11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

187. mál, eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 334 flytjum við sex saman frv. til l. um eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna. Þetta mál á sér alllangan aðdraganda. Það mun hafa verið í kringum 1970, sem starfsmenn stjórnmálaflokkanna hófust handa að marki um að ná þessum sjálfsögðu réttindum sér til handa. Þetta mál rak á fjörur þingflokkanna haustið 1971, og var af hálfu þeirra valinn einn maður frá hverjum flokki til að vinna að þessu máli. Þess vegna er það, að samkomulag varð um það þegar í stað, að sjálfsagt væri, rétt og skylt, að þessir starfsmenn hlytu þessi réttindi, og fyrir því er hér í frv. gert ráð fyrir því, að þeir njóti þessara réttinda aftur í tímann frá árinu 1971.

Framhald málsins var síðan það, að hæstv. fjmrh. skipaði þriggja manna n. til að vinna að undirbúningi málsins, því að menn voru ekki á eitt sáttir um, með hvaða hætti skyldi að því staðið. Formaður þeirrar n. var skipaður Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur, og auk mín átti sæti í n. hæstv. núv. samgrh. Þessi n. skilaði af sér störfum, þegar mjög var liðið á þingtíma í fyrra, og var sammála um að flytja frv. til l. um eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna, sem þetta frv., sem nú er endurflutt, er í nákvæmu samræmi við. En þetta mál kom svo seint fyrir hér á Alþ., að ekki vannst tími til að afgreiða það. Það hafði að vísu verið afgreitt úr Nd. Það var hér flutt af hv. fjh: og viðskn. Einnig kom það til, að menn vildu fá rýmri umhugsunartíma og fá tækifæri til þess að skoða þetta mál betur en þá þegar var orðið.

Á s.l. hausti komu fulltrúar allra þingflokkanna saman til að ræða þetta mál á nýjan leik og urðu sammála um það allir sem einn að flytja þetta frv. óbreytt frá því, sem það hafði verið lagt fyrir hið háa Alþ. á s.l, vori.

Sú hugmynd kom fram í upphafi athugunar þessa máls, að eðlilegt væri, að starfsmenn stjórnmálaflokkanna ættu aðild að eftirlaunasjóði þm. Að vel athuguðu máli varð þó ofan á að hafa ekki þann hátt á. Menn voru hins vegar sammála um, að starf þeirra væri í eðli sínu það líkt starfi þm., óöryggi þess álíka mikið, að ástæða væri til að þeir fengju sem næst sambærileg kjör við það, sem þm. njóta, og má segja, að þetta frv. feli í sér nokkurn veginn þau kjör, sem þm. njóta samkv. I. um þeirra eftirlaunasjóð. Viðmiðunin, launaviðmiðunin sjálf er valin með vísun til launaskala hjá opinberum starfsmönnum, og það er gert með tilliti til þess, að þau laun, sem starfsmenn stjórnmálaflokkanna þiggja, eru oft og tíðum frá fleiri aðilum en stjórnmálaflokkunum sjálfum, sem gjarnan vilja spara sér fé með því að láta starfsmenn sína njóta einhverrar ígripavinnu á öðrum vettvangi, sem kemur til af því, að stjórnmálaflokkarnir eiga yfirleitt við þröngan fjárhag að búa. Ég legg áherslu á, að þau kjör, sem hér er gert ráð fyrir til handa starfsmönnum stjórnmálaflokkanna, eru sambærileg við það, sem alþm. njóta, af þeirri ástæðu, að telja verður, að starf þeirra eða öryggisleysi þeirra í starfi sé mjög álíka, en á þeim grundvelli eru þau kjör hjá alþm. reist, að þau ná nokkuð miklum lífeyrisréttindum eftir skamman tíma. Það tekur þá skamman tíma og skemmri tíma en yfirleitt er í reglum um lífeyrissjóði að ná verulega bitastæðum eftirlaunum.

Ég sé ekki ástæðu til, þar sem sams konar frv. hefur áður verið hér til umr., að fara fleiri orðum um þetta, en legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.