18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2246 í B-deild Alþingistíðinda. (2012)

65. mál, orlof

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Við höfum hlýtt á ræðu frsm. hv. félmn. um nál. um frv. til l. breyt. á l. um orlof. Hann las m.a. upp álit félmrn, og lýsti því sjónarmiði n. að í umsögn rn. væri fólginn misskilningur. Ég er n. ekki sammála að þessu leyti. Ég hygg, að álit rn. sé alveg hárrétt. Ég vil í því sambandi leyfa mér að lesa upp úr 3. gr. l. um orlof, með leyfi forseta, en þar segir svo:

„Orlof skal vera 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl.“

Hver maður skal hafa rétt til þess að taka orlof, sem nemur tveimur dögum fyrir hvern þann mánuð, sem hann hefur unnið á síðasta orlofsári, þannig að frá og með 1, maí hvert ár getur hver og einn maður tekið orlof eins og hann hefur áunnið sér á því orlofsári, sem þá er liðið. Þetta er skýrt í 3. gr. l. Síðan kemur í 4. gr. skilgreining á því, á hvaða tímabili menn skulu taka orlof, og það skal samkv. 1. mgr. 4. gr. almennt tekið á tímabilinu frá 2. maí til 15. sept. og þá það orlof, sem menn hafa áunnið sér fyrir það orlofsár, sem þá er rétt nýliðið. Þarna er svo undanþága fyrir þá, sem vinna við landbúnað og síldveiðar, og samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að undanþága verði einnig veitt fyrir skólanema, að þeim sé heimilt að taka allt orlof sitt utan orlofstímabilsins. í frv. er hins vegar alls ekki lagt til, að gerð sé breyting á 3. gr. l., þar sem stendur, eins og ég sagði áðan, að orlof sé tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Samkv. frv. er því skólanemum, ef frv. yrði að 1., heimilt að taka orlof utan orlofstímans, ekki á sumrin, heldur einnig yfir vetrartímann og þá næsta vetur þar á eftir, þannig að skólanemar, sem eru nú í vetur í skóla og hafa áunnið sér á s.l. sumri orlofsréttindi, fengju samkv. þessu ekki rétt til að taka sitt orlof á þessum vetri, sem nú er að líða, heldur hefðu þeir til viðbótar því, að þeir hafa rétt til að taka orlofið næsta sumar, rétt til þess að taka orlofið næsta vetur þar á eftir. Mér er nú spurn: Er þetta til hagsbóta fyrir skólanemendur? Ég vil leyfa mér að vænta þess fastlega, að hv. félmn. skoði þetta mál ögn betur, a.m.k. ef meiningin hefur verið að framkvæma hér einhverja svonefnda réttarbót fyrir skólanema.

Ég vil svo aðeins til viðbótar þessu segja það, að mér er það fullkomlega til efs, að það sé einhver hagsbót að því fyrir skólanemendur að fá í orlofslög heimild til þess að taka orlof yfir vetrartímann. Ég veit satt að segja ekki, hvernig það er hugsað, hvort það er hugsað þannig, að þeir taki sér frí frá skólastörfum til þess að taka sitt orlof, eða hvort þetta er hugsað einungis til þess, að þeir geti tekið út sitt orlofsfé, en stundi áfram vinnu í skólanum. Samkv. orlofslögum er mönnum ekki heimilt að vinna vinnu, sem er svipuð þeirri, sem þeir hafa áunnið sér orlof við á orlofstímanum. En væntanlega yrði skólavinna ekki talin svipuð neinni annarri vinnu, þannig að samkv. l. væri þá væntanlega heimilt að vinna vinnu í skóla, þótt menn teldust vera í orlofi vegna áunninna orlofsréttinda við önnur störf. En ég er sannfærður um, að álag á skólanemendur hér á landi er slíkt, að það er fullkomin ástæða til þess, að þeir taki sitt orlof ekki síður en aðrir vinnandi menn. Það er ekki eðlilegt, að skólanemar stundir strangt skólanám í 7–8 mánuði, vinni síðan það sem eftir er ársins hörðum höndum til þess að sjá sér farborða og hafi aldrei tíma til þess að taka sér orlof. Það má kannske segja, að til þess að þeim sé kleift að taka sér orlof, þurfi að tryggja þeim hærri námslán eða námsstyrki en nú er. En það er reyndar allt annað en hér er til umr., og skal ég því ekki fara inn á það frekar.

En skoðun mín er þessi í stuttu máli: Ég held, að það sé fullkomin nauðsyn til þess, að skólanemar taki orlof, og þegar ég segi taki orlof, þá meina ég, að þeir taki sér frí frá störfum og fari í orlof, sem nemur þeim orlofsréttindum, sem þeir hafa áunnið sér. Hins vegar sé það alls ekki í þeirra þágu, að þeir geti fengið sitt orlofsfé útborgað, á meðan þeir eru í skóla, og þar með tekið út sitt orlofsfé, án þess að taka sér raunverulega nokkurt orlof.