05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég tek undir með þm., sem hér hafa talað, að það er harla einkennilegur tónn í umr. stjórnarandstæðinga um þessi mál. Það er að vísu rétt, að það er víða ríkjandi orkuskortur hér á landi. En spurningin er: Hverjum er það eð kenna? Ég held, að það sé tæplega til sá glópur, sem veit ekki, að það tekur yfirleitt 4–5 ár að undirbúa framkvæmdir í raforkumálum. Það líða 4–5 ár og í alminnsta lagi 3 ár, frá því að athugun á framkvæmdum er hafin og síðan rannsókn, mannvirki er hannað og þar til raforkuver er fullkomið og getur skilað orku inn á heimilin.

Núv. ríkisstj. hefur verið við völd í rúmlega 21/2 ár. Þar af leiðandi er það eins ljóst og nokkuð getur verið, að raforkuskortur víða um land er engum öðrum að kenna heldur en fyrrv. ríkisstj. Ef farið hefði verið út í samtengingu raforkusvæðanna hér á landi 5 árum fyrr en farið var að huga að því, þ.e.a.s. á árunum í kringum 1968, og ef ekki hefði farið svo, að meiri hluti orkunnar frá Búrfellsvirkjun var seldur útlendingum fyrir fáránlegt verð, — ef sem sagt þetta hvort tveggja hefði ekki gerst, þá væri nú að sjálfsögðu nægilegt rafmagn um allt land. Um það þarf ekki að deila.