07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa kjarasamningar vegna verkalýðsfélaganna og vegna þeirra sjómannafélaga, sem semja fyrir farmenn, verið lausir nú á fjórða mánuð og samningar fiskimanna á þriðja mánuð. Milli flestra samningsaðila hafa átt sér stað nokkuð stöðugar samningaviðræður, en eftir því sem aðilar skýra sjálfir frá, þokast lítið í samkomulagsátt. Frá þessu eru þó þýðingarmiklar undantekningar, sem ég kem síðar að.

Nú hljóta allir að sjá, hver vá er fyrir dyrum, ef til nær allsherjarverkfalls kemur síðari hluta þessa mánaðar. Verður það að teljast uggvænlegt á að horfa á okkar helsta bjargræðistíma, ef verksmiðjur og frystihús lokast, meginhluti fiskiskipaflotans stöðvast, samgöngur á sjó, í lofti og á landi stöðvast, auk þess sem verslanir munu lokast og öll þjónusta á spítölum, elliheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum stórlamast eða stöðvast með öllu. Ég held, að tímabært sé, að hæstv. forsrh, gefi Alþ. skýrslu um, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert til þess að greiða fyrir því, að samningar megi takast við þær tugþúsundir launþega, sem nú heyja varnarbaráttu gegn óðaverðbólgu og síþverrandi kaupmætti.

Það er kunnugt, að ríkisstj. bauð fram í upphafi deilunnar að koma til móts við óskir launþegasamtakanna um breyt. á skattal., svo og umbætur í húsnæðismálum, sérstaklega hinna efnaminni. Ekki er kunnugt um önnur afrek ríkisstj. í skattamálum en að bætt hefur verið við nokkrum viðbótarskattpinklum á íbúðareigendur, og tilboð mun hafa verið lagt fram um viðræðunefnd Alþýðusambandsins um skattamál, sem mun þó algerlega hafa verið hafnað eftir nánari athugun. — Væri fróðlegt og nauðsynlegt fyrir Alþ. að fá að heyra og sjá, hvað till. ríkisstj. um skattbreytingar, sem foringjar Alþýðusambandsins höfnuðu, þýða fyrir skattgreiðendur. Ekki mun almenningi kunnugt um frekari efnisatriði till. á þessu sviði. Um úrbætur í húsnæðismálum liggur ekkert fyrir. Lán húsnæðismálastjórnar eru nú 500 þús. kr., en ættu að vera samkv. reglum stofnunarinnar 1260 þús. kr. Þá hafa verið uppi vangaveltur hjá ríkisstj. um breytingar á vísitölukerfinu, þeirri heilögu kú, sem talin var í tíð fyrrv. ríkisstj. Ekkert hefur enn komið fram opinberlega um þetta mál utan það, sem rætt var á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands á s.l. vetri.

Það væri að sjálfsögðu rangt af mér, ef ég héldi því fram, að hæstv. ráðh. hefðu ekkert gert til lausnar vandamálum vinnumarkaðarins nú á síðustu mánuðum. Það má t.d. benda á snilld hæstv. sjútvrh., er hann leggur fyrir Alþ. frv. til l., sem í raun er ekki annað en breyting á hlutaskiptum á loðnubátunum, en til bjargar þó, það skal viðurkennt, öðrum hluta flotans vegna olíuhækkunarinnar. Enn fremur má benda á frábæra snilld hæstv. fjmrh., sem leysti tveggja mánaða verkfall þjóna í deilu þeirra við veitingahúsaeigendur með því að stórhækka verð á brennivíni og öðrum áfengum drykkjum. Ég tel þó ekki, að sú lausn verði til fyrirmyndar í öðrum deilum.

Ég minntist í upphafi máls míns á þýðingarmiklar undantekningar frá hinni almennu deilu, sem nú stendur yfir, og á það við þá samninga, sem nú hafa verið gerðir. Ég hef minnst á snilldina samfara lausn þjónadeilunnar. En þýðingarmiklir samningar voru gerðir við opinbera starfsmenn þar að auki. Þeir voru gerðir m.a. á grundvelli hækkunar olíuverðs, að því er sagt var, og þeir voru á þann veg, að um tiltölulega litla kauphækkun var að ræða, ef miðað var við fyrri kröfur þessara sömu samtaka. Þá má og geta þess, að þessi samtök fylgdu í einu og öllu stefnumörkun Alþýðusambands Íslands varðandi mestu hækkun til láglaunafólks, sem jafnframt var stefna ríkisstj., en þessu fylgdi, að um væri að ræða skertar vísitölubætur á laun hinna hæstlaunuðu. Ég geri ráð fyrir því, vegna þess að öllu gamni fylgir nokkur alvara, að ef önnur stéttarfélög ættu að fylgja skoðunum opinberra starfsmanna og stórlækka kröfur sínar vegna olíuhækkunar til okkar frá Rússum, þá ættu meðlimir þeirra stéttarfélaga, sem kenndir eru við neyslu áfengis, að falla frá öllum sínum kröfum vegna hækkunar þess hjá hæstv. fjmrh. Ég vil benda á samningana, sem gerðir voru við flugfreyjur, sem fóru langt fram úr þeim samningum, sem gerðir voru við BSRB, enda þær að vísu allar í láglaunaaðstöðu. Þá hafa matsveinar gert þolanlega samninga, eins og flugfreyjur, þótt mér sé ekki kunnugt um breytingar á vísitölugreiðslu né grundvelli hennar í þeim.

Kem ég þá að síðustu samningunum, sem gerðir hafa verið, svokölluðum álsamningum. Í þeim er gert ráð fyrir meiri launahækkun en í öðrum kjarasamningum, sem ég hef minnst á. Auk þess er samningsbundið í þeim samningum, að engin breyting eigi að verða frá fyrri samningum í sambandi við vísitölugreiðslur, þannig að með þeim samningum er hrundið vilja ekki aðeins ríkisstj. Íslands, heldur og Alþýðusambandsins um það að skerða vísitölugreiðslur á laun þeirra, sem hærra launaðir eru.

Nú tel ég, að beint liggi við, sérstaklega þó eftir að ríkisstj. Íslands hefur tekið út úr Vinnuveitendasambandi Íslands ákveðin stórfyrirtæki, að ríkisstj. Íslands semji við þessi stórfyrirtæki, eins og Sementsverksmiðjun, Áburðarverksmiðjuna og aðra aðila, sem falla undir sömu mörk og þeir, sem í Álverksmiðjunni vinna. En ég hafði ekki látið hæstv. forsrh. vita, að ég mundi taka til máls um þetta efni utan dagskrár í dag, enda komið fast að helgi, og ég teldi nægjanlegt, ef hæstv. forsrh. mundi vilja gefa okkur þm. skýrslu um stöðu þessara mála, þegar við komum saman eftir næstu helgi. Og ég held, að allir hljóti að viðurkenna, eins og ég hef þegar sagt, að hér séu svo alvarleg mál á ferðinni, að það sé ekki hægt að fljóta sofandi að feigðarósi öllu lengur.