13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir greið svör við fsp. mínum. Hefur komið í ljós, að á rökum er reist sú frétt, sem sjónvarpið flutti í gær um umkvörtun sovéska sendiráðsins um s,jónvarpsþáttinn um Solzhenitsyn. Að vísu tók hæstv. ráðh. fram, að hér væri ekki um formleg mótmæli að ræða. Látum það gott heita. En hvað er formlegt eða óformlegt, þegar fulltrúi erlends ríkis kemur hér upp í stjórnarráð til þess að finna að tilteknum dagskrárlið í íslenska sjónvarpinu. Hæstv. ráðh. hafði eftir þessum sendimanni hins erlenda valds, að það væri óviðurkvæmilegt, að háttsettur maður hefði slík ummæli um erlent ríki sem hæstv. menntmrh, hefði haft í þessum þætti.

Ég hef tilgreint nokkur helstu ummæli hæstv. menntmrh., og sjá allir, af hve mikilli hógværð hann hagaði málflutningi sínum, þó að hann hefði ákveðnar skoðanir á framferði því, sem lýsir sér í ofsóknunum gegn Nóbelsverðlaunaskáldinu Solzhenitsyn.

Hinn erlendi sendimaður lét þess getið, að hann vonaðist til þess, að slíkt mundi ekki endurtaka sig, að menn lýstu skoðunum sinum á hliðstæðan hátt og hæstv. menntmrh. gerði. Ég spurði um, hverju rússneska sendimanninum hafi verið svarað. Það kom ekki fram í svari hæstv. utanrrh. Kannske honum hafi ekki verið svarað, tekið þegjandi á móti þessu? En tekið var fram, að ráðuneytisstjóri hefði sagst mundu koma þessu á framfæri. Mér finnst, og ég legg áherslu á það, að hér sé um svo alvarlegan atburð að ræða og hann sé þannig í eðli sínu, að okkur beri ekki að láta ómótmælt slíkri afskiptasemi sem upplýst er, að sovéska sendiráðið hefur haft um þessi efni. Ég legg áherslu á, að það ber að mótmæla ákveðið slíku framferði. Við eigum ekki að þola slíkt. Ég leyfi mér að halda fram, að slíkt mundi ekki þolað í neinu fullvalda, sjálfstæðu ríki. Auðvitað gæti þetta gengið í umgengisvenjum Sovétríkjanna við leppríki þeirra í Austur-Evrópu. En við getum ekki jafnað okkur við þau. Þessi sendimaður erlends valds, sem kemur í utanrrn. okkar, segir, að það sé óviðurkvæmilegt, að svo háttsettur maður sem hæstv. menntmrh. lýsi skoðun sinni á þessu máli, sem hér um ræðir. Kemur mönnum í hug, að í öðrum höfuðborgum vestrænna ríkja hefði gerst hliðstæður atburður, sem þessi? Ég held, að slíkt væri algerlega óhugsandi, því að menn skirrast ekki við, hvort sem menn eru háir eða lágir, og ekki síður þeir, sem eru hátt settir, að lýsa skoðunum sínum í þessu efni.

Í fréttum, sem komu í hljóðvarpinu okkar í morgun, fyrstu fréttum dagsins, sagði, með leyfi hæstv. forseta, út af frétt um handtöku Nóbelsverðlaunaskáldsins Solzhenitsyn:

„Stjórnmálamenn, rith. og fréttaskýrendur viða um heim hafa fordæmt handtöku Solzhenitsyns. Forsíður dagblaða víðast hvar í heiminum gerðu handtökunni skil í morgun. Öll viðbrögð hafa verið á einn veg til þessa. Lýst hefur verið djúpum harmi yfir því, að sovésk stjórnvöld skuli hafa gripið til þessa örþrifaráðs. Margir áhrifamenn hafa lagt til, að Sovétríkin verði sett í stjórnmálalega og menningarlega einangrun, þar til Nóbelsverðlaunahafanum verði sleppt.“

Hér lýkur tilvitnuninni. Ég gæti haldið áfram að lesa fréttina. Ég hef aðeins lesið þessar fáu setningar, ef hér væru einhverjir inni, sem gerðu sér ekki grein fyrir, hver eru viðbrögð almennings í hinum frjálsa heimi við aðförunum gegn Solzhenitsyn fyrr og síðar. Þeir fara villir vegar, sem ekki gera sér grein fyrir því. Ég tel, að það sé mjög miður farið, ef þessari afskiptasemi sovéska sendiráðsins er ekki formlega mótmælt. Mér finnst, að það sé ekki annað sæmandi fyrir okkur. Það er ekki sæmandi annað fyrir okkur sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Það er ekki annað sæmandi gagnvart samvisku okkar hvers og eins í þessu máli.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir svörin, en ég krefst, að hæstv. ráðh. mótmæli þessari framkomu sendiráðs Sovétríkjanna hér í Reykjavík.