18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er nú kominn nýr þáttur í málið. Hér var að ljúka ræðu hv. 8. landsk. þm, og sagði, að hann héldi, að ég hefði átt að hafa annað að gera en að ræða um það mál, sem hér hefur verið rætt um nú, þar sem ég hefði þurft að verja þá stefnu ríkisstj. í sjávarútvegsmálum, sem miðaði að því að dæla loðnu aftur í sjóinn. Þetta var heldur smekklegt hjá hv. þm. Hann heldur því fram, að það sé stefna núv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálum, að sjómenn veiði loðnu og dæli henni aftur í sjóinn. Svona var málflutningur þessa hv. þm. En það hefur komið fyrir oftar en einu sinni og í tíð margra ríkisstj., að til þess hafi borið, að sjómenn hafi ekki getað komið afla sínum í verð og þurft að henda honum. Það þekkja þeir, sem eitthvað þekkja til sjávarútvegsmála. En það er sennilega of mikið að gera kröfu til þess, að þessi hv. þm. flokkist undir það. En vitanlega er það svo í þeim tilfellum, sem það kemur fyrir, að sjómenn neyðast til þess að kasta afla sínum aftur, að það er ekki gert vegna þess, að þeir vilji það. Þau atvik hefur þá borið að, að þeir hafa verið hreinlega neyddir til þess. Ríkisstj. hefur ekki neytt neinn til þess, það veit þessi hv. þm. Ríkisstj. hefur þvert á móti greitt fyrir því, eins og hún hefur getað, að þeir gætu losnað við afla sinn. En það er ekki enn á valdi ríkisstj., nema þá að sett séu um það sérstök lög að skylda ákveðna aðila til að kaupa aflann, ef meira aflast en mögulegt er að koma í verð. En sem betur fer hefur nú ekki verið um mikið að ræða í þessum efnum, þó að þetta hafi komið fyrir nú. Það hefur staðið yfir sérstök rannsókn á því, í hve mörgum tilfellum þetta befur átt sér stað og hvernig á því getur staðið, að slíkt kemur fyrir. Mér er satt að segja alveg óskiljanlegt, að það skuli hafa komið fyrir, að litlum bátum, sem hafa aðallega orðið fyrir þessum erfiðleikum, skuli hafa verið neitað um það af verksmiðjum að taka við afla þeirra. Það mál verður auðvitað athugað. En vitanlega er ekki hægt að kenna ríkisstj. um það á neinn hátt. Hún ræður ekki þessum veiðum, hún ræður ekki veðurfari, hún ræður ekki yfir sérstökum skemmdum, sem geta komið í aflann.

Hv. þm. gat þess í leiðinni, að hann ætlaði ekki að fara að tala hér um þá ræðu, sem hann hefði hvorki lesið né heyrt. En svo fór hann auðvitað að tala um ræðuna á eftir og sagði, að þessi ræða hefði verið sérstök auglýsing um ósamstöðu ríkisstj. í utanríkismálum, þó að hann væri nýbúinn að segja, að hann vissi ekki, hvað í ræðunni hefði staðið. (BGr: Hverjir töluðu?) Hverjir töluðu? Nú, er það eitthvert vitni um það, hvernig samstaðan er í ríkisstj., þó að fleiri en einn tali? (BGr: Þegar ráðherrarnir deila.) Ráðherrarnir deildu ekki. Þessi hv. þm. sagðist ekki einu sinni geta haft það eftir, að forsrh. hefði verið að hrekja neitt af því, sem hinn ráðh. hefði sagt, af því að hann vissi það ekki. En þessum hv. þm. þótti það sæmandi að vera með niðrandi orð hér í garð þm., sem er fjarstaddur, segir, að hann hafi legið við í langan tíma að semja ræðu, legið við í fríi erlendis til þess að semja ræðu. Þetta gat hann sagt um þennan þingbróður sinn, þó að búið væri að upplýsa það hér, að þessi margumtalaða ræða hafði verið samin, áður en þm. fór á þennan fund, og ég hafði m.a, lesið ræðuna. En þetta er svona um vopnaburðinn. Það er gripið til að ráðast að fjarstöddum þm. með dylgjur, jafnvel í þeim tilfellum, þegar þm. hefur enga aðstöðu til þess að segja neitt um það mál, sem er til umr.

Það er auðvitað alveg rangt, sem þessi hv. þm. lét liggja hér að og hafði komið fram í þessum umr. hjá öðrum; að ræða Magnúsar Kjartanssonar hafi verið þess eðlis, að hann hafi verið sérstaklega að tala um stefnu íslensku ríkisstj. í öryggismálum eða varnarmálum, heldur aðeins það, sem ég hafði sagt hér áður, að hann lét orð um það falla í almennum umr. á þessum fundi, að afskipti á þann hátt, sem komu fram í orðsendingu norsku ríkisstj., væru ekki til þess fallin að efla góða samstöðu á milli Norðurlandanna. Það var þetta, sem hann sagði. Þetta er vitanlega ekki að hefja almennar umr. um öryggismál Íslands. Slíkt er vitanlega hrein fjarstæða.

En það breytir auðvitað engu um efni þessa máls, þó að hv. 8. landsk. fullyrði, að hér hafi verið um hneykslismál að ræða af hálfu iðnrh. Fullyrðingar hans í þeim efnum verða teknar álíka alvarlega og þegar hann segir, að það sé stefna íslensku ríkisstj. í sjávarútvegsmálum, að menn hendi afla sínum aftur í sjóinn. Það verður tekið álíka alvarlega. Hvort tveggja er jafn ómerkilegt.