30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

29. mál, móttökuskilyrði sjónvarpssendinga á fiskimiðunum

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að lýsa mig sammála síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns, en hann lýsti sárum vonbrigðum yfir frammistöðu ríkisstj. í þessu máli. Það er svo sannarlega hægt að taka undir það. En hve mikil hljóta ekki vonbrigði þessa hv. þm. sjálfs að vera, vegna þess að á síðasta Alþ., snemma á síðasta Alþ., bar hv. þm. fram fsp. varðandi þetta mál og lýsti þá yfir miklu trausti á ríkisstj. í þessu efni. Það er greinilegt, að það traust hefur algerlega brugðist, og hv. þm. varð það ljóst síðla á síðasta þingi, því að þá ber hann fram þáltill. þá, sem hann gerir nú fsp. út af. En málið hefur snúist óhönduglega í höndum þessa hv. þm, hvað snertir Vestfirði og hans kjördæmi. Þegar hann bar fram sína þáltill., þá miðaði hún að því að bæta skilyrðin úti fyrir Vestfjörðum. En þeirri till. var breytt í meðförum fjvn. þannig, að nú er talað um allt landið í þessu sambandi. En hér erum við komnir á þessu sviði eins og öðrum sviðum varðandi sjónvarpsmálin í vífilengjur um áætlun og tal um áætlanagerðir, sem er til þess fallið að hindra allar framkvæmdir í bili í þessu einfalda máli. Þetta mál var vissulega einfalt. Það var ljóst, hvað þurfti að gera á Vestfjörðum, og hv. síðasti ræðumaður lýsti því á síðasta þingi, hvað þyrfti að gera. Það þurfti að reisa eina sendistöð á Barða, sem kostaði tæpar 5 millj. kr. En þessi hv. þm. lét hafa sig til þess að greiða atkv. á síðasta þingi á móti till. minni um að veita Ríkisútvarpinu aukafjárveitingu að upphæð 55 millj. kr. Þetta eru afrek hv. síðasta ræðumanns í þessu máli. Ég verð að samhryggjast honum yfir frammistöðu ríkisstj. og raunar yfir frammistöðu hans sjálfs.