13.03.1974
Efri deild: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

46. mál, jarðalög

Frsm. minni hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Í raun og veru sé ég ekki, að ég þurfi að kveðja mér hljóðs að nýju. Ég hygg, að þeir, sem hér hafa talað á undan mér og haft aths. fram að færa í sambandi við mitt mál, fengju best svörin með því að lesa aftur þá ræðu, sem ég flutti hér við þessa umr. En fyrst það dugir ekki, verð ég að fara um þetta nokkrum orðum.

Hv. frsm. meiri hl., Páll Þorsteinsson, hafði orð á því í upphafi sinnar ræðu, að fyrst um nauðsynlegt mál var að ræða í þessu frv., þá hefði mátt ætla, að samstaða hefði getað náðst um frv. Ég veit ekki, hvernig hlustað hefur verið á mál mitt eða hvernig nál. okkar í minni hl. hefur verið lesið, ef það kemur ekki greinilega fram í því, að við teljum, að tilgangur þessa frv. sé sá, sem beri að keppa að. Að hluta til get ég tekið undir þau ummæli, sem síðasti hv. ræðumaður, Helgi Seljan, hafði hér yfir eftir öldnum bónda á Austurlandi. Hann sagðist sjálfur fagna megintilgangi frv., og þetta erum við allir að tala um og ber ekki á milli um það. En okkur ber aftur á móti mjög á milli um það, hvernig á að ná þessu marki. Og ég hefði getað lýst hér umsögnum miklu fleiri en ég lýsti í minni ræðu. Ég hefði alveg eins og frsm. meiri hl. getað líka tekið upp ummæli þeirra, sem skilyrðislaust vilja fá þetta jarðalagafrv. lögfest, vegna þess að það stefnir að ákveðnu marki. En þeir geta ekkert um það, þessir menn, sem eru jákvæðir gagnvart þessu frv., hvort það séu líkindi til þess, að þetta lagafrv. nái þeim tilgangi, sem því er ætlað að ná.

Ég vísa því algerlega á bug, að okkur í minni hl. hafi sést yfir meginatriði þessa máls, það er svo fjarri því. Við getum í minni hl. nákvæmlega á sama hátt og Búnaðarsamband Skagfirðinga lýst yfir fylgi við stefnu frv., þó að við höfum fram að færa till. um breytingar við það, alveg eins og Búnaðarsamband Skagfirðinga hefur með sinni umsögn. Og það er ekki rétt að leggja fyrst og fremst áherslu á það, eins og áðan var gert af hv. 3. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, að Skagfirðingar lýstu yfir eindregnum stuðningi við frv. og vildu, að það yrði lögfest á því þingi, sem nú situr. Þetta er rétt. En þeir vildu það því aðeins að þeir kæmu fram þeim till. til breyt., sem þeir geta um í sinni umsögn. Það er þetta. sem er aðalatriði, og ég veit, að bæði hv. þm. Páll Þorsteinsson og aðrir þeir þdm., sem hér eru inni, vita það, að þannig verður ekki unnið að farsælli lagasmíð að einblína aðeins á það, hvert verði lokatakmarkið, og ætla að ausast yfir málið án þess að kryfja það til mergjar. En ég vil samt fara örfáum orðum að nýju um það, sem ég tel, að sé aðalatriði í þessum efnum.

Ég tel, að því aðalatriði, sem frv. er ætlað að ná, megi best ná í gegnum skipulag. Það er fjarri því, að þeir, sem sömdu þetta frv. til jarðalaga, hafi með þeim ákvæðum, sem þeir hafa sett í frv. um skipulagsmál, náð því, að þau geti orðið virk. Það nægir í því sambandi að minna á það, sem skipulagsstjóri segir um þetta efni í sinni umsögn, sem ég lýsti hér í ræðu minni fyrr, þar sem hann bendir á það sérstaklega, að verði jarðalagafrv. lögfest í því formi, sem það er nú, þá sé ekki annað fyrirsjáanlegt en það rekist í ýmsu falli á við þau skipulagslög, sem í gildi eru, og ef þau gera það, þá eru þau ákvæði um skipulagsmál í þessu frv. lítils virði miðað við það, sem þau annars þyrftu að vera til þess að ná tilgangi sínum. Ég vil minna á það, sem skipulagsstjóri segir hér í sinni umsögn:

„Á það skal bent, að nú þegar eru ýmis sveitarfélög, bæði hrein strjálbýlissveitarfélög og sveitarfélög, sem eru að langmestu leyti sjálf strjálbýl, að eigin ósk orðin skipulagsskyld. Samkv. 1. mgr. 4, gr. virðist svo sem skipulagsskylda ýmissa sveitarfélaga samkv. skipulagsl. nr. 19 1964 félli niður, ef sú gr. yrði samþ. óbreytt. Svo virðist sem úrskurðarvald landbrh. um, hvað sé þéttbýlissvæði, sbr. 2. mgr. 4, gr., geti rekist á 4. mgr. 4. gr. skipulagslaga, en samkv. þeirri gr. úrskurðar félmrh. um skipulagsskyldu. Að auki er vandséð, hvernig þéttbýlissvæðin verða skilgreind. Slíkur vandi gæti t.d. risið í einhverjum eftirtalinna sveitarfélaga, sem nú eru skipulagsskyld“ — þar sem hann taldi upp 20 sveitarfélög, sem svo stóð á um.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að segja nokkur orð vegna ummæla hv. 3. þm. Austf. áðan um skipulagsskyldu ýmissa sveitarhreppa. Hann lýsti hér auglýsingu um skipulag í Nesjahreppi, sem var um það, að hreppurinn er auglýstur skipulagsskyldur að undanskildum nauðsynlegum byggingum á bændabýlum. Ég veit, að víða er á sama hátt búið um hnúta um skipulag sveitahreppa eða strjálbýlishreppa. En það raskar þó ekki því, sem ég lagði áherslu á í ræðu minni fyrr við þessa umr., að þótt skipulagsskyldan nái ekki til nauðsynlegra bygginga á bændabýlum, þá er hún eigi að síður sá hemill á öðrum framkvæmdum innan sveitarfélagsins, að það mundi verða nægilegt gagn að þeim fyrirmælum. Ég benti á það í ræðu minni hér, hvernig fór um jörð austur í Árnessýslu, þar sem umráðamenn jarðarinnar hugðust jafnvel ráðstafa undir sumarbústaði nokkrum hluta lands. Þá tók sveitarstjórnin til sinna ráða, vegna þess að hreppurinn þar var orðinn skipulagsskyldur, og synjaði um leyfi til þessara hluta. Og ég hygg, að það sé einmitt það, sem gera þarf til þess að minnka spennuna, hina óeðlilegu spennu í verði bújarða. Hitt verður aldrei talið, að hafi neina meginþýðingu, hvort meira eða minna er byggt af nauðsynlegum byggingum á bændabýlum, svo að ég tel. að sú röksemd, sem átti að ganga gegn þessari skoðun minni og hv. þm. benti hér á áðan, hafi algerlega misst marks.

Það hefur verið bent á það hér af þeim, sem að meirihlutaálitinu standa, að samstaða bænda um þetta jarðalagafrv. virtist vera mjög mikil, og er þá tíðast bent á það, að næstsíðasta Búnaðarþing fjallaði um frv. og tók þá afstöðu til málsins, að það samþykkti frv. með brtt., sem það lét fylgja umsögn sinni til rn. Eftir því sem ég kemst næst, hefur rn. fellt flestar þessar brtt. inn í frv. nú, að undanskilinni þó einni, sem er veigamikil till. og lítið hefur verið rætt um hér, en bændasamtökin og búnaðarsamböndin sum hafa lagt töluvert ríka áherslu á í sínum umsögnum um málið, og það er, að Jarðasjóður hafi sérstaka stjórn. Ég verð að segja það, að mér sýnist það hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélögin varðandi ráðstöfun bújarða í sveitum, að þeir, sem það mál skiptir verulega, hafi hönd í bagga um stjórn sjóðsins, og þess vegna hefði verið eðlilegt að fara eftir þessum till. bændasamtakanna. Ég er ekki að segja, að það hafi verið nauðsynlegt að fela Búnaðarfélaginu að kjósa einu mann og Stéttarsambandinu annan eða fara eftir þessum venjulegu leiðum, eins og lagt er til. Það hefði mátt skoða fleiri leiðir í þessu efni. En sú leið, sem mér sýnist, að hefði legið næst að fara, var sú að fella Jarðasjóðinn undir Stofnlánadeild landbúnaðarins, því að þar hafa bændur sína kjörnu fulltrúa, eins og lögum er nú háttað. Bændur munu trúa sínum fulltrúum best til þess að fjalla um málefni þessara fjárfestingarsjóða landbúnaðarins.

Það eru ýmis fleiri atriði, sem á sama hátt hefði mátt taka betur til athugunar en gert hefur verið, og það, sem við í minni bl. leggjum áherslu á í okkar nál., er, að málið sé svo stórt, málið sé svo viðamikið og málið sé svo þýðingarmikið, að það sé ekki rétt að hraða því í gegnum þingið, þegar fram hafa komið jafnveigamiklar ábendingar um breytingar og raun ber vitni, þegar farið er yfir umsagnirnar, sem hér hafa verið raktar.

Ég vil að lokum aðeins benda á það, að þrátt fyrir það að talsmenn frv. telji, að byggðaráðin séu færust um að hafa á því vald, hvernig fer um verðlagsþróun jarða og hvernig fer um nýtingu þeirra, þá hafa þær ræður ekki sannfært mig um, að svo sé. Ég er sannfærður um, að það er haldbetra að ganga þannig frá skipulagsmálunum í strjálbýlinu og ákvæðum um ábúð á jörðum, að það væri skylt að halda jörðum í ábúð með hæfilegum leigukjörum og nauðsynlegu frjálsræði ábúenda til framkvæmda á þeim. Og ég held, að þessu hefði mátt ná með því að fella þetta allt undir skipulag. Vegna þeirrar skoðunar okkar í minni hl. leggjum við til, að frv. sé endurskoðað í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga, Landnám ríkisins og skipulagsstjórn ríkisins.

Ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þetta frv. En ég vil þó segja það að lokum, að ef það skyldi nú koma á daginn, að álíka haldgóðar væru þær tillögur, sem meiri hl. stendur hér að við þetta jarðalagafrv., eins og sú till., sem síðust er á tillögulistanum, þar sem lagt er til, að Landnám ríkisins starfi áfram, án þess að það hafi raun og veru nokkur verkefni, og svo ætla hinir sömu menn að stuðla að því í gegnum annað lagafrv., að Landnám ríkisins verði fellt út, þá munu þessi vinnubrögð ekki verða til þess að sannfæra okkur, sem erum andvígir frv., eins og það liggur fyrir, um að breytingarnar séu til bóta. Þeim hinum sömu mönnum hefur áreiðanlega mistekist að ganga þannig frá till. sínum, að þær kippi þessu frv. til betri vegar.