06.03.1974
Neðri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2567 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

253. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það hefur verið áberandi í þessum umr., að þær hafa orðið almennt umr. um þau frv., sem eru í samhengi við það frv., sem hér er nú á dagskrá. Þeir hv. tveir stjórnarandstöðuþm., sem hafa talað hér, hafa lagt á það áherslu, að nauðsyn bæri til að vanda undirbúning þessara mála og hafa meira samráð við fólkið í landinu en gert hefði verið í þessu sambandi. Ég verð að segja það út af málum eins og frv. til jarðalaga. að upphaf þeirra var með þeim hætti, að Búnaðarþing skoraði á landbrh. að skipa n. til þess að semja frv. að jarðalögum og endurskoða ábúðarlög og önnur þau lög, sem vörðuðu ábúð og setu á jörðum. Eitt af fyrstu verkefnunum, sem Búnaðarfélag Íslands bar upp við mig sem landbrh., var einmitt þetta mál. Og nauðsynin, sem Búnaðarþing taldi á tilveru þessarar löggjafar, var einmitt sú þróun, sem þeir töldu, að fyrirsjáanleg væri, að það gengi í þá átt, að jarðir færu meira og minna í brask hér á landi og í það verð, að á þeim yrði ekki búandi, þess vegna bæri nauðsyn til að koma í veg fyrir þessa þróun, og í öðru lagi, að með þessum bætti, að nýta landið á skipulegan hátt, væri einnig hægt að tryggja það, að þéttbýlisfólkið hefði aðgang að landinu, það gæti orðið útilokað jafnt sem hinir, ef nokkrir fjársterkir menn ættu að kaupa upp helstu jarðir landsins. Og það voru ekki valdir ómerkari menn til þess að semja þessi lög heldur en formaður Búnaðarfélags Íslands, núv. ráðuneytisstjóri í landbrn. og starfsmaður Stéttarsambands bænda. Þessir tveir, formaður Búnaðarfélagsins og starfsmaður Stéttarsambandsins, voru tilnefndir af þessum félagssamtökum bændanna,, en þriðji án tilnefningar. Og formaðurinn í þessari n. var formaður Búnaðarfélags Íslands.

Mér finnst, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan farið var að vinna að þessum málum, hafi það sýnt sig, að hér var tímabæru máli hreyft, því að með hverju ári sem líður hafa skapast meiri og meiri vandræði úti um sveitir landsins vegna þess að fjársterkir menn vilja kaupa þar upp jarðir, sem ýmist slíta í sundur byggðina í viðkomandi sveitum eða jafnvel hefði getað komið í veg fyrir það, að bændur gætu komið fénaði sínum á fjall. Og það eru orðin æðimörg tilfellin, sem hefur verið leitað til landbrn. til þess að aðstoða sveitarfélögin með fjárútvegun til þess að kaupa þessar jarðir, svo að þær lentu ekki í höndunum á þessum bröskurum. Og það var nú síðast fyrir jólin, að þá átti að fara að selja hálft kot, eyðikot, vestur á Mýrum fyrir hvorki meira né minna en 6 millj. kr. Þessi jörð var þannig staðsett, að ef braskarar, sem voru að verki, hefðu náð alveg tökum á jörðinni, gátu þeir lokað upprekstrarlandinu fyrir bændunum í sveitinni. Hér var ekkert smámál á ferðinni. Og það var ekkert lítið mál, þegar svo fámennt sveitarfélag sem þarna var aðili að varð að leggja á sig þá kvöð að bjarga sér frá þessari hættu.

Ég held, að það sé því tómt mál að tala um, að Alþ. eigi að sitja aðgerðalaust í slíku stórmáli sem þessu og láta leggja landið þannig undir fáa auðjöfra. Þá er það hvorki til gagns né gleði fyrir bændur landsins eða aðra þegna þessa þjóðfélags. Og það kom fram í sjónvarpsviðtali, sem 4 fulltrúar á Búnaðarþingi áttu í s.l. viku, að þeir töldu þetta hina merkustu löggjöf, sem nauðsyn bæri til að fá, og þeir bentu á, að einmitt með þessari löggjöf væri hægt að koma í veg fyrir, að jarðir færu í eyði í sveitum landsins, og einnig að koma í veg fyrir að þéttbýlisfólkið fengi að njóta landsins. Með skipulegum hætti væri einmitt hægt að koma þessu á þann veg, að báðir þessir aðilar gætu notið. Ég verð að segja, að ég átta mig ekki á því, að í þessari hv. d. skuli vera hafður uppi áróður gegn þessu frv., áður en það kemst hér á dagskrá. Það má vel vera, að hæstv. fyrrv. landbrh. geti kímt í kampinn yfir slíkri framsýni að berjast á móti máli, sem bændastéttin í landinu með forustumönnum sínum og heildarsamtökum óskar eftir, að verði lögfest, og það má vel vera, að hann haldi, að hann sé að vinna þar gæfuspor. En reynslan mun hvorki sýna honum né öðrum það. Það þarf enginn að halda því fram hér á hv. Alþ., að samtök eins og Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, búnaðarsamböndin í landinu, kjörmannafundirnir, þetta séu allt ómerkar samkomur, sem eigi minna að ráða um þessi málefni sveitanna, sem eru grundvallaratriði fyrir byggð í sveitum landsins, heldur en skipulagsstjórn ríkisins, með fullri virðingu fyrir henni og þeim verkefnum, sem hún á að sinna, eða Samband ísl. sveitarfélaga, sem hefur auðvitað miklu viðtækara svið en þetta og yfirgnæfandi meira að segja um þetta en þéttbýlisstaðina og áttar sig ekki á. hvað þetta er mikils virði fyrir þéttbýlismálin. Ég held því, að hv. þm. verði að skoða hug sinn betur og gæta að, hvað hér er á ferðinni, og a.m.k. að bíða með gagnrýnina, þar til frv. sjálft kemur hér til meðferðar.

Það er engin ánægja og það verður engin ánæg,ja að lenda í mörgum Votmúlamálum, því skulu hv. þm. gera sér fullkomlega grein fyrir. En þau verða mörg Votmúlamálin, sem sveitir landsins eiga eftir að lenda í, ef Alþ. hefur ekki manndóm í sér til þess að reisa hér skorður við. Og aðrar þjóðir, eins og frændur okkar á Norðurlöndunum, hafa séð, að hér er hætta á ferðinni, þeirra löggjöf um þessi efni er margfalt þrengri en það frv., sem hér er lagt til að samþ. verði og enn þá er í meðförum Ed.

Þá hefur inn í þessar umr. verið blandað málum eins og heykögglaverksmiðjum ríkisins. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að setja yfir þær heildarstjórn og móta heildarstefnu í sambandi við heykögglaverksmiðjurnar. Þetta er alveg nýr þáttur í okkar sögu. Þegar Fóður og fræ var sett upp í Gunnarsholti, var engin löggjöf um það eða verið fjallað um það hér á hv. Alþ. Það var bara tekin ákvörðun um það. Slíkt er hægt að gera um einstakar verksmiðjur e.t.v., en ef á að vera heildarstefna í þessum málum, er ekki hægt að hafa slík vinnubrögð.

Ég tek undir það og fagna því, að hv. 5. þm. Norðurl. v. skyldi vera mér sammála um, að skipulagsmál sveitanna eru annars eðlis en skipulagsmál þéttbýliskjarnanna. Það eru allt önnur sjónarmið, sem koma þar til greina, og þess vegna ber brýna nauðsyn til að hafa annan hátt á yfirstjórn þeirra mála heldur en gert er með því, sem er í skipulagslögunum. Þar er fyrst og fremst átt við skipulag, þar sem byggður er upp þéttbýliskjarni. Ég tek líka undir það, að brýna nauðsyn ber til þess, enda til þess ætlast, að hafa samráð bæði við búnaðarfélagsog sveitarstjórnir um þessi mál. Og framkvæmd á þessum málum kemur ekki að notum, nema samráð sé haft við þessa aðila báða, enda er til þess ætlast.

Ég tek líka undir það, að sérþekking þurfi að koma til í sambandi við byggðaáætlanir og fleira þessu líkt. Á það vil ég minna, því að menn virðast álíta, að óhugsandi sé, að þetta sé hægt að framkvæma, ef breyting verður á forminu þar um, að í landbrn. er starfandi maður, sem hefur sérþekkingu á búnaðarhagfræði og áætlunargerð. Ég hygg, að hann muni hverjum öðrum jafnfær til að vinna að slíkum málum og það sé eðlilegt, að rn. sjálft taki þau mál í sínar hendur, enda er það á ýmsan hátt eðlilegt. Þar yrði að sækja til fjárveitinga í sambandi við aðstoð slíka sem þessa, auk þess sem það yrði alltaf að kveðja til í þessu sambandi bæði héraðsráðunauta og fá aðstoð Búnaðarfélags Íslands og slíkra sérfræðimenntaðra manna, sem fjalla um einstaka þætti í sérfræði landbúnaðarins, því að það er enginn vafi á því, að ef á að gera vel skipulagðar áætlanir um uppbyggingu heilla héraða, eins og t.d. Inn-Djúpsáætlunina, þá þarf að kveðja þar til marga menn, til þess að reynt sé að tryggja, að allir þættir séu teknir með. Það er ekki nóg að ákveða, að búin skuli vera svo og svo stór, heldur þarf einnig að athuga, hvaða möguleikar eru fyrir það landssvæði, sem liggur að þessum héruðum, til að framfleyta búum af þeirri stærð, sem um er rætt. Þess vegna verða slíkar áætlunargerðir aldrei unnar af einum aðila, heldur verða þar fleiri að koma til. Og það er ekki nema eðlilegt, að landbrn. hafi yfirstjórn á slíkum málum.

Út af því, sem hv. 5. þm. Norðl. v. spurði um sparnað í sambandi við verk þau, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur unnið, en áður voru hjá Landnáminu, þá er því til að svara, að kostnaðurinn við rekstur Stofnlánadeildar landbúnaðarins hefur heldur minnkað en aukist á s.l. árum og var hvað minnstur á s.l. ári þrátt fyrir þessa aukningu eða þá fyrirhöfn, sem hún hefur af þessu verki, enda er hún náttúrlega hverfandi lítil. Það leiðir svo af sjálfu sér, að það hlýtur alltaf að leiða til sparnaðar að leggja niður stofnun með húsnæði og þann vinnukraft og annað, sem henni fylgir. Ég er alveg sannfærður um, að þessi breyting leiðir til sparnaðar, og ég er líka sannfærður um það, að þegar fram líða stundir, þá leiðir hún til betra skipulags, vegna þess að þá er verið að vinna að sama málaflokki með einni yfirstjórn og sömu aðilum, í staðinn fyrir það, að nú er þetta gert af mörgum aðilum, eins og t.d. jarðaskráning, sem mun vera á þremur stöðum, en mundi verða á einum stað eftir slíka breytingu og yrði miklu handhægari, eftir að væri búið að gera slíkt.

Ég skal svo ekki fara langt út í að ræða við hv. 5. þm. Norðurl. v. um framlög til gróðurhúsabygginga og til íbúðarhúsa í sveitum og að undir viðreisn hafi alltaf verið fylgt verðhækkunum þar um. Verð ég að játa, að ég hef ekki það sterkt minni, að ég treysti mér til þess að muna allar hennar syndir í þeim efnum frekar en öðrum. En ég hygg, að ef að væri gáð, mundi finnast misbrestur á því, enda kannske ekki neitt við það að athuga, þó að smábrestir séu. Mig minnir líka, að talan, sem hv. þm. gaf upp um lánin 1971 út á íbúðarbyggingar, hafi ekki verið hækkun ákveðin haustið 1971, þar sem var fært upp í 600 þús. úr 450 þús. Mig minnir þetta, ég þori ekki að fullyrða það, því að ég hef ekki hjá mér tölur þar um, en mig minnir, að þegar stjórnarskiptin urðu, hafi lánin verið árið áður 450 þús. og hafi haustið 1971 verið hækkuð í 600 þús. Vel má vera, að mig misminni þar um, ég hef ekki haft möguleika til þess að athuga þetta.

Ég held líka, að það sé alveg óþarfi fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af því, að stefna núv. ríkisstj. muni rýra aðstoð við landbúnaðinn í landinu. Ég held, að það komi fram í öllum umr. um landbúnaðarmál. að afkoma bænda og landbúnaðarins í heild nú 2–3 síðustu árin sé sú besta, sem nokkurn tíma hefur verið. Ég hygg, að bændur hafi aldrei verið nær því að ná verðlagsgrundvallarverði heldur en þeir voru á s.l. ári, þó að ég hafi ekki enn þá tölur þar um. En á árinu 1972 varð á því veruleg breyting.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að það er ekki ástæða til að vera að rasa um ráð fram í breytingum sem þessum. Ég hins vegar held, að það sé ekki hægt að segja það um þetta mál. það er búið að vera það lengi á döfinni. Það hefur verið stefnt að því með flutningi þeirra frv., sem sýnd voru hér í fyrra og hefur áður verið greint frá, að að þessu væri stefnt, svo að það sé ekki hægt að segja, að hér sé hrapað að. Hitt verður svo að ráðast, hvort hv. þm. eru það sinnaðir, að þeir telji ríkisstofnanir meira virði en stofnanir, sem eru samansettar af félagssamtökum bænda, eins og Búnaðarfélag Íslands og slíkar stofnanir, því að til þeirrar stofnunar mundi megnið af þessum verkefnum fara. Að sumu leyti mundu þau líka ganga í Stofnlánadeild landbúnaðarins, það sem þar ætti eðlilega heima, og að einhverju leyti í rn. sjálft. Um þetta getur hver haft sína skoðun, og ætla ég enga fordóma að vera með þar um. Hitt er ég sannfærður um, að hér er á ferðinni málefni, — og er þar að minni hyggju jarðalagafrv. veigamest, — málefni, sem varðar landbúnaðinn meira en við gerum okkur grein fyrir í dag og varðar í raun og veru þjóðfélagið allt, því að það er spurningin um það, hver á að eiga landið, hvort það eigi að vera bændurnir, sveitarfélögin eða ríkið í einstaka tilfellum eða hvort það eigi að vera fámennur hópur fjársterkra manna, sem nær þessu til sín, af því að lítil sveitarfélög eiga ekki kost á að keppa við þá um hátt kaupverð, sem ekki er einu sinni trygging fyrir, að þeir hafi boðið. Það er engin trygging fyrir þeim tilboðum, sem sveitarstjórnirnar eru kúgaðar með að kaupa, að viðkomandi kaupandi ætli í raun og veru að kaupa á þessu verði. Og ég held að það væri gifta löggjafans að koma í veg fyrir slíka þróun.