04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

191. mál, málflytjendur

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Ekki skal dregið í efa, að þörf sé á að gera breyt. á gildandi löggjöf um málflytjendur, sem mun vera frá árinu 1942 að meginstofni, eins og hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni áðan, og sjálfsagt er ýmislegt í þessu frv., sem horfir til bóta, ef að lögum verður, frá því, sem núgildandi lög gera ráð fyrir.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. og fram kemur í grg. með þessu frv., er það að mestu eins og þess konar frv., sem lagt var fyrir Alþ. haustið 1972, en þó hefur því ákvæði verið breytt, er helst sætti andmælum utanþings, þegar það var hér til meðferðar, og snertir öflun málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi og var á þá leið, að felld yrði niður málflutningsprófraun héraðsdómslögmanna, en í stað þess kæmi tveggja ára þjónustutími sem tilkynntur fulltrúi hjá lögmanni. Til þess að koma til móts við þessi andmæli er ákvæði 5. tölul. 13. gr. þessa frv. þannig fyrir komið, að gert er ráð fyrir að fækka prófmálum úr 4 í 2, en jafnframt áskilinn þjónustutími sem tilkynntur fulltrúi hjá lögmanni í eitt ár í stað tveggja í fyrra frv. Ég verð fyrir mitt leyti að lýsa því yfir þegar við 1. umr. þessa máls, að ég er andvígur þessu ákvæði.

E.t.v. eru sumir hv. þm. þeirrar skoðunar, að þetta mál sé þess eðlis, að lögfræðingastéttin eigi í rauninni að útkljá það í sínum hópi, þótt hið háa Alþ. verði þar auðvitað einnig að koma til, þetta snerti þá, sem þeirri stétt manna tilheyri, fyrst og fremst, og það sé kannske nánast slettirekuskapur, ef aðrir eru að hafa sig þar mikið í frammi. Þessu viðhorfi er ég algerlega ósammála. Ég fæ nefnilega ekki betur séð en sú till., sem er á ferðinni í þessu frv., að fá það vald í hendur starfandi lögmönnum í landinu, hverjir og hversu margir bætist í stétt þeirra, sé enn eitt dæmi um þá vaxandi tilhneigingu að takmarka aðgang manna að vissum hálaunastéttum í þjóðfélagi okkar. Gleggstu dæmin um það eru takmörkun á fjölda nemenda í vissar deildir Háskóla Íslands. Þessari þróun vil ég fyrir mitt leyti hamla á móti og skal með nokkrum fleiri orðum rökstyðja afstöðu mína nánar gagnvart umræddu atriði í frv.

Ef 13. gr. frv. nær fram að ganga óbreytt, hefur það í för með sér, að praktíserandi lögmenn öðlast vald að verulegu leyti til að ákvarða, hvaða menn fá málflutningsréttindi, og geta þannig takmarkað aðgang að stétt sinni að vild. Ýmislegt mælir á móti þessu fyrirkomulagi að mínum dómi, auk þess að vera út frá almennum sjónarmiðum ákaflega óheillavænleg þróun.

Vil ég fyrst nefna það atriði, að óeðlilegt og óæskilegt verður að teljast, að tiltölulega fámennur hópur manna, sem á beinna persónulegra hagsmuna að gæta í því að halda fjölda héraðsdómslögmanna innan vissra marka, hafi úrslitaáhrif á veitingu slíkra opinberra réttinda sem hér um ræðir. Við þetta bætist svo það, að ekki mun algengt, að lögmenn hafi löglærða fulltrúa í störfum hjá sér, eftir því sem mér hefur verið tjáð. Þeir gætu vissulega séð sér hag í því að takmarka enn frekar en nú er aðgang slíkra manna að störfum á skrifstofum sínum. Og hvaða trygging er fyrir því, að hæfustu mennirnir séu látnir ganga fyrir í slík störf, sem hér um ræðir hjá lögmönnum? Getur t.d. ekki kunningsskapur og frændsemi ráðið úrslitum á stundum í slíkum tilfellum? Finnst mönnum það ekki nokkuð hart aðgöngu fyrir nýútskrifaða lögfræðinga, sem lokið hafa löngu og ströngu háskólaprófi, að eiga það undir væntanlegum keppinautum í lögfræðingastétt, hvort þeir öðlist réttindi til þess starfs, sem þeir hafa menntað sig til?

En rétt og skylt er að geta þess, að lögfræðingar geta komist hjá umræddu ákvæði til að ná málflutningsréttindum samkv. frv. En ekki er það allra að komast þá leið, og raunar er það óeðlileg leið fyrir þá, sem fyrst og fremst hafa áhuga á málflutningsstörfum. Samkv. 2. mgr. 13. gr. er nefnilega gert ráð fyrir, að ýmsir aðilar, sem lokið hafa lögfræðiprófi, geti hlotið málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi án þess að uppfylla þá kvöð að hafa starfað á skrifstofu lögmanns. Sumt af þessu fólki hefur stundað störf, sem að litlu eða engu leyti geta talist veita þjálfun í gagnasöfnun og dómkröfugerð, en hún er einmitt aðalröksemdin í grg, með frv. fyrir nauðsyn þess að gera vissum mönnum að skyldu að starfa tiltekinn tíma hjá lögmanni, áður en umrædd réttindi eru veitt. En þeir aðilar, sem þannig er veitt undanþága, eru m.a. bankastjórar, bæjarstjórar, sendifulltrúar, sendiherrar, alþm., fulltrúar í stjórnarráði og skrifstofu Alþ., svo að dæmi séu nefnd. Slíkir menn hafa allir vafalaust ýmsa mikilvæga reynslu, sem kæmi þeim að einhverju gagni við málflutningsstörf. En sú reynsla gefur enga tryggingu fyrir þjálfun í því, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. gagnasöfnun og kröfugerð í dómsmálum. Enginn rökstuðningur hefur komið fram fyrir þeirri tilhögun að veita slíkar undanþágur. Hér virðist sem ætlunin sé, að vissar stéttir manna eigi að hafa nokkur forréttindi hvað þetta áhrærir.

Það má vel vera, að nauðsyn beri til þess að gera auknar kröfur til lögfræðinga um meiri þjálfun, áður en þeir öðlast málflutningsréttindi. En ég fæ ekki séð, að það verði gert, svo að réttlátt og sanngjarnt geti talist, með þeim hætti, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Þvert á móti sýnist mér, að sú leið, sem þar er lagt til, að farin verði, auki á misrétti og sé spor í óréttlætisátt hvað snertir möguleika lögfræðinga til að öðlast málflutningsréttindi. Þess vegna ber að mínum dómi að leita annarra úrræða til lausnar þessum vanda, sem hér er á ferðinni, ef vanda skal kalla. Ef menn telja knýjandi að auka þjálfun lögfræðinga, er þá ekki réttast, að slík þjálfun sé í höndum opinberra aðila, eins og raunar hæstv. ráðh. gaf í skyn, að vel geti komið til álita? Hann benti réttilega að mínum dómi á, að það gæti komið til athugunar og álita, að lagadeild háskólans sæi um slíka þjálfun, t.d. með námskeiðum.

En kjarni míns máls, sem ég vil koma hér á framfæri í tilefni þess frv., sem hér er til umr., er sá, að þannig ber að koma hlutunum fyrir, eftir því sem frekast er kostur, að menn geti átt við að búa sem jafnasta aðstöðu til að öðlast þau réttindi í þjóðfélaginu, sem menntun þeirra býður, jafnframt því sem höfð sé hliðsjón af þörfum þjóðfélagsins og alls almennings á hverjum tíma í þeim efnum. Fyrirbyggt verði með öllu, að hálaunuðum sérfræðingastéttum verði sköpuð aðstaða í löggjöf til að takmarka aðgang að verksviði sínu með óeðlilegum hætti. Svo er því miður ekki gert í því frv., sem hér er til umr. Ég leyfi mér að vona, að sú hv. þn., sem fær þetta frv. til meðferðar, geri þær breytingar á frv., sem tryggi framgang þeirra sjónarmiða, sem ég hef gert hér að umtalsefni.