08.03.1974
Efri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

208. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skal vera örstutt, enda mála sannast, að bað er eiginlega hálfgerð skömm að því að vera að blanda sér í þessar venjulegu innanlandserjur þeirra þm. Vestf. En það er líka rétt að minna hv. síðasta ræðumann á það, vegna þess að hann virtist tala eingöngu við 1. þm. Vestf., að vitanlega stendur milliþn. í byggðamálum öll að þessu máli, og það á auðvitað eins við um hans flokksmenn þar og aðra. Hitt skil ég mætavel. bæði af því að hv. 1. þm. Vestf. hafði hér framsögu og eins af því, að þessum hv. þm. er sérstaklega hugleikið að tala við hann og hann beindi máli sínu sérstaklega til hans.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt að minna á það hér, að milliþn. í byggðamálum hefur athugað húsnæðismálin mjög gaumgæfilega í heild og hinar ýmsu leiðir, sem þar ætti að fara til úrbóta. Er bent á þetta í grg. með þessu frv. Þó að ég hafi ekki átt þess kost að sitja þá fundi byggðanefndar, sem fjölluðu um þetta mál sérstaklega á síðasta stigi málsins, er mér ekki kunnugt um, að innan n. hafi verið nokkrar teljandi deilur eða nokkrar teljandi mismunandi skoðanir varðandi þetta mál.

Það er sagt frá því í grg., að ítarlegar viðræður hafi farið fram bæði við félmrh. og framkvæmdastjóra Húsnæðismálastofnunar ríkisins og ýmsa aðra aðila, sem að húsnæðismálum starfa. Því er það, að hér er aðeins um einn einangraðan þátt þessa máls að ræða, sem verið er að fara hér inn á. Og auðvitað vaknaði sú spurning í n., sem ég veit að hv. frsm. hefur talað um, þegar hann mælti fyrir málinu, hver ætti að vera hinn rétti aðili til útdeilingar þessa fjár, hvort það ætti að vera Byggðasjóður eða hvort það ætti að vera Húsnæðismálastofnun ríkisins. Niðurstaðan varð sem sagt sú, að það var ákveðið, að þetta heyrði undir Byggðasj. og hljóta veigamikil rök að mæla með því, að það sé gert.

Ég vil aðeins segja það, að hv. 5. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, lagði á það mikla áherslu hér áðan, að þetta frv. væri ekki næg lausn. Um það erum við, sem erum í milliþn. í byggðamálum, áreiðanlega allir sammála. Hér er ekki farið fram á neina fullnægjandi lausn til handa fólki úti á landsbyggðinni varðandi t.d. þann viðbótarkostnað, sem leggst á húsnæði þess, vegna flutningskostnaðar o.fl.

Hins vegar er rétt að benda sérstaklega á það, að hér er verið að fara út á nýja braut. Byggðanefnd er sammála um, að þar sem verið er að fara hér algerlega nýja leið, eigi ekki að fara þar of geyst í sakirnar til að byrja með, ekki setja fram neinar óraunhæfar till., sem gersamlega ómögulegt er svo að framkvæma. En það fer auðvitað ekkert á milli mála, að réttarbótin fyrir fólkið á landsbyggðinni, ef þetta frv. nær fram að ganga, er tvímælalaus.

Hver örvunarlánin eigi að vera og hvort þessar 100 millj. kr. á ári, sem þarna er gert ráð fyrir, sem sagt sú upphæð, sem þarna er, sé hin eina rétta, — ég held, að engum okkar detti í hug að halda því fram, að þarna höfum við fundið eina allsherjarlausn á málinu með þessari tölu. En hún hefur eflaust verið sett að vel athuguðu máli, þótt ég kæmi ekki nálægt endanlegri afgreiðslu þess.

En ég vildi aðeins varðandi þetta, segja: Hér er verið að fara nýja leið. Hér er sannarlega verið að vinna myndarlega að því að leiðrétta að nokkru hlut landsbyggðarfólksins. Þá langar mig til að spyrja, af því ég er kannske þessu máli svo ókunnugur og hv. þm. Vestf. Þorvaldur Garðar talaði hér um þá miklu háðung, sem þetta frv. væri, hvað lítill myndarskapur væri yfir því, það væri nánast hvorki fugl né fiskur og annað því um líkt. Það er sannarlega gaman að heyra þetta, og ég er sannfærður um, að hv. þm. talar hér ekki um efni fram. Það væri sannarlega gaman, fyrir a.m.k. mig, sem væri þessu þá svona ókunnugur, að heyra sambærilegar tölur um aðstoð við landsbyggðarfólkið í tíð þeirrar viðreisnarstjórnar, sem hv. þm. studdi hvað dyggilegast og hafði mjög mikil áhrif í húsnæðismálum einmitt. Ég hefði sannarlega gaman af því að heyra sambærilegar tölur frá þeim tíma. Og þá, þegar ég er búinn að heyra þær og sannfærast um, að þá hafi verið betur gert við fólk landsbyggðarinnar alveg sérstaklega, skal ég taka undir með honum, ef þær tölur eru svona glæsilegar eins og hann gaf í skyn, að vafalaust er litill myndarskapur yfir þessu frv.