12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

416. mál, landshlutaáætlun fyrir Norður-Þingeyjarsýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Jónasar Jónssonar hef ég þetta að segja, en upplýsingar mínar hef ég frá Framkvæmdastofnun ríkisins, áætlanadeild hennar:

Sökum forgangs annarra verkefna var þessi áætlunargerð falin Verkfræðiskrifstofu Guðmundar Óskarssonar með stuðningi margháttaðra gagna frá áætlanadeild. Hafa ýmsar undirbúningsathuganir verið gerðar og haft víðtækt samráð við heimamenn. Jafnframt þessum athugunum og í tengslum við þær hafa heimaaðilar notið ráðgjafar og fyrirgreiðslu af hendi verkfræðiskrifstofunnar. Frumskýrslu um þessar athuganir átti að leggja fram fyrir tveim vikum til umræðu með áætlanadeild og framkvæmdaráði, en fórst fyrir vegna veikindaforfalla, og er stefnt að þeim fundi n.k. miðvikudag. Af þessum sökum er að svo stöddu minna hægt að upplýsa en ella.

Um síðari lið fsp. er það að segja, að engin grein atvinnulífsins hefur fyrir fram verið útilokuð frá athugunum og tillögugerð, þótt í fyrstu væri lögð megináhersla á atvinnulíf þéttbýlisstaða. Þegar þykir ljóst, að leggja verður rækt við bættan verkstæðarekstur og þjónustustarfsemi. Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að sjávarútvegur þéttbýlisstaðanna hefur verið til sérstakrar meðferðar innan ramma hraðfrystihúsaáætlunar og skuttogaraáætlunar. Enn fremur hefur áætlanadeild nýlega lokið sérstakri athugun á rekstri og efnahag Jökuls h/f á Raufarhöfn til afnota við ákvarðanir um hugsanlega sérstaka fyrirgreiðslu vegna þessa fyrirtækis og um leið sveitarfélagsins.

Þessar upplýsingar fékk ég að vísu 25. febrúar, og ég verð því miður að játa, að þegar ég ætlaði að hafa samband í morgun við forstöðumann áætlanadeildar og fá upplýsingar um það, hvort af þeim fundi, sem þarna er nefndur, hefði orðið eða hvað hafi gerst í málinu síðar, þá tókst mér ekki að ná sambandi við hann, þar sem hann var á fundi í annarri n. annars staðar í bænum, og ég verð því miður að biðja afsökunar á því.