13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur beint til mín þremur spurningum, sem ég tel mér skylt að svara.

Spurningarnar voru, ef ég hef náð þeim rétt, hvort á rökum væru reist þau ummæli, sem höfð voru í sjónvarpi um kvörtun sovésks sendimanns út af s,jónvarpsþætti, þar sem m.a. hæstv. menntmrh. kom fram, hverju var sendimanninum svarað, og í þriðja lagi: hefur það áður komið fyrir að sovéska sendiráðið hafi borið fram umkvartanir um efni í útvarpi eða sjónvarpi?

Svar rn. er eftirfarandi: Það er rétt, að þegar fulltrúi frá sovéska sendiráðinu kom í utanrrn. hinn 5. febr. s.l., ræddi hann m.a. nefnt sjónvarpsviðtal við Pétur Thorsteinsson ráðuneytisstjóra. Sovéski sendiráðsmaðurinn tók fram, að hér væri ekki um að ræða formleg mótmæli af hálfu sendiráðsins en sagði eitthvað á þá leið, að telja yrði óviðurkvæmilegt, að háttsettir menn í ábyrgðarstöðum, eins og menntmrh. töluðu um málefni annars ríkis eins og hann hefði gert í sjónvarpsviðtalinu og að vonandi mundi slíkt ekki endurtaka sig. Ráðuneytisstjórinn kvaðst mundu koma þessari kvörtun áfram til hlutaðeigandi aðila. Sendiráðsmaðurinn benti ekki á nein sérstök ummæli menntmrh, í sjónvarpsþættinum, sem væru ámælisverð.

Það hefur ekki komið fyrir áður, svo að ég viti til, að sendimaður erlends ríkis hafi komið til utanrrn. og kvartað undan fréttaflutningi útvarps eða sjónvarps.

Ég vil svo aðeins að lokum láta í ljós hryggð yfir þeim atburðum, sem nú eru að gerast í því máli, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, þ.e. baráttunni gegn tjáningarfrelsi sovéska rithöfundarins Alexanders Solzhenitsyns.