28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

409. mál, björgunarstarfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Við og við á liðnum árum hefur komið fram í fjölmiðlum, þegar skýrt hefur verið frá slysförum, björgun fólks úr lífsháska eða atvikum, þegar talið var, að fólk kynni að vera í nauðum statt, að björgunarsveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi verið kölluð til aðstoðar og komið við sögu í slíkum tilfellum. Erfitt er að gera sér grein fyrir í fljótu bragði, hversu mikilvægt eða lítilfjörlegt þetta verkefni hefur verið, því að ekki hefur farið mikið fyrir þætti þessarar björgunardeildar í frásögnum fjölmiðla af atburðum af þessu tagi yfirleitt, þótt á það hafi verið minnst á stundum a.m.k., þegar við hefur átt undir slíkum kringumstæðum. Sjálfsagt hafa frásagnir fjölmiðla af þætti umræddrar björgunardeildar í slíkum frásögnum verið í réttu hlutfalli við mikilvægi framlags hennar í hverju tilfelli. Við skulum a.m.k. gera ráð fyrir því, að svo hafi allajafna verið.

En nú er mikið talað um, að herinn á Keflavíkurflugvelli eigi að fara af landi brott. Að vísu er ekki séð fyrir, hvernig því máli reiðir af, eins og sakir standa. Samt er ekki úr vegi að mínum dómi að reyna að gera sér grein fyrir því nú þegar, hvaða afleiðingar það hefði fyrir slysavarnir, sjúkravarnir og almannavarnir í landinu, ef björgunarsveit varnarliðsins hyrfi héðan á brott, og hvort ekki sé nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að fylla upp í það skarð, sem eftir yrði á þessu sviði við brottför þess.

Til þess að unnt sé að fá nokkra mynd af þætti varnarliðsins við framkvæmd þessara mála hér á landi með það fyrir augum, að leitast verði við að gera ráðstafanir í tíma, til þess að ekki dragi úr slysavörnum, sjúkravörnum og almannavörnum við hugsanlega brottför björgunardeildar Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli, hef ég lagt fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. utanrrh. Af svörum hans má e.t.v. ráða, hvort eða hverra aðgerða sé þörf í þessum efnum. En spurningar mínar eru þessar, þær eru á þskj. 349:

„1. Hve margar flugvélar og þyrlur og af hvaða gerðum og hvaða önnur tæki notar varnarliðið á Keflavíkurflugvelli við björgunarstörf?

2. Hve mikinn mannafla notar varnarliðið beint eða óbeint við björgunarstörf?

3. Hve oft hefur björgunarsveit varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og aðrar deildir þess látið í té aðstoð við fólk í nauðum statt að beiðni opinberra aðila íslenskra á árinu 1973? Hvernig flokkast þessi aðstoð eftir tegundum neyðartilfella?

4. Telur ráðh. nokkuð því til fyrirstöðu, að Íslendingar gætu tekið þessa björgunarstarfsemi að sér?“