14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

148. mál, byggingasvæði fyrir Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarstofnanir

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Mér þótti fróðlegt að heyra í ræðu hv. síðasta ræðumanns, frásögnina af þál. frá 1961 og afdrifum hennar og um orsakir þess, að árangur varð svo lítill sem raun ber vitni. í þessu sambandi langar mig einnig til að rif,ja upp frv., sem Einar Olgeirsson flutti árið 1965 um heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík.

Í frv. var gert ráð fyrir, að ákveðið yrði heildarskipulag miðbæjarins í Reykjavík með það hvort tveggja fyrir augum að varðveita gamlar sögulegar byggingar miðbæjarins og svip hans, eftir því sem við ætti, og tryggja fegurðarsamræmi í þeim byggingum, sem reistar yrðu, sérstaklega þó hinum opinberu byggingum. Í þessu frv. gerði Einar Olgeirsson ráð fyrir, að skipuð yrði n., skipulagsnefnd miðbæjarins, sem skyldi sérstaklega vinna að staðsetningu og teikningu alþingishúss, stjórnarráðshúss og ráðhúss Reykjavíkur, ef ráðlegt þætti, að þær væru allar á miðbæjarsvæðinu.

Annað atriði í frv. Einars Olgeirssonar var mjög afgerandi, en það var það atriði, að hann gerði ráð fyrir, að bannað yrði að reisa varanlegar byggingar á miðbæjarsvæðinu, þar til þessi skipulagsnefnd hefði lokið störfum. M.ö.o. í þessu ákvæði fólst alger friðun miðbæjarsvæðisins. Ég hygg, að ef þetta atriði hefði náð fram að ganga, hefði margt farið betur en raun ber vitni í miðbænum í dag og hefði verið hægt að varast mörg slys og tilviljunarkennt athæfi, sem hafa orðið á þessum tíma.

Þetta frv. Einars Olgeirssonar náði ekki fram að ganga. Meiri hl. n., sem um málið fjallaði, mælti gegn samþykkt þess á þeim forsendum, að borgarstjórn Reykjavíkur hefði þegar samþykkt skipulag miðbæjarins í Reykjavík. Ég verð að játa, að mér þykir þetta undarleg afstaða hjá þeim meiri hl., sem þá fjallaði um málið, því að með röksemdum sínum voru þeir að afsala sér áhrifum og afskiptum af því, hvar alþingishús og stjórnarráðsbygging ættu að standa.

Við flm. þessarar till., sem til umr. er nú, fögnum því og treystum, að alþm. séu nú annarrar skoðunar um, hvað sé tilhlýðilegt, að alþm. myndi sér skoðun um, og þeir líti svo á, að þeir eigi í hæsta máta að hafa áhrif á, hvar þessum byggingum skuli valinn staður. Við teljum þó sjálfsagt, eins og fram kemur, að haft verði samráð við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar.

Í sambandi við þessa till. vil ég sérstaklega leggja áherslu á sóma Reykjavíkur sem höfuðborgar. Það er álit mitt, að sem höfuðborg hafi Reykjavík engan veginn verið nægilegur sómi sýndur. Hana skortir því miður þann myndarbrag, sem á að einkenna höfuðborgir hvers lands. Þessi einkenni eða tákn höfuðborgarinnar eru fyrst og fremst byggingar æðstu stjórnvalda landsins. Þarf ekki að hafa mörg orð um vanrækslu okkar Íslendinga í þeim efnum. Það er í rauninni ekki nema eitt hús, sem við getum verið stolt af að sýna sem aðsetur stjórnvalda, og það er gamla stjórnarráðshúsið. Þegar við bendum á menntmrn., þá er gestum í rauninni ekki vel ljóst, hvort við erum að benda á bifreiðavarahlutaverslun eða menntmrn., og er sannarlega tímabært, að við hugleiðum, hvort ekki sé kominn tími til, að menningarþjóð komi sér upp veglegra menntmrn. Þá er öllum kunnugt, hversu mikið óhagræði það er á allan hátt fjárhagslega og vegna starfsaðstöðu að leigja ýmsar byggingar úti í bæ, jafnvel þótt þar kunni að vera annað í forgrunni en bifreiðavarahlutir.

Eins og kom fram í ræðu 1. flm., erum við mjög gjarnan til viðræðu um það, að reynt verði að finna nýju alþingishúsi stað hér í miðbænum, enda þótt við viljum í væntanlegri hugmyndasamkeppni gera ráð fyrir fleiri stöðum. Ég óttast það hins vegar, að ef ákveðið verður, að nýtt alþingishús verði reist hér, muni koma fram þær raddir, sem knýja á um stjórnarráðsbyggingu á þessu svæði á þeim forsendum, að þessar byggingar þurfi að vera nærri hvor annarri. Ég hygg því, að rétt sé, að hugmynda samkeppnin geri ráð fyrir fleiri stöðum.

Hugmynd hv. síðasta ræðumanns um friðsæla reitinn, svo að ég noti hans eigið orðalag, er mjög aðlaðandi, einkum og sér í lagi ef það verður gert, eins og hann gerði raunar ráð fyrir, með heildarskipulag alls miðbæjarins í huga. í þessu sambandi eru tímabær orð 1. flm. um, að nú sé kominn tími til að huga að örlögum gamla miðbæjarins. Þar hafa þegar of mörg slys gerst. Seinagangur á því að friða þetta svæði, meðan verið er að skipuleggja, hefur haft örlagaríkar afleiðingar, m.a. þær, að nágrenni þessa gamla miðbæjar er ekki lengur skemmtileg og aðlaðandi íbúðarhverfi, heldur skrifstofu- og verslunarhverfi. Nægir þar að nefna Grjótaþorpið, Garðastræti og svæðið austan við miðbæinn allt upp að Skólavörðuholti. Þetta hefur afdrifaríkar afleiðingar fyrir mannlíf allt í þessari borg, og ber sannarlega að taka til höndum hið bráðasta til að sporna við þessari þróun.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, herra forseti, eftir framsöguræðu hv. 1. flm., en ég vil fagna því í lokin, að hæstv. forseti Sþ. befur sýnt þessu máli þann skilning, sem fram kom í ræðu hans.