17.10.1973
Neðri deild: 3. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

7. mál, tollskrá

Flm. (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrir hv. d. frv. til 1. um breyt. á l. um tollskrá, sem felur í sér, að niður falli 14. tölul. 3. gr. 1. En þar er átt við, að brott verði numið heimildarákvæði, sem hljóðar svo: „Að veita undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðherra og sendiráðsstarfsmanna í samræmi við reglur um bílamál ríkisins.“

Í raun og veru þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum. Þetta er afskaplega einfalt mál, og að mínu viti er ég ekki að hreyfa þessu af því, að ég telji, að þetta valdi neinum úrslitum um afkomu ríkissjóðs, það þarf stærri keppi nú orðið til að velta slíku fjalli sem þar er um að ræða. En ég hygg, að hér sé miklu frekar um að ræða siðlegt atriði. Ég hygg, að ég geti fullyrt, að hvergi í vestr. lýðræðisríkjum tíðkist það, að ráðherrar geti gefið sjálfum sér eða veitt sér undanþágu frá aðflutningsgjöldum og söluskatti til kaupa á eigin bifreiðum, og mér þætti mjög skemmtilegt, ef einhver gæti upplýst eitthvert hliðstætt dæmi, annaðhvort frá Norðurlöndum eða Bretlandi, um slíkt. Ég tel, að hér sé um það háttalag að ræða, að því verði ekki látið ómótmælt, og sérstaklega fer þetta að verða dálítið andkannanlegt, ef sami maður getur orðið ráðherra þrisvar og þá fær hann 3 bíla hálfgefins, og auðvitað er ráðherrann svo fínn maður, að hann kaupir ekki Trabant eða Volkswagen, nei, mikinn og veglegan skriðdreka af stærstu gerð. Og þeim mun dýrari sem bíllinn er, því meiri fær ráðherrann í aðra hönd í eftirgjöf á aðflutningsgjöldum og söluskatti.

Ef ég held áfram, lýtur þetta einnig að eftirgjöf á bílum til sendiráðsstarfsmanna. Þetta er gamall vani, og það má vel vera og er ekki ósennilegt, að sendiráðsmenn í öðrum ríkjum hafi svipuð réttindi, ég skal ekkert fullyrða um það, það er meira að segja mjög sennilegt. Hins vegar tel ég það algjöran óþarfa, fyrst og fremst vegna þess, að sendiráðsmenn eru á marga lund miklu betur launaðir en þeir menn, sem vinna hér heima, og í öðru lagi er mikil ásókn að komast í utanríkisþjónustuna, þó að hún sé, með þeim hætti, að hún er lokuð veröld, og þangað koma ungir röskir lögfræðingar úr herbúðum íhaldsmanna. En þar er sá háttur á, að það þarf ekki að auglýsa þær stöður, þetta er lokuð veröld, þetta er alveg undanþegið, og ásóknin er svo mikil, að það er alveg ástæðulaust að vera að ginna menn til starfa í utanríkisþjónustunni á þann hátt, sem hér er gert, með eftirgjöf á aðflutningsgjöldum á bílum.

Ekki meir um þetta, nema aðeins þessi orð: Nú hafa allir ráðherrar í þessari ríkisstj. fengið sér bíl. Og nú hygg ég, að þeir ættu að vera svo klókir að sjá til þess, ef íhaldið tæki við, að íhaldið fái ekki líka nýja bíla, svo að ég vonast nú eftir því, að þetta njóti stuðnings frá ráðherrum og þingmönnum, og legg til, að málinu verði vísað til fjh.- og viðskn.