12.03.1974
Sameinað þing: 65. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

418. mál, endurskoðun á tryggingakerfinu

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef á tveimur undanförnum þingum flutt þáltill. um endurskoðun á tryggingakerfinu, til þess að gera tryggingakerfið einfaldara, ódýrara og réttlátara. Ég hef ekki tíma til að ræða málið ítarlega nú á fáum mínútum, en um einfaldleikann er það að segja, að lögboðna tryggingakerfið er tvöfalt eða þrefalt, og gefur auga leið, hvort það er hentugt, t.d. með sjúkratryggingarnar. Þá veit ég, að mörg félög hafa komið sér upp sérstökum sjúkrasjóðum, þannig að atvinnurekendur voru látnir borga t.d. 1% af kaupi til sjúkrasjóðanna.

Í gegnum hið lögboðna tryggingakerfi meðlima stéttarfélaga og bænda eiga að koma bæði til örorku- og sjúkratryggingar, og nú er ríkið búið að taka að sér sjúkratryggingarnar. Gefur auga leið að það væri ódýrara að hafa þetta einfalt, því sennilega eru eitthvað um 30 tryggingasjóðir að myndast. Þeir eru eftirlitslitlir, svo ekki sé meira sagt, ef ekki eftirlitslausir, og það er ógerlegt að stjórna útlánastarfsemi þessara sjóða, hafa yfirstjórn með þeim og stjórna af fullkominni hagsýni fyrir þjóðarbúið í heild með því kerfi, sem nú er ríkjandi. Viðvíkjandi ranglætinu get ég aðeins bent á það, að opinberir starfsmenn þurfa ekki að greiða iðgjöld nema í 30-35 ár í hæsta lagi, og það er verðtryggt hjá þeim. Óbreyttur verkamaður þarf að fara að greiða 16 ára gamall og þarf að greiða til 67 ára aldurs. Raunar fá menn, sem eru í skóla, 4% endurgreidd, en 6% frá atvinnurekandanum eru auðvitað ekkert annað en kaup, því að atvinnurekandinn getur alveg eins borgað launþeganum það í kaup. Það er tekið af 10%. Þeir geta fengið 4% endurgreidd, líkt og sjómenn hafa vanalega fengið, en 6% eru hirt, þeim er stolið af þeim.

Ég hef látið fara fram athugun á því, hve mikill munur er á að greiða iðgjöld í 50 ár eða 30 ár. Ég lét gera þetta 1970, og þá reiknaði ég með 330 þús. kr. launum. 10% af því eru 33 þús., og það gerir á 30 árum 6 millj. 971 þús., en sama upphæð, 33 þús. á ári með 10% vöxtum og vaxtavöxtum, gerir í 40 ár 16 millj. 66 bús., það nærri þrefaldast. Og á fimmta áratugnum a.m.k. fjórfaldast upphæðin. Ég hef látið athuga það, — ég athugaði það raunar sjálfur, — að af 600 þús. kr. kaupi, sem ekki mun óalgengt að hjón hafi yfir árið, ef þau eru gift, fara 60 þús. á ári í iðgjöld, og með 10% vöxtum og vaxtavöxtum í 40 ár gerir það hvorki meira né minna en 29 millj. 211 þús. Þetta er reytt af fólkinu. Nú er þetta óverðtryggt að miklu leyti, og vitanlega fær fólkið aldrei aftur nema örlítið brot af því, þannig að þarna er um algera féflettingu að ræða. Nú er greitt í gegnum ríkiskerfið yfir 10 milljarðar í tryggingarnar. Þeir hafa gert áætlun um það, hagrannsóknastjóri og ég held Jóhannes Nordal. þeir hafa birt það, að það muni verða 4 milljarðar, sem þessir lífeyrissjóðir hafa til umráða nú í ár. Það er ekkert eftirlit með þessu og ekki hægt að líta eftir því, að þessu sé varið á hagnýtan hátt, þannig að þetta stefnir í algjörar ógöngur. Í gegnum ríkiskerfið eru borgaðir yfir 10 milljarðar til tryggingamála og svo í gegnum lífeyrissjóðina eitthvað 4 milljarðar, og þetta verður yfir 20% af kaupi fólksins samanlagt. Nú er annar hvor maður dauður, áður en hann verður 67 ára og á að fara að fá þetta, því að meðalaldur karlmanna er ekki nema 71 ár. Þá er þetta bara hirt.

Í þáltill., sem ég flutti í fyrra, gat ég þess í 4. lið till., að ef það er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að afla lánsfjár, þá sé frekar farið inn á skyldusparnað. Það er allt annað.

Ég hef eftir föngum reynt að gera fólk óánægt með, hvernig það er féflett í gegnum þessa lífeyrissjóði, og það ekki að ástæðulausu, því að það er farið verst með þá, sem eru fátækastir og mega sín minnst, og best með þá sem eru ríkastir og mega sín mest, þannig að það er eiginlega furðulegt, að verkalýðssamtökin skuli ekki vera búin að sjá þetta. Raunar eru flestir búnir að sjá það. En það verður einhvern veginn ekkert úr því, að þeir vinni að breytingu í þessu efni. Það hefði verið miklu nær fyrir þá á Loftleiðahótelinu um daginn að reikna þetta út og laga það heldur en reyna að búa til aðra — raunar ekki eins mikla vitleysu, en hátt í það.