13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2743 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í frv. því um skattkerfisbreytingu, sem hér liggur fyrir, viðurkennir ríkisstj. réttmæti þeirrar stefnu Sjálfstæðisfl. í skattamálum, að fremur beri að skattleggja eyðslu en verðmætasköpun. Sú staðreynd er á hinn bóginn eftirtektarverð, að ríkisstj., sem í upphafi valdaferils síns nefndi sig stjórn hinna vinnandi stétta, hefur verið knúin til þessara stefnubreytingar af launþegasamtökunum. Sá er þó gallinn á, að ríkisstj. hyggst nota þá skattkerfisbreytingu, eins og hún kallar það, til þess að koma fram stórfelldum auknum skattálögum á þjóðina umfram lækkun tekjuskatts í því skyni að halda áfram þeirri eyðslustefnu, sem hún hóf strax við valdatöku sína.

Þm. Sjálfstfl. eru andvígir þessu og freista þess með brtt. við frv. á þskj. 486, að í senn verði raunverulegri skattkerfisbreytingu náð, tekjuskattslækkun verði í samræmi við skattafrv. Sjálfstfl. frá s.l. hausti, dregið úr eyðslu ríkissjóðs og hamlað gegn því verðbólguflóði, sem orð skortir til að lýsa og vex dag frá degi. Við teljum, að með sparnaði í ríkisrekstri, er næmi 1500 millj. kr. og 2% stiga söluskattsauka væri ríkissjóði bætt það tekjutap, sem till. okkar gera ráð fyrir, eða sem svarar lækkun tekjuskatts um 3000 millj. kr.

Það er öllum ljóst, hver staða þjóðarbúsins var, þegar núv. ríkisstj. og hv. núv. þm. Frjálslynda flokksins settust niður og skemmtu sér við að setja á blað, hvernig útdeila skyldi því, sem þjóðin átti sjálf í varasjóðum og traustri stöðu og hlaut að koma henni til góða með einhverjum hætti hvort eð var, auk þess að set,ja á blað formúlu fyrir þeirri leið, sem fara skyldi í efnahagsmálum. Nú skyldi brotið blað í sögu þjóðarinnar. Auk þess að fá þennan góða heimanmund hefur ríkisstj. verið svo lánsöm, að einstaklega vel hefur árað fyrstu búskaparárin. Árið 1971 hækkuðu þjóðartekjur um 13.1%, 1972 um 5%, 1973 um 7.5%, og spáin fyrir 1974 hljóðar upp á rösklega 4%. En það þarf sterk bein til að þola góða daga. Fyrir utan það, að búskapurinn hefur verið stundaður af fádæma fyrirhyggjuleysi í þeirri trú, að búvöruverð færi sífellt hækkandi og að vinsældir meðal búliða ykjust í hlutfalli við eyðslu búsins, þá hefur óspart verið stofnað til nýrra lána, þannig að erlendar lántökur hafa aukist um 50% á valdatíma þessarar ríkisstj., og skattbyrðin hefur aukist, eins og öllum er kunnugt og þetta frv., sem hér er til umr., er talandi tákn fyrir.

Í áramótaræðu sinni lítur forsrh. yfir sitt blómlega bú og sér alls staðar framfarirnar blasa við og ánægjuleg andlit við vinnu sína. Jafnómerkileg atriði eins og bókhaldið gleymast á slíkum hátíðastundum, og það loforð kannske gefið í hljóði að standa sig nú betur næsta ár. Allt er eins og vera ber á uppleið. Þeir telja sér trú um, að enginn hafi í reynd á móti verðbólgunni og þetta slampist allt saman einhvern veginn. Fjmrh. telur sig vera að bisa við að draga úr verðbólgunni, ef marka má ummæli hans, en það er eins og hann hvorki greini tilganginn með því né rati þær leiðir, sem þarf að fara.

Árin þrjú hafa liðið, og hvernig hefur formúlan, sem ríkisstj. setti sér í upphafi valdatímabilsins, reynst? Hver hefur árangurinn orðið? Reynslan er ólygnust og hefur sýnt, hvílíkt afhroð stefna núv. ríkisstj. í efnahagsmálum hefur beðið, enda var þannig til stofnað í upphafi.

Í málefnasamningi ríkisstj. segir svo um stefnu hennar í efnahagsmálum, með leyfi forseta: „Ríkisstj. leggur áherslu á, að takast megi að koma í veg fyrir þá háskalegu verðlagsþróun, sem átt hefur sér stað í efnahagsmálum undanfarin ár og leitt til síendurtekinna gengislækkana og óðaverðbólgu. Hún mun leitast við að tryggja, að hækkun verðlags hér á landi verði ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum.“

Hvernig hefur ríkisstj. tekist þetta? Hefur henni tekist að halda verðbólgunni á Íslandi ekki meiri en í helstu nágranna- og viðskiptalöndum okkar? Tölur um þetta tala sínu máli og það skýrt. Verðlag vöru og þjónustu hækkaði nær þrefalt hér á landi árið 1972 samanborði við nágrannalönd okkar. Hér nam hækkunin 14%, en þar um 5%. Árið 1973 var verðbólgan hér á landi sömuleiðis þreföld á við nágrannalönd okkar. Neysluvöruverðlag hækkaði hjá okkur um 24%, en umhverfis okkur um 8%. Það má vel vera, að stjórnarsamningurinn hafi verið misskilinn. Það má vel vera, að einhverjir okkar hafi haldið, að það hafi ekki verið hugsunin að halda verðbólgunni hér á landi ekki meiri hlutfallslega en í nágrannalöndunum, heldur að meint hafi verið, að ekki skyldi hún vera hærri en samtals í okkar næstu nágrannalöndum. Þannig sýnist þróunin miklu fremur hafa orðið.

Þessar tölur, sem ég las nú upp sýna, að það er vonlaust fyrir ríkisstj. að skjóta sér á hak við erlendar verðhækkanir, þar sem nágrannalönd okkar öll, eins og Norðurlönd eru mjög háð utanríkisverslun. Því er það hlálegt að heyra stjórn hinna vinnandi stétta halda því fram, að verðbólgan sé innflutt. Þar með er hún að segja, að engin verðmætasköpun eigi sér stað innanlands. Staðreyndin er hins vegar sú, að erlend aðföng eru vart meira en þriðjungur heildarvirðis framleiðslunnar. Því er unnt með þeim 2/3, sem myndast hér innanlands, að jafna niður áhrifum erlendra verðhækkana, ef vel er á málunum haldið.

Í skýrslu hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Þjóðarbúskapurinn, yfirlit 1972 og horfur 1973, frá júlí 1973, á bls. 61, er að finna svar við þessum staðhæfingum ríkisstj. Þar er spáð hækkun vísitölu vöru og þjónustu um 22% frá nóv. 1972 til nóv. 1973., en varð raunar meiri. Hlutfallsleg áhrif einstakra þátta á hækkunina eru talin þessi:

1. Bein áhrif gengisbreytinga 22.2%.

2. Bein áhrif breytinga innflutningsverðs í erlendri mynt 18.2%.

3. Bein áhrif breytinga óbeinna skatta 13.6%.

4. Áhrif annarra þátta, einkum launakostnaðarbreytinga, m.a. vegna verðlagsuppbóta, 45.5%. — Samtals 100%.

Hvað segja svo þessar tölur? Þær segja, að 18.2% eða minna en 1/5 af verðbólgunni er af erlendum toga spunnið. Slíkri verðbólgustefnu er ekki hægt að fylgja eftir öðru vísi en með síaukinni skattheimtu, eins og staðreyndirnar sýna.

Strax á fyrsta þingi núv. kjörtímabils réðust núv. stjórnarflokkar í breyt. á skattal., sem voru í senn vanhugsaðar og án þess að þeir gerðu sér nokkra grein fyrir því, hvaða áhrif breyt. hefðu á einstaklinga, atvinnurekstur eða skatttekjur ríkisins í heild.

Sjálfstæðismenn snerust gegn þessum breyt. og vöruðu við þeim og afleiðingum þeirra, en á það var því miður ekki hlustað. Ljóst var, að þær breyt., sem gerðar voru, hefðu í för með sér verulega aukna skattbyrði á meginþorra gjaldþegna þjóðfélagsins. Við lögðum þess í stað til, að haldið yrði áfram þeirri vel undirbúnu endurskoðun, sem fram fór á árunum 1969–1971, og frestað yrði lögfestingu á þeim brtt., sem fólust í frv. vinstri stjórnarinnar.

Mér þykir rétt að víkja hér að örfáum atriðum í nál. 1. minni bl. fjhn. þessarar deildar, þegar fyrsta skattafrv. vinstri stjórnarinnar var til afgreiðslu, en 1. minni hl. skipaði auk mín hv. þm. Matthías Bjarnason. í þessu nál. er gerð grein fyrir sjónarmiðum sjálfstæðismanna og varað við þeim afleiðingum, sem samþykkt á frv. vinstri stjórnarinnar þýddi, og segir í 3. kafla þessa nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem ljóst er, að frv. þessi, ef að lögum verða,“ — hér er átt bæði við breyt. á 1. um tekjuskatt og l. um tekjustofna sveitarfélaga, — „munu auka skattbyrði einstaklinga og félaga, og með hliðsjón af því, sem að framan hefur verið sagt, og því ástandi, sem skapast hefur í skattamálum þjóðarinnar vegna ósæmandi vinnubragða ríkisstj., leggjum við fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. til, að frv. verði vísað frá og endurskoðun skattalaganna fram haldið. Við álagningu skatta ársins 1972 vegna tekna, sem aflað var á árinu 1971, verði skattvísitalan á grundvelli gildandi laga ákvörðuð 121.5 stig í stað 106.5, sem gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1972. Þessi hækkun skattvísitölunnar verði ákveðin með hliðs,jón af almennri hækkun launatekna á s.l. ári, sem er framhald af því, sem fyrrv. fjmrh. ákvarðaði í fyrra, þegar hann hækkaði skattvísitöluna um 20% í þeim tilgangi að vinna upp það, sem tapaðist á þeim tveimur árum, þegar útflutningsverðmæti afurða okkar stórlækkaði og samdráttur varð í atvinnulífinu af þeim sökum. Þannig var ætlunin að vinna upp á þessu ári og næsta, að skattvísitalan fylgdi hækkunum almennra launatekna hverju sinni, miðað við eðlilega þróun í atvinnumálum þjóðarinnar, en sú stefna var mörkuð í upphafi viðreisnartímabilsins.

Við undirritaðir leggjum til, að heildarendurskoðun á tekjum ríkis og sveitarfélaga haldi áfram á þeim grundvelli, sem fyrrv. ríkisstj. markaði, með nánu samstarfi við samtök sveitarfélaga, landshlutasamtaka, samtök launþega, vinnuveitenda og bænda.

Við vitnum til þess, að Sjálfstfl. telur, að skattlagningunni til ríkis og sveitarfélaga eigi að haga á þann veg, að hún örvi einstaklinginn til framtaks og sparnaðar, og búið sé að atvinnurekstrinum þannig, að áhugi almennings fari vaxandi fyrir því að vera beinn aðili að atvinnufyrirtækjunum.

Til þess að gera þennan ásetning að veruleika ber fyrst og fremst að skattleggja eyðsluna og gæta hófs í skattlagningu sparnaðar. Í samræmi við þetta þarf að halda áfram þeirri viðleitni að draga úr beinum sköttum og stefna þar að ákveðnu marki á tilteknu árabili.“ — Vel má vera, að hv. frsm. meiri hl. fjhn.- og viðskn. hafi aldrei lesið nál., eftir því sem heyra mátti á ræðu hans hér áðan. En ég held áfram: „Gera þarf ákveðnar till. um breytta tekju- og verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með það fyrir augum að auka hlut sveitarfélaga eða landshlutasamtaka í stjórn opinberra mála og jafnframt ábyrgð á þjónustu, framkvæmdum og fjármögnun til þeirra. Í þessu sambandi kemur mjög til athugunar, hvort ekki sé rétt, að sveitarfélögin ein fái alla beina skatta til sinna þarfa, en ríkissjóður byggi í framtíðinni tekjuöflun sína eingöngu á óbeinni skattlagningu. Kannað verði, hvort virðisaukaskattkerfið henti íslenskum aðstæðum betur en núv. söluskattskerfi. Í stað þess að gera skattkerfið flóknara, eins og frv. núv. ríkisstj. stefnir að, minnum við á stefnu fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum um einföldun skattkerfisins, m.a. vegna fyrirkomulags staðgreiðslukerfis, ef upp verður tekið.

Við leggjum því til, að skattar og útsvör á tekjur einstaklinga og félaga verði ávallt miðuð við nettótekjur, og teljum eðlilegt og sanngjarnt, að tekjum hjóna verði skipt til helminga á milli þeirra við álagningu skatta til ríkis og sveitarfélaga.

Við teljum, að eignarskattur hafi með löggjöfinni frá s.l. vori verði ákvarðaður út frá eðlilegum og sanngjörnum sjónarmiðum. Frv. núv. ríkisstj. hefur mjög íþyngjandi áhrif í sambandi við eignarskatta, sem við teljum, að komi óréttlátlega niður og geti dregið úr sparnaði almennings.

Það er skoðun okkar, að fasteignaskattar séu þjónustuskattar til sveitarfélaga og beri að stilla þeim í hóf. Sveitarfélögum sé í sjálfsvald sett innan ákveðins hámarks í lögum, hvort og að hve miklu leyti þau nýta þennan tekjustofn. skatta, sem gert er ráð fyrir í frv., sérstaklega Við vörum við svo mikilli hækkun fasteigna ef aðrir tekjustofnar sveitarfélaga eru svo naumir, að þau neyðist almennt til að nota heimildir til álags á fasteignaskatta.

Við leggjum ríka áherslu á, að hinum ýmsu formum atvinnurekstrar verði ekki mismunað í skattgreiðslu, eins og frv. gerir ráð fyrir, og við höfum varað alvarlega við því á fundum n. Jafnframt því, að sveitarfélögin fái allar beinar skattatekjur, er eðlilegt, að aðstöðugjöld lækki meira en frv. gerir ráð fyrir. Samfara því verði sveitarfélögum séð fyrir réttlátari tekjustofni vegna þjónustu þeirra við atvinnufyrirtæki.

Frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir, að atvinnurekstrinum sé verulega íþyngt. Sú stefna verður að teljast háskaleg með tilliti til þeirrar gífurlegu dýrtíðaraukningar, sem orðið hefur í kjölfar þeirrar stjórnarstefnu, sem nú hefur verið tekin upp samfara sívaxandi samkeppni á erlendum mörkuðum.

Í nokkrum tilvikum teljum við eðlilegt og nauðsynlegt, að tiltekin frávik sé skilt að gera frá hinum almennu skattaálagningarreglum, og er það skoðun okkar, ellilífeyrir og bætur örorkuþega eigi að vera undanskilin skattlagningu, og við erum andvígir þeirri till. ríkisstj., að niður verði felldur sérstakur frádráttur vegna aldraðs fólks.“

Ég hef hér rakið nokkur atriði úr því ítarlega nál., sem fulltrúar Sjálfstfl. í fjhn. lögðu fram, þegar frv. vinstri stjórnarinnar um breyt. á skattal. og tekjustofnal. var til umr. Það er ekki úr vegi, að menn geri sér grein fyrir því, hvernig það, sem hér er fram sett, hefur reynst í verunni, — hvort ,sá spádómur, sem við hér erum með, hefur reynst raunverulegur eða hvort hér hafi verið um að ræða falsspádóma. Það er eins í þessu tilfelli og áður, tölurnar eru ólygnastar. Og mig langar til þess að rekja nokkuð, hvernig útkoman hefur orðið s.l. ár, og bera það saman við skattlagninguna frá 1971–1973. Við álagningu 1972 kom í ljós, að allt, sem stjórnarandstaðan hafði sagt í þessu nál., var rétt. Ríkisstj. staðfesti þetta sjálf og varð að grípa til brbl., til þess að gamla fólkið sligaðist ekki undan þeirri þungu skattbyrði, sem stjórnarflokkarnir höfðu samþykkt. Þá kom í ljós, að innheimtir tekju- og eignarskattar fóru nær 1 milljarð fram úr áætlun 1972 og skattbyrðin jókst um rúm 20%. Enn var haldið áfram á sömu braut. Við álagningu 1973 námu tekjuskattar einstaklinga 4 milljörðum 678 millj. kr. að meðtöldu 1% álagi í Byggingarsjóð ríkisins, en við álagningu 1971 var sambærileg tala 1 milljarður 117 millj. kr. Þetta jafngildir 318.8% hækkun frá árinu 1971 til 1973, á sama tíma og brúttótekjur framteljenda hækka aðeins um 60% Sömu hneigðar gætir í fjárlagafrv. því, sem Alþ. hefur nýlega samþ. Þar er gert ráð fyrir, að tekjuskattur nemi 6795 millj. kr., þar af tekjuskattur einstaklinga 5806 millj. og tekjuskattur félaga 922 millj. Og áfram heldur ríkisstj. á sömu braut með því frv., sem hér er til umr.

Á árinu 1973 lentu 72% allra tekjuskattsgreiðenda í hæsta skattþrepi, en þá er tekjuskatturinn orðinn 44.4%. Að viðbættu útsvari og kirkjugarðsgjaldi og viðlagasjóðsgjaldi runnu því í flestum tilvikum 55.69% hverrar krónu, sem aflað var til viðbótar, til opinberra aðila. Ef álagning fer fram 1974 samkvæmt óbreyttum lögum og skattvísitölu 154 stig, sem er hækkuð aðeins um 20.3% frá fyrra ári, lenda um 90% tekjuskattsgreiðenda í hæsta skattþrepi, enda hefur skattvísitalan ekki verið látin fylgja meðaltekjuaukningu, sem er talin verða rúmlega 30% frá árinu 1972 til 1973.

Út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. hér áðan, Þórarins Þórarinssonar frsm. meiri hl., þá er ekki úr vegi að geta þess og benda honum á, hversu stór prósenta skattgreiðenda er árið 1959, hver hún var 1960 eftir breyt. skattal. þá og hvernig þróunin hefur orðið síðan núv. ríkisstj. tók við.

1959 eru 79.2% skattgreiðendur, þeir, sem ekki greiða skatt, 20.8%. 1960 eru það 20.84%, sem greiða skatt, en skattlausir 79.16%. Það er hér, sem upp er tekin stefna viðreisnarstjórnarinnar og þá sjá menn, hver munur er á. Nú, 1973, er þetta hlutfall snúið við á ný og skattgreiðendur verða 57.5% á móti skattlausum 42.5%. Þetta sýnir, hvernig þróunin hefur orðið, síðan núv. ríkisstj. tók við.

Ég hef hér vikið aðallega að því, hvernig efnahagsmálum er nú komið og hver þróun hefur verið í þessum málum, frá því að núv. ríkisstj. tók við. Ég hef jafnframt gert grein fyrir því með þeim tölum, sem koma frá opinberum aðilum og eru hlutlausar. Ég hef jafnframt vikið að því, hvernig farið hefur í skattamálum á vegum núv. ríkisstj., hver þróunin hefur þar verið, og eru það jafnframt tölur frá opinberum aðilum, sem eru hlutlausir í þessum efnum.

Áður en vikið verður að frv. í einstökum atriðum, svo og brtt. þeim, sem við sjálfstæðismenn flytjum, er nauðsynlegt að víkja að fjárl. 1974 og þeim breyt., sem talið er, að verði á fjárlagatölunum í ljósi þeirrar vitneskju, sem nú liggur fyrir, eða með hliðsjón af því, sem ætla má um hag ríkissjóðs 1974. Það var furðulegt að heyra rökstuðning frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. áðan, þegar hann annars vegar bar saman þær tölur, sem fram komu í skýrslu sérfræðinganna, sem mættu á fundi í fjh.- og viðskn., um hag ríkissjóðs og breyttar áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs og þær ímynduðu tölur, sem hann var með grundvallaðar á prósentuaukningu, sem ekki er möguleiki á að gera, þegar saman er borið fjárlagafrv. annars vegar og sú tekjuáætlun, sem lögð var fyrir fjh: og viðskn., eins og hann m.a. gat um. Það er hins vegar forkastanlegt, að ríkisstj. skuli leggja frv. um skattkerfisbreytingu fyrir Alþingi án þess að legg,ja fram nýja tekjuáætlun og útgjaldaáætlun ríkissjóðs, þannig að alþm. geti raunverulega skoðað málið ofan í kjölinn og axlað þá byrði, sem þeir verða að bera með afgreiðslu fjárl. og skattkerfisbreytingu. Eins og málið er lagt fyrir, veit þingheimur nánast ekkert, hvað lagt er til að hann samþykki, og er beinlínis dulin staðreyndum, sem fengnar voru, þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir því í fjh.- og viðskn., að þær yrðu lagðar fram. Mér þykir rétt að gera örstutta grein fyrir þeirri áætlun, þar sem af eðlilegum ástæðum eru þær brtt., sem við leggjum fram, byggðar á þeim grundvelli annars vegar og samanburði við fjárl. 1974, því að annar samanburður getur ekki verið með nokkru móti raunverulegur í sambandi við skattalækkun eða söluskattshækkun. Það hlýtur að vera ljóst mál, að þegar lækka skal skatta eða hækka, verður að líta á það dæmi, sem Alþ. hefur samþ., þ.e.a.s. fjárlög fyrir árið 1974, og greiðslur úr ríkissjóði grundvallast á og þær áætlanir, sem síðar eru til komnar, og út frá þessum samanburði er reiknað, hvert og hvernig ríkissjóður fer í sambandi við þær till., sem fram eru bornar.

Tekjuhlið ríkissjóðs í fjárl. eru upp á 29 milljarða og 180 millj. Miðað við meðalverðlag og kaupgjald 1974 hækkar þessi tekjuáætlun upp í 32 milljarða 268 millj. kr. Þegar við hér einskorðum umr. við tekjuskatt annars vegar og tekjuskattslækkun og söluskatt og söluskattshækkun hins vegar, þá er rétt að skoða þau tilfelli hvert fyrir sig. Fjárl. gera ráð fyrir innheimtum söluskatti á árinu 1974 5 milljarða 806 millj. kr. Það hlýtur að vera sú tala, sem gengið verður út frá, þegar skoðað er, hvað þarf að bæta ríkissjóði varðandi þær till. um skattalækkun, sem eru til meðferðar við 2. umr. nú. Í endurskoðaðri áætlun um innheimtar tekjur kemur einnig fram, að að breyttum skattalögum samkv. till. ríkisstj. muni innheimtur tekjuskattur nema 4100 millj. kr. Hér er um að ræða lækkun upp á 1 milljarð og 700 millj. kr. frá því, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og ef till. ríkisstj. væru í samræmi við það, þarf ekki þann söluskattauka, sem þar er gert ráð fyrir, eins og hver heilvita maður sér, enda í grg. fyrir frv. gert ráð fyrir, að söluskattaukinn komi til með að mæta útgjöldum upp á 2900 millj. kr. En þar er dæmið lagt fyrir alþm. grundvallað á fjárl. miðað við ákveðna prósentuaukningu, án þess að tekið sé til greina, hvert raunverulegt fjárlagadæmi er, heldur er það gefið sérstaklega til samanburðarins.

Frv. ríkisstj. um skattkerfisbreytingu er flutt, eins og ég gat um áðan, samkv. yfirlýsingu, sem ríkisstj. var neydd til að gefa í sambandi við þau kjaramál og þær kjaradeilur, sem undanfarið hafa staðið yfir og sem betur fer hafa leyst.

Annars vegar er ekki úr vegi að bera saman þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. gefur við samningsgerðina, svo og frv. og svo hins vegar þær tölur, sem gefnar eru upp í grg. frv. og þá endurskoðuðu tekjuáætlun, sem ég gat um áðan, sérstaklega varðandi tekjuskattinn. Það má vel vera, að það sé ekki mitt að henda á, en ég get ekki með nokkru móti fengið dæmið til að ganga upp, þar sem stendur í yfirlýsingu ríkisstj., að persónufrádráttur hjóna skuli vera 425 þús. kr., hjá einhleypingi 280 þús. kr. og 58 þús. kr. hjá barni. Þessi frádráttur er reiknaður út með tvennum hætti. Þar er farið inn á nýtt atriði í skattamálum. Ríkisstj., sem ætlaði að einfalda skattal., kemur nú með nýjan álagningarstofn. Ríkisstj., sem ætlaði að einfalda skattal. 1972, bætti þá enn einum nýjum skattstofni við til útreiknings og viðmiðunar, og nú er sá þriðji kominn, þegar persónufrádráttur er annars vegar reiknaður með beinum frádrætti og svo hins vegar reiknaður með skattafslætti.

Persónufrádráttur samkv. frv. er 238 þús. fyrir einstaklinga og gert ráð fyrir 11 þús. kr. tekjuskattslækkun og látið í það skína í grg. frv., að hér sé um að ræða persónufrádrátt upp á 293 þús. kr. Það er rétt, að hjá einhleypingi verða nettótekjur skattfrjálsar miðað við fyrstu 293 þús. kr. En þegar þessi einstaklingur fer að hafa meiri tekjur en 293 þús. kr., gengur persónufrádrátturinn niður á við, þannig að þegar þessi aðili er kominn upp í á sjötta hundrað þús. kr. tekjur, skortir 5800 kr. upp á að hann hafi persónufrádrátt einstaklings.

Barnlaus hjón eru sögð hafa persónufrádrátt upp á 448 þús. kr. í grg., og það er fundið með beinum frádrætti upp á 355 þús. kr. og 18500 kr. skattafslætti. Þegar þessir aðilar, þ.e.a.s. barnlausu hjónin, koma á tekjubilið um 600 þús. kr., fer persónufrádrátturinn að verka öfugt, þ.e.a.s. þegar komið er upp í 675000 kr. tekjur, skortir 9600 kr. á, að hjónin hafi persónufrádrátt samkv. þessu frv.

Varðandi barnið skilar dæmið sér þannig, að það er 100 kr. hagnaður, þegar upp er staðið.

Þetta er aðeins til þess að benda á, með hvaða aðferðum hér er verið að reikna út. Þeir, sem á annað borð gera sér grein fyrir því, hvernig þetta verkar, átta sig á því, að það er töluvert annað að fá 11 þús. kr. skattfrádrátt og 238 þús. kr. persónufrádrátt eða hvort persónufrádrátturinn er 245 þús. kr. og fyrstu 100 þús. k. í tekjuskatti 20%. Miðað við það að fá 11 þús. kr. tekjuskattsafslátt, minnkar fyrsta stig í skatti, þannig að raunverulega verða ekki nema 45 þús. kr. með lægsta skatti, hjá hjónum aðeins 8500 kr., þannig að eftir að þau hafa fengið 8500 kr. með 20% skatti, þá stiga þau upp í 30% skatt, og þegar komið er upp í efsta skattþrep, í 40%, þá kemur út að þau hafa skaðast á þessum útreikningi um 9600 kr.

Ég skal láta útrætt um þetta atriði, en vildi þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á ósamræminu á milli yfirlýsingarinnar og frv.

Þá vil ég vekja athygli á því, hvernig farið er með skattafsláttinn gagnvart þeim, sem minnst mega sín, en í 4. gr. frv. segir, að „skattafsláttur samkv. liðunum A-8 að framan má þó aldrei verða meiri en 6% af skattskyldum tekjum framteljenda.“ Hér er það ljóst mál, að aðili, sem ekki hefur möguleika á því að afla sér tekna og verður skattlaus vegna einhverra ástæðna, er ekki kominn á ellilífeyrisaldur, getur e.t.v. ekki fengið sig úrskurðaðan sem öryrkja, hann getur ekki unnið, hann verður annaðhvort að lifa á sínum eignum eða þá á framfærslu annars staðar frá og hlýtur að bera 5% söluskattsaukninguna, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þær till., sem við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh: og viðskn. berum fram, eru grundvallaðar á 2% söluskattauka og skattafsláttur reiknaður í samræmi við það. Það er gert ráð fyrir í þeim till., að þeir, sem ekki njóta persónufrádráttarhækkunarinnar, fái þann skattafslátt, en þeir, sem fá fullan persónufrádrátt, njóti ekki afsláttarins, þannig að hjá einstaklingi fari þessi afsláttum minnkandi úr 310 þús. kr. ofan í 250 þús. kr., sá, sem hefur 250 þús. kr. og þar fyrir neðan, hafi fullan skattafslátt. Nú kemur einhver til með að spyrja: Hvernig er þá um aðilana, sem engan skatt hafa vegna skattal. varðandi fyrningar, sérstakar fyrningar í atvinnurekstri? Í okkar till. er séð fyrir því, þar sem gert er ráð fyrir því, að verði einstaklingur skattfrjáls vegna slíkra fyrninga, njóti hann ekki heldur þess skattafsláttar, sem þar er gert ráð fyrir.

Í grg, með frv. eru settar fram tölur varðandi það tekjutap, sem ríkissjóður verður fyrir, og með hvaða hætti ríkisstj. leggur til, að við því verði brugðist. Því er haldið fram, að tekjutap ríkissjóðs nemi 3250 millj. kr., og gert er ráð fyrir að bæta það upp með söluskattauka að 5% stigum. En hvernig er þetta tap ríkissjóðs fundið út? Jú, það er fundið út með þeim aðferðum, sem hv. 4, þm. Reykv. beitti hér áðan. Hann velur sér tölur og tekur síðan endurskoðaða tekjuáætlun ríkissjóðs, ber þær saman og fær dæmið til þess að ganga upp. Það eina, sem hægt er að gera í þessu tilfelli, er að bera saman áætlaðan innheimtan tekjuskatt 1974 samkv. fjárl. og það, hvaða .tekjutapi ríkissjóður verður fyrir vegna þeirra till., sem lagðar eru fram um lækkun á tekjuskattinum. Það kemur í ljós, þegar skoðuð er skýrsla sérfræðinganna, að tekjutap ríkissjóðs vegna skattalækkunarinnar nemur 1.7 milljarði, 1700 millj. kr. Og það er það tap, sem ríkissjóði þarf að bæta samkv. till. ríkisstj., en ekki 2900 millj. eða 3250 millj., eins og látið er í veðri vaka, þegar þessi grg. er rituð. Skattakerfið, eins og till. ríkisstj. gera ráð fyrir, að það verði, gefur ríkissjóði 1700 millj., og þá hlýtur í því að vera falin skattendurgreiðsla sú, sem gert er ráð fyrir varðandi söluskattauka.

Aðrar gr. þessa frv. fjalla að verulegu leyti um innheimtu og innheimtuaðferðir og þau viðurlög, sem við skal hafa, ef út af er brugðið, og það gert mun strangara. Ég skal ekki eyða tíma hv. þm. í umr. um þær greinar, en gera grein fyrir þeim brtt., sem bornar eru fram af mér ásamt hv. 2. þm. Vestf., Ásberg Sigurðssyni. Þær brtt. eru í samræmi við það frv., sem lagt var fram á Alþ. í haust af fulltrúum Sjálfstfl. í fjh: og viðskn. og er flutt á vegum Sjálfstfl. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að sérsköttun hjóna verði upp tekin. Það er lagt til að breyta einstökum frádráttarliðum í samræmi við þann grundvöll, sem það frv. er byggt á, sem ég gat um áðan, eða sú lögfesting, sem átti sér stað 1961, — þann grundvöll, að almennar launatekjur verði skattfrjálsar. Þá er gerð till. um breyt. á skattþrepum og síðan till. um það, með hvaða hætti skattvísitalan skuli útreiknuð.

Þegar þetta frv. var hér lagt fram, gerði ég ítarlega grein fyrir því máli, og ég sé ekki ástæðu til þess að rekja hverja gr. út af fyrir sig, en þær eru, eins og ég gat um áðan, grundvallaðar á þessu meginsjónarmiði um sérsköttun hjóna, skattfrelsi almennra launatekna og svo breyttum tekjuskattsstiga, þannig að af fyrstu 125 þús. greiðist 15%, af næstu 250 þús. 25% og af því, sem þar er yfir, 38%.

Þá er að gera grein fyrir því, hvað raunverulega felst í þessu frv. og jafnframt brtt. okkar og hvert verður tekjutap ríkissjóðs, verði það að lögum. Samkv. þeim útreikningum, sem unnir hafa verið fyrir okkur, mundi ríkissjóður tapa í tekjum, ef okkar brtt. yrðu samþykktar, um 3000 millj. kr. Með hvaða hætti við viljum bæta ríkissjóði það tekjutap, er að finna í 7. gr. frv., svo og 10. gr. frv., en í 7. gr. er gert ráð fyrir, að til þess að mæta þessu tekjutapi, komi 2% söluskattur, og í 10 gr. verði gert ráð fyrir samþykkt heimildar til fjmrh. að lækka fjárveitingar fjárlaga 1974 um 1500 millj. Þær till. byggjast, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, á sparnaði að upphæð 1 milljarður 500 millj. kr. og á söluskattauka, sem gefa mundi ríkissjóði það, sem eftir er af þessu ári, 1400 millj. kr., samtals 2900 millj., en tekjutap ríkissjóðs eru tæpir 2.9 milljarðar kr. Til þess að mæta þeirri söluskattsaukningu er, eins og ég hef áður gert grein fyrir, lagt til í frv. að bæta þeim lægst launuðu, þeim sem ekki fá hækkun persónufrádráttar, upp með auknum skattafslætti.

Þær tölur, sem ég hef nú gert grein fyrir, eru grundvallaðar á þeim tölum, sem koma fram í skýrslu sérfræðinganna, annars vegar hluti af tekjuskatti óinnheimtum frá fyrri árum og hins vegar innheimtum tekjuskatti á þessu ári. Samtals gerir þessi upphæð 2910 millj. kr., þegar frá er dregin 150 millj., sem gert er ráð fyrir, að fari til greiðslu skattafsláttarins.

Ef við skoðum nánar þessar tölur og gerum okkur grein fyrir því, hvað felst í frv. ríkisstj., þá kemur í ljós, að hún hyggst fá á þessu ári 1200 millj. kr. tekjuauka með samþykkt þeirra till., sem hún hefur lagt til. Ef þessar till. eru skoðaðar á ársgrundvelli 1976, miðað við meðalverðlag 1974, kemur í ljós, að tekjuauki ríkissjóðs 1975 verður 2300 millj. umfram þá skattalækkun, sem gert er ráð fyrir í þeirra till., 1700 millj. kr. skattalækkun, eða samtals er upphæðin 4 milljarðar. Af þessu er ljóst, hvert frv. stefnir.

Það var vikið að því hér af hv. 4, þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, að honum fyndist hlægileg brtt. okkar á þskj. 486, þ.e. um sparnað í ríkisrekstrinum. Það er miklu hlægilegra að heyra þennan hv. þm. koma hér í ræðustólinn og tala eins og hann talaði hér áðan. Hann veit sjálfsagt ekki, að þessi till., sem hér er borin fram, er shlj. till., sem borin var fram hér á Alþ. samkv. brbl., sem hæstv. fjmrh. gaf út 1972, nákvæmlega eins orðuð, um heimild til hans til þess að lækka greiðslur fjárl. og enn fremur til þess að lækka greiðslur, sem eru jafnframt ákveðnar í öðrum lögum en fjárl. Fyrirmyndin er frá hæstv. fjmrh., og verð ég að biðja hann um að taka það til greina, ef hann kærir sig um, sem hv. þm. sagði hér áðan um þessa brtt. okkar.

Við gerum hins vegar grein fyrir því í nál. okkar, að þessi lækkun á útgjöldum ríkissjóðs verði gerð samkv. till. frá fjvn. Við teljum það svo sjálfsagt, að það verði gert, að það þurfi ekki að setja það inn í lagagr. Fjmrh. mun sennilega ekki hafa þurft að notfæra sér þá heimild, sem hann aflaði sér í brbl. frá 1972, en ég trúi vart, að nokkur fjmrh. mundi gera slíkt öðruvísi heldur en bera það undir þá n., sem starfar á vegum fjvn. við samningu fjárl. milli þinga. En að það sé kallað. hlægilegt að koma með till, um að spara, það er alveg nýtt fyrir mér. Ég er sannfærður um það, að fjvn. og þeim aðilum, sem þar eiga sæti, mundi takast að skera niður um 1500 millj. kr. af fjárl. og þeir væru ekki í nokkrum vandræðum að benda hæstv. fjmrh. á, hvar ætti að spara. Ég minnist þess, að í ræðu, sem haldin var hér við 3. umr. fjárl., gerði frsm. 1. minni hl., hv. þm. Matthías Bjarnason, þá grein fyrir því, með hvaða hætti fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. teldu rétt að standa að afgreiðslu fjárl. þá. Þeir buðu fram, að í stað þess að ein eyðslufjárlög enn yrðu afgreidd á Alþ. þá rétt fyrir jólin, fælu þingflokkarnir fulltrúum sínum í fjvn. það í þinghléinu að gera till. um sparnað í ríkisútgjöldum og þannig yrði reynt að stefna að því að koma þaki á fjárl. og afgreiða þau með mun skynsamlegri hætti en verið hefur þá tíð, sem núv. ríkisstj. hefur setið. Í þessari ræðu sinni vék Matthías Bjarnason að fjölmörgum atriðum, sem hann henti á í sambandi við ríkissjóð, með hvaða hætti hægt væri að spara á vegum ríkissjóðs, en ég tel ekki ástæðu til að telja það upp.

Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til að taka slíkt mál og skoða það í fjvn. og vinna að því á þessum grundvelli, og ég segi: Það er ekki óábyrg stjórnarandstaða, það eru ekki óábyrgar till. í sambandi við fjárlagagerð, að menn komi með till. um að spara. — Það getur hver litið í eigin barm, hvað það snertir. Þegar einstaklingurinn telur, að hann hafi í sínum áætlunum ofmetið tekjur sínar, hvað gerir hann þá? Þá gerir hann till. til sjálfs sín um sparnað í ákveðnum tilvikum til þess að láta enda ná saman. Þannig á að fara að í þessu dæmi, og í stað þess að samþykkja vaxandi skattbyrði, í stað þess að halda áfram þeirri eyðslustefnu, sem núv, ríkisstj. hefur haft á stefnuskrá sinni allt frá upphafi, þá leggjum við sjálfstæðismenn til, að litið verði í eigin barm og við skoðum, hvar eigi að líta á okkar eigið dæmi og ráðast á ríkisbáknið, sem hefur þanist út meira en nokkru sinni fyrr í tíð þessarar stjórnar.

Hv. 4. þm. Reykv. gerði að umræðuefni sérstaklega það áhugaleysi, sem við sjálfstæðismenn hefðum sýnt hér á Alþ. í þau 12 ár, sem okkar fulltrúar sátu í ríkisstj., varðandi skattamálin, og það, að við hefðum ekki haft áhuga á skattkerfisbreytingu, á tilfærslu úr beinum sköttum í óbeina skatta. Ég rakti þetta örlítið áðan, og ég vek athygli hv. 4. þm. Reykv. á því nál., sem ég las upp úr áðan, svo og þeim staðreyndum, sem birtar eru í nál. 1. minni hl. fjvn. við afgreiðslu fjárl. nú fyrir 1974, þar sem borið er saman, með hvaða hætti og hvernig þessi mál koma út.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um frv. og þær brtt., sem við flytjum. Þær eru fluttar til þess að sporna við þeirri stefnu, þeirri verðbólgustefnu, sem hefur ríkt í þessu landi. Fyrir valdatöku ríkisstj. kallaði hæstv. fjmrh. þáv. efnahagsstefnu verðbólgustefnu en þegar hann kom í sjónvarpið, eftir að hann hafði sjálfur tekið við, og hann var spurður að því, hvað sú verðbólga, sem hann stæði fyrir væri kölluð, þá átti bann ekki nokkurt orð, hann varð orðlaus. Það er þessi stefna, sem við viljum breyta. Við viljum hverfa aftur til þeirrar stefnu, sem ríkti hér á árum viðreisnar, og koma þessum málum, sem nú eru hér til umr., þannig frá okkur, að það verði Alþingi til sóma heldur en hitt. Við höfum gert till. um breytingar. Þær felast í mikilli skattalækkun til skattþegnanna í samræmi við það frv., sem við höfum áður flutt. Þær ganga lengra en þær till., sem ríkisstj. hefur komið með, sem eru þó ekki í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. varðandi launasamningana nýafstöðnu, og við teljum þess vegna farsælast, að þær till., sem við flytjum, verði hér samþykktar.