11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Vafalaust liggja mörg gild efnisrök til þess máls, sem hér er til umr., og hinna ýmsu þátta þess. Ég mun þó ekki ræða efnisþátt þessa máls, enda tel ég mig engan veginn til þess færa fremur en ýmsa aðra landkrabba meðal þm. Mér hefði þó vafalaust borið skylda til þess að kynna mér þetta, eins og hv. 3, þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, benti hér á fyrir nokkrum dögum, að við hefðum átt að kynna okkur í ýmsum atriðum þau rök, sem lægju til þessa máls, sem verið er að ræða. En ég hef það mér til afsökunar helst, að hann er trúlega farinn úr landi, Norðmaðurinn, Gunnar að nafni, sem hv. þm. vísaði okkur til og sæti inni með allar mikilvægar upplýsingar í þessu máli. Þess vegna er það, að ég er fáfróð um efnisrökin í máli þessu, hvernig átt hefði að byggja Akranesferjuna o.fl., sem til greina kemur, að þurfi vitanlega nákvæmrar athugunar við.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var allt önnur. Ég átti erindi við forseta þingsins einmitt varðandi meðferð þessa máls. Sannleikurinn er sá, að allar starfsaðferðir í þessu máli hafa verið með þeim eindæmum, að það hlýtur að vekja til umhugsunar um það, hvort menn séu nógu vakandi um starfsvenjur þingræðisins. Fyrir mér er það fullkomið alvörumál, að menn hafi í heiðri þingræðislegar starfsvenjur. því miður hefur það all oft brunnið alvarlega við á þessu kjörtímabili, að svo hafi ekki verið gert. Fyrsta stóra dæmið, sem ég man eftir um þetta á þessu kjörtímabili, var það, þegar sett voru lög um almannatryggingar — regla um almennan launaskatt í ríkissjóð. Í niðurlagi þess lagafrv. var ákvæð6, sem ekki stóð í neinu sambandi við lög um almannatryggingar að öðru leyti og þar stóð: „Leggja skal á sérstakan launaskatt, sem rennur í ríkissjóð“ o.s.frv. Þetta er mjög alvarlegt atriði, ekki síst þegar þarna er um að ræða, að kvöð er lögð á borgarana, og er sett inn í lög, sem eru um óskylt efni. Annað atriði í svipuðum dúr og þetta er það, þegar til stóð nú í vetur' að setja ákvæði um söluskatt inn í tollskrárfrv. Af því varð þó ekki vegna mótstöðu þm. eins og menn muna. Þegar frv. var hér til umr. um erlenda lántöku vegna framkvæmdaáætlunar, var á síðasta stigi bætt inn í það eftir tilmælum hæstv. fjmrh. till., sem fól í sér stórfellda nýja erlenda lántökuheimild. Þar var um að ræða hvorki meira né minna en 7 millj. dollara, ef ég man rétt. Og nú í þessu máli, sem hefst á því, að lagt er fram frv. um sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum, er fyrst á síðustu stigum málsins í Ed. bætt inn í það till. um sams konar ábyrgð til kaupa á ferjuskipi milli Akraness og Reykjavíkur og nú á síðasta stigi í Nd. till. um sams konar heimild vegna Vestmannaeyjaskips. Ég efa ekkert um, að allt séu þetta nauðsynjamál. En hitt er annað mál, að hvert um sig af þessum málum er svo stórt, að það er sjálfsögð starfsaðferð og sjálfsögð skylda þingsins að ræða þetta á þann hátt, sem vera ber um þingmál.

Árið 1960 kom út allmikið rit, sem heitir Stjórnskipun Íslands. Höfundur þess er hæstv. forsrh., þáv. lagaprófessor, Ólafur Jóhannesson. Þar segir, með leyfi hæstv. forsets, á bls. 297:

„Gerbreytingar á frumvarpi á síðari stigum meðferðar þess verður að telja óheimilar. Ef slík gerbreyting er leyfð, verður hinum áskilda umræðufjölda ekki áð. Þessa hefur ekki verið ætíð gætt sem skyldi“ o.s.frv. Tekur hæstv. þáv. prófessor, hæstv. ráðh., sem dæmi um þessa starfsaðferð lagabreytingu, sem átti sér stað 1950.

Í stjórnartíð þeirrar stjórnar, sem hann er nú í forsæti fyrir, hafa alvarleg dæmi af þessu tagi gerst a.m.k. fjórum sinnum, og þá hefur í öllum tilvikum verið um stórmál að ræða. Ég sé enn þá meiri ástæðu til að gera þetta að sérstöku umtalsefni vegna þess, að s.l. miðvikudag, þegar máli þessu var seinast frestað hér í d., kom hæstv. fjmrh. hér í ræðustól og vék einmitt að þessu, að ýmsir þm. hefðu fundið að málsmeðferðinni, en hann taldi þar aðeins um formsatriði að ræða, enda væri þetta algeng starfsvenja hér á Alþ. síðan hafði hæstv. ráðh. ekki meira um það efni að segja. Mér finnst fyllsta ástæða til þess að beina því sérstaklega til hæstv. forsrh., að hann útskýri fyrir starfsbróðursínum, hæstv. fjmrh., sem ég veit, að muni vilja vinna störf sín vel, mikilvægi þess, að þingræðislegar aðferðir séu hafðar við framlagningu mála.

Og þá er ég komin að aðalerindi mínu í ræðustól, og það er, að ég vil beina því til hæstvirtra forseta þingsins, að þeir hlutist til um, að þegar svo stendur á um þingmál sem þetta, þá beiti þeir sér fyrir því, að málin verði klofin í fleiri frumvörp, eins og vera ber eftir öllum þingræðisvenjum. Mér sýnist fyllsta ástæða til þess, að forsetar hafi hér afskipti af, svo oft hefur þetta skeð og svo alvarleg áhrif getur þetta haft í löggjöfinni. Það er ekki hægt að ætlast til þess gagnvart borgurum landsins, að ef þeir t.d. vilja finna reglur um ýmsar kvaðir, sem á þá eru lagðar, þá þurfi þeir að fletta upp vítt og breitt um alla löggjöfina, ef ske kynni að þar kynnu að felast ákvæði um hluti eins og ég vék t.d. að áðan, um launaskatt í almannatryggingalögum, og ef ríkisstj. hefði verið nokkru sterkari en hún er, hefði vafalaust verið samþykkt ákvæði um söluskatt í tollskrárlögum o.s.frv. Þetta eru atriði, sem fyllsta ástæða er til að vera á verði um.

Nú þykist ég vita, að einhverjir hv. þm. hugsi sem svo: Hefur það ekki verið alltítt, að hér hafi farið í gegnum þingið svonefndir bandormar af lagafrv., þ.e. þegar samþykkt eins frv. er háð samþykki annars? Um það vil ég segja, að þegar sérstakar efnahagsráðstafanir hafa verið gerðar, eins og hefur átt sér stað stundum um útflutningsgjald af sjávarafurðum o.fl., þá var það svo, að alger nauðsyn lá til þess, að málin færu í gegnum þingið með miklum hraða, ef ráðstafanirnar áttu að koma að tilætluðu gagni. Þess vegna má segja, að þá hafi sérstök nauðsyn knúið til þess, að málin væru lögð fyrir og afgreidd í þessu formi. Engin slík nauðsyn liggur til þess, að þetta mál sé í því formi, sem raun er á. Og það liggur fyrir í nál., sem við höfum á borðum okkar, að meiri hl. gagnrýnir þessa málsmeðferð. Engu að síður láta þeir sig hafa það, þessir ágætu hv. nm., að leggja samt fram nál. um, að málið skuli afgreitt í þessu formi.

Hvort sem hæstv. forsetar sjá ástæðu til að breyta meðferð þessa frv., enn er tími til þess, og láta málin fá þinglega meðferð eða ekki, þá ítreka ég tilmæli mín til hæstv. forseta d., sem raunar á sæti í Fjh.- og viðskn. þessarar d. Hann var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt úr n., og hefur það kannske haft þau áhrif, að við fjöllum nú um þetta mál í þessu formi. E.t.v. hefði hann beitt áhrifum sínum til þess, að málið yrði afgreitt, að því er ég tel formlega rétt. Það þýðir ekki að vera að beina orðum sínum til hæstv. forseta Sþ., sem hér er fjarstaddur. Ég vil biðja hæstv. forseta þessarar d. að gera svo vel að koma því áleiðis til hinna forsetanna, að þeir hugleiði það mjög alvarlega, hvort ekki sé ástæða til, að forsetavaldi sé beitt til þess, að málin séu lögð þannig fyrir, að venjur þingræðisins séu í heiðri hafðar.