12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

122. mál, nýting jarðhita

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni, þar sem ég hugðist spyrja hæstv. iðnrh. nokkurra spurninga varðandi ráðstafanir og ákvarðanir opinberra stjórnvalda, sérstaklega í sambandi við Hitaveitu Reykjavíkur. Það er nú komið í ljós, að það, sem ég hugðist spyrja hann um, hefur fengið jákvæða afgreiðslu, bæði hvað snertir heimild Hitaveitu Reykjavíkurborgar til lántöku svo og hækkun á gjaldskrá Hitaveitunnar, þannig að nú sýnist ekkert í vegi fyrir því, að þeir samningar, sem gerðir hafa verið við Reykjavíkurborg af hálfu Kópavogskaupstaðar og Hafnarfjarðarkaupstaðar og eru í deiglunni af hálfu Garðahrepps, geti náð fram að ganga og framkvæmdir hafist samkv. þeim. Spurningar um önnur atriði læt ég bíða og legg því til, herra forseti, að umr. um þessa till. verði frestað og till. vísað til allshn.