04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Um meginefni þessa frv. er fátt eitt að segja. Hér hafa orðið tæknimistök, sem komið hafa upp, eftir að lög voru samþ. um veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni. Hæstv. ráðh. leggur nú til. að þessi tæknilegu mistök verði leiðrétt. Er út af fyrir sig ekkert við þessu að segja. Hér hafa orðið mistök, sem eru mannleg, má segja, þó að leið séu, og ég hygg, að við græðum lítið á því að fara að karpa um þetta að ráði, því að auðvitað fær málið framgang hér í hv. d. og í þinginu öllu.

En ég vil segja nokkur orð í sambandi við nótaveiðina, sem hér hefur borið á góma, og þau orð, sem hæstv. ráðh. lét falla um það efni. Hann upplýsti, að þetta mál sé til sérstakrar skoðunar í rn., og er það vel. En ég vil taka undir þau orð, sem komu fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e, um nótaveiðina almennt. Hér er um verulegt vandamál að ræða, og nauðsynlegt er að finna skynsamlega leið út úr þessum vanda. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þó að það kunni að vera eitthvað mismunandi skoðanir norðanlands um þessi efni, er ákaflega margt, sem mælir með því, og miklir hagsmunir og áhugamál margra, að áfram verði heimilað að veiða í nót að nokkru fyrir Norðurlandi. Það eru býsna margir bátar, sem stunda þær veiðar. Þó að það sé ekki mikill fjöldi miðað við alla báta landsins, er það býsna stór floti miðað við einstaka staði og miðað við Norðurland í heild, þannig að illa kann að fara, ef ekki verður fundin skynsamleg leið út úr þessum vanda. Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. og menn hans í rn. leiti allra skynsamlegra leiða til að leysa þetta vandamál.