13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2483)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er víst ekki samkv. venju, að stjórnarandstæðingar svari fyrir stjórnarliða. En í sambandi við þá eðlilegu og réttmætu umkvörtun að mínu viti, sem hv. þm. Jón Árnason kom með varðandi frv., sem hann flutti varðandi almannatryggingar, þá vil ég aðeins upplýsa það, því að ég sé að form. þeirrar hv. n., hv. þm. Helgi Seljan, sem málið er hjá, er ekki mættur, að í gærmorgun var ákveðið á fundi n. að senda sér í lagi 3. gr. þess frv., sem hv. þm. ræddi um, til umsagnar Tryggingastofnunar ríkisins.

Eftir þær umr., sem fram fóru á nefndarfundinum, var upplýst, að 1. og 2. gr. frv. munu vera meðal till. þeirrar u., sem nú endurskoðar tryggingalöggjöfina, og málið ætti því að því leyti að vera komið allvel áleiðis. En sér í lagi um 3, gr. var talið nauðsynlegt að fá umsögn Tryggingastofnunarinnar, og þannig standa mál þessi nú.

Ég sé, að form. n. gengur nú í salinn, þannig að hann hefði getað svarað þessu, en ég vildi, að það lægi fyrir, að þannig standa nú mál um þetta frv.