningar í þau tvö skipti eða máske reyndar þrjú, sem stjórnvöld hafa löggilt tiltekna stafsetningu. Munurinn hefur verið sá, hve langt hefur verið gengið í einstökum atriðum í aðra hvora áttina, til móts við framburð eða móts við uppruna og hefð. Z-reglan var, þegar hún var tekin upp 1929, nýbreytni.

Þótt skýrar heimildir liggi ekki fyrir um það, telja þeir, sem kannað hafa sögu íslenskrar stafsetningar, ljóst af ýmsum rökum, að einhvern tíma á ráðherratímabili Hannesar Hafsteins, líklega 1907 eða 1908, hafi stjórnvöld á einhvern hátt tjáð sig um það, sem kalla mætti lögskipaða stafsetningu. Þar var z-regla ekki. Sama máli gegnir um þá stafsetningu, sem lögboðin var með auglýsingu, sem útgefin var með undirskrift Jóns Magnússonar 27. mars 1918. Þar var ekki heldur z. Afnám z er því ekki í sjálfu sér róttæk nýbreytni, þvert á móti mætti segja, að þar sé verið að færa stafsetningarreglur í fyrra horf, hverfa frá nýbreytni, sem upp var tekin 1929, og þá að sjálfsögðu vegna fenginnar reynslu, og um þá reynslu er ólygnasti votturinn undanþágan, sem Haraldur Guðmundsson veitti 1934.

Eitt af því, sem hv. frsm. spurði um í upphafi máls síns, var, hvaða nauður hefði rekið til að skipa þá n. til athugunar á stafsetningarreglum, sem hóf störf s.l. vor. Ástæðan til þess, að rétt þótti og skylt að skipa þessa n. og fela henni þetta verkefni, er sú, að eins og í fleiri námsgreinum eru kennsluhættir og kennsluefni í móðurmálskennslu í endurskoðun og athugun á vegum skólarannsóknadeildar menntmrn. Að þessari athugun eins og öðrum, sem þar eru gerðar, vinnur starfshópur skipaður móðurmálskennurum. Það var að frumkvæði þessa starfshóps, sem ég ákvað að skipa þá n., sem nú hefur skilað áliti fyrir fáum dögum og gerði þá till., sem varð eftir að ég hafði samþykkt hana, kveikjan að tillöguflutningi hv. 4. þm. Austf. og meðflm. hans.

Meðferð stafsetningar af hálfu íslenskra stjórnarvalda hefur hingað til ávallt verið á einn veg. Þau hafa á hverju stigi málsins, hvenær sem tímabært hefur þótt að taka einhverja þætti þess til athugunar, kvatt sér til ráðuneytis þá menn, sem þau treystu hest til víðsýni og réttsýni í þessu máli, að meta fengna reynslu og gera till. um breytingar. Þannig var þetta 1918, áður en Jón Magnússon gaf út sína auglýsingu. Að vísu liggja ekki fyrir um það beinar heimildir, en ljóst þykir, að hann hafi haft sér til ráðuneytis Pálma Pálsson og Jón Þórarinsson þáv. fræðslumálastjóra. Frsm. rakti það, hverjir fræðimenn voru helstu ráðunautar Jónasar Jónssonar, áður en hann gaf út auglýsingu um íslenska stafsetningu 25. febr. 1929. Það hefur aldrei í sögu Alþingis komið fyrir, að það hafi komið til þess kasta að álykta um stafsetningaratriði. Áður en alþm. hverfa að því ráði, að það sé löggjafaratriði, hversu beita skuli þessu rittákni eða öðru, býst ég við, að ýmsir vildu gera sér grein fyrir umfangi þess verkefnis, því að ritreglur fjalla að sjálfsögðu um tugi og hundruð atriða. Þau verður að meta í samhengi eftir málfræðilegum og málsögulegum rökum, og þar sem um skólastafsetningu er fyrst og fremst að ræða einnig eftir kennslufræðilegum rökum. Það hefur ekki verið vegna þess, að menn hafi viljað takmarka valdsvið Alþingis á liðnum áratugum, að svo hefur verið fjallað um þetta mál. sem ég hef lýst. Það er vegna þess, að mönnum hefur frá öndverðu þótt ljóst, að þetta er eitt af þeim málum, sem eru þess eðlis, að þeim verður að skipa eftir bestu manna yfirsýn á hverjum tíma, þeirra sem sérfróðastir eru um alla þá margslungnu þætti, sem þarna koma saman. Ef löggjafinn ætlar að fara að setja lagareglur um stafsetningu, er hætt við, að brátt komi í ljós, að torvelt er, ef ekki ógerlegt, að fjalla um það margslungna verkefni á slíkum vettvangi.

Hv. frsm. og flm. þáltill., sem hér liggur fyrir, telja sér sæma að kalla þá ákvörðun, sem ég tók um niðurfellingu z úr lögboðinni stafsetningu, og álit það frá stafsetningarnefnd, sem ákvörðun mín er byggð á, undanhald í þeim málum sem skipta íslenska tungu, móðurmál okkar allra. Ég kveinka mér ekki við sleggjudómum af þessu tagi frá hv. frsm. eða öðrum tillögumönnum. En það er algerlega ósæmandi að velja slíkar nafngiftir rakalaust móðurmálskennurum, sem helgað hafa ævistarf sitt íslenskri tungu og kennslu, og m.a mun einn þeirra hafa kennt hv. frsm. Að kalla Halldór Halldórsson, Baldur Ragnarsson, Gunnar Guðmundsson, Indriða Gíslason og Kristin Kristmundsson upp til hópa undanhaldsmenn í málum, sem varða tunguna, það er málflutningur, sem Alþ. er ekki samboðinn.

Og fleiri en þessir menn, — menn, sem hátt ber og hærra en flesta aðra í íslenskri málsögu og málræktarsögu, hafa fjallað um z. Til er rit, sem nefnist „Fyrsta málfræðiritgerðin“ og er eitt merkasta gagn, sem til er frá upphafi vega um íslenska tungu. Höfundur þess rits er ekki kunnur með vissu. Ýmsir hafa viljað leiða rök að því, að hann hafi verið Hallur Teitsson í Haukadal Ísleifssonar biskups og hafi samið rit sitt einhvern tíma á áratugunum fimm frá 1125–1175. Með Fyrstu málfræðiritgerðinni lagði höfundur hennar, hvort sem hann var Hallur Teitsson eða einhver annar, grunninn að íslensku ritmáli af svo mikilli þekkingu og af svo miklu innsæi í eðli tungunnar, að enn vekur aðdáun allra málsögufróðra manna hvarvetna í heiminum. Þessi ritgerð, Fyrsta málfræðiritgerðin, sem gjarnan fylgir handritum Snorra Eddu, mun vera það íslenskt fornrit, sem víðast er notað við kennslu í germönskum málum og gefið er út víða um heim.

Hallur Teitsson eða hver sem hann var, sem skrifaði Fyrstu málfræðiritgerðina, tók sér fyrir hendur að smíða Íslendingum stafróf. Það tókst honum þann veg, að þau sjónarmið, sem hann setur fram í Fyrstu málfræðiritgerðinni, eru grundvöllur að öllu, sem síðan hefur gert verið að því að treysta grundvöll íslensks ritmáls. Um z er fjallað í Fyrstu málfræðiritgerðinni, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Z er ebreskr stafur, þótt hann sé í latínustafrófi og hafður. Honum vísa ég heldur úr voru máli og stafrófi, því að þó verða, fyrir nauðsynja sakir, fleiri stafir í þar en ellegar vilda ég hafa. Vil ég heldur rita, þeim ennum fám sinnum er þarf, d og s.“

Undan hverju var höfundur Fyrstu málfræðiritgerðarinnar að halda? Hvaða undanhaldshugsunarháttur var það, sem innblés honum þessari andúð á því að taka upp að óþörfu rithátt, sem að vísu var í öðrum málum, en átti að hans dómi engan rétt á sér í Íslensku? Hann verður nokkuð stór, undanhaldsmannaflokkurinn, ef hv.

4. þm. Austf. kærir sig um að rekja framlag málræktarmanna fyrr og síðar til þess efnis, sem hér er um deilt. Þegar þar að auki er fitjað upp á málsmeðferð við ákvarðanir um lögboðna stafsetningu, sem ég tel mig hafa sýnt fram á, að leiði þvert af þeirri braut, sem hingað til hefur ævinlega verið farin, vil ég taka fram nú þegar, að ég mun greiða atkv. gegn þeirri till., sem fyrir liggur.