20.02.1974
Efri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

Umræður utan dagskrár

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð hv. þm. Þorvalds Garðars, þar sem hann var með umkvartanir vegna vestfirskra báta og nýafstaðinna árekstra við breska togara. Ég vil leggja áherslu á það, að Vestfirðingar eru sérstaklega settir. Þeir hafa um árabil, lengst allra landsmanna, stundað línuveiðar, og línumið þeirra liggja svo djúpt úti, að það kemur oft og tíðum fyrir, að þeir leggja línu 30–50 mílur undan landi. Þess vegna, þegar þeir samningar hafa verið gerðir, sem voru gerðir bæði 1961 og nú aftur á s.l. ári, hlaut það að leggja auknar skyldur á herðar Landhelgisgæslunni að gæta sérstaklega hefðbundinna línumiða á þessum svæðum. Þetta gildir jafnt um Víkurál og Djúpálinn fyrir norðanverðum Vestfjörðum.

Ég vil aðeins ítreka það, að gert verði allt, sem unnt er, til að friða þessi bátamið og gæta þess þegar breskir togarar vita um, hvar lína liggur, og breska eftirlitsskipið á að vita það líka, að þá endurtaki það sig ekki æ ofan í æ, að togararnir þrátt fyrir vitneskju togi yfir veiðarfæri bátanna. Eins og ég sagði, er þarna æðimikil sérstaða á Vestfjörðum, því að línumiðin liggja djúpt. En það leggur ríkari skyldur á herðar Landhelgisgæslunni að gæta þessara miða.