06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

198. mál, tryggingadómur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það voru dálítið táknræn, en eigi að síður mjög eðlileg viðbrögð hjá hæstv. forseta, þegar hann lagði málið fyrir hv. d. Hann ætlaði að gefa hæstv. dómsmrh. orðið. En þá kemur í ljós, að hér er um að ræða frv. til l. um tryggingadóm, þar sem trmrh. skipar dómara í tryggingadóm til fjögurra ára í senn o.s.frv.

Í þessum tryggingadómi eiga að sitja tveir lögfræðingar, læknir og tryggingastærðfræðingur, og þarf eigi lengur að lesa til þess að sjá, að allmikill kostnaður hlyti að verða af slíkum dómi.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál hér almennt, aðeins ítreka þá skoðun, sem ég hef fyrr látið í ljós, að yfirleitt beri að gjalda varhug við að stofna sérdómstóla. Að mínu mati og mati fjölmargra annarra ber ekki að stofna eða setja á fót sérdómstól nema í brýnni nauðsyn. Hæstv, trmrh. benti á, að um þetta væri ákvæði í tryggingalögum. Það er nú svo, að það er eitt og annað í þeirri löggjöf, sem þörf væri á að breyta. Ég vænti þess, að nm. þeir, sem fjalla um þetta mál, taki það til íhugunar, og vil ítreka það, að yfirleitt ber að forðast að setja á fót marga sérdómstóla. En á hitt ber að leggja áherslu, að búa þannig að hinum almennu dómstólum, að þeir geti greitt úr málum manna fljótt og vel.