31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

140. mál, verðlækkun á húsnæði

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hefði kosið að ræða þetta mál heldur, þegar sá hæstv. ráðh., sem fer með húsnæðismál. væri hér viðstaddur. Ég hef áður fengið málið tekið út af dagskrá, vegna þess að sá hæstv. ráðh. var ekki viðstaddur. Hann virðist eiga afskaplega óhægt með að vera viðstaddur á fundum Sþ. og a.m.k. þegar komið er fram á þann tíma dags, sem þetta mál hefur getað komið til umr., en það hefur að jafnaði verið síðari hluta dagsins. En vegna þess, hve langt er síðan þetta mál var lagt fram, mun ég samt flytja fyrir því framsögu nú. Það varðar verðlækkun á húsnæði. Þessi till. til þál. hljóðar svo:

„Í þeim tilgangi að undirbúa verðlækkun á húsnæði ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að láta gera nákvæma skýrslu um þann hluta byggingarkostnaðar, sem fólginn er í ýmiss konar gjöldum til ríkisins. Á grundvelli þeirrar skýrslu láti ríkisstj. gera till. um niðurfellingu eða verulega lækkun þeirra gjalda.“

Það eru víst flestir sammála um, að það sé allt of dýrt að byggja á okkar landi, það sé of dýrt að leigja húsnæði, m.ö.o. húsnæðiskostnaður sé hér allt of hár miðað við framfærslukostnað að öðru leyti. Þau mál, sem fjallað hafa um húsnæðiskostnað hér á hv. Alþ., hafa jafnan hnigið að því, hvernig eigi að útvega meira fjármagn til bygginga, hvernig eigi að útvega meira fjármagn til lánveitinga úr byggingasjóði. Ef dýrt er að byggja, þá er tvennt til að leysa þann vanda, sem af því ris, annars vegar að útvega meira fjármagn og hins vegar að lækka kostnaðinn. Þessi till., sem hér liggur fyrir, varðar síðarnefnda hlið málsins, þ.e.a.s. þá hlið, sem lítið hefur verið rædd hér á Alþ., þ.e. að lækka kostnaðinn.

Það er mín skoðun og okkar, sem þetta mál flytjum, að sannarlega veiti ekki af að vinna að lausn þessa máls frá þessum báðum hliðum þess, bæði að útvega meira fjármagn og eins að lækka kostnaðinn.

Herra forseti. Ég spyr nú, ef þess er ekki kostur að flytja mál þetta að viðstöddum hæstv. félmrh. og aðeins að viðstöddum tveimur hv. þm., mætti þá ekki eins fresta flutningi framsögu fyrir þessu máli? (Forseti: Það er sjálfsagt að fresta henni, ef hv. þm. vill það.) Já, ég mun þiggja það, að hæstv. forseti geri það, því að ég þykist þess þá fullviss, að málið verði þá tekið fyrir (Forseti: Það kemur þá snemma á næsta fundi.) Já, ég þakka fyrir og mun þá fresta framsögu fyrir þessu máli til þess tíma, því að ég geri ekki ráð fyrir, að þau rök, sem ég flyt fyrir þessu máli nú, nái til þeirra eyrna, sem ég tel, að þau þyrftu sérstaklega að heyra, og vænti þess þá, að það verði tekið fyrir snemma á næsta fundi.