13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á s.l. hausti fluttum við þm. Alþfl. till., þar sem mörkuð var ný stefna í íslenskum skattamálum. Við töldum orðið tímabært að gera gagngera breytingu á skattkerfinu á Íslandi. Meginbreytingin skyldi vera fólgin í því, að horfið yrði frá því, að meginþorri einstaklinga greiði tekjuskatt til ríkisins af tekjum sínum, heldur greiði gjöld sín til hins opinbera í staðinn í formi óbeins skatts, söluskatts. Jafnframt var sett fram sú hugmynd, sem nú er kölluð skattafsláttarkerfi.

Meginefni þessa frv. er byggt á sömu grundvallarhugmyndum. En á frv. og till. Alþfl. er einn grundvallarmunur. Í okkar till. var og er nú gert ráð fyrir því, að söluskattur hækki um nákvæmlega jafnmikið og lækkun tekjuskattsins nemur, þ.e.a.s. um 31/2 stig. Í frv. ríkisstj. er hins vegar gert ráð fyrir 5 stiga hækkun söluskattsins, þ.e.a.s. 1200 millj. kr. meiri skattheimtu en nauðsynlegt er vegna lækkunar tekjuskattsins. Ríkisstj. blandar m.ö.o. saman skattkerfisbreytingunni annars vegar og fjárhagsvandræðum ríkissjóðs á yfirstandandi ári hins vegar, en það eru tvö óskyld mál.

Það er einfalt reikningsdæmi að snúa fram á, að okkar niðurstaða er rétt. Lækkun tekjuskattsins er talin kosta ríkissjóð 2700 millj. kr. Hvert söluskattsstig er talið gefa 800 millj. kr. á ári. 31/2 söluskattsstig færa því ríkissjóði þær tekjur, sem hann missir vegna lækkunar tekjuskattsins. Skattaafsláttarkerfið er talið kosta 550 millj. kr. Við höfum einnig bent á tekjur, sem nota megi í þessu skyni. Afstaða okkar þm. Alþfl. er því einföld og skýr, og hún er raunhæf og ábyrg. Við samþykkjum tekjuskattslækkunina og skattafsláttarkerfið, en við samþykkjum ekki meiri hækkun söluskatts en 31/2 stig. Sjálfstfl. og hv. þm. Bjarni Guðnason eru á sömu skoðun. Till. ríkisstj. um 5 stiga hækkun hlýtur því að falla hér í hv. d., og þá ætti ríkisstj. auðvitað eftir öllum venjulegum þingræðisreglum að segja af sér.

Þetta er kjarni þess máls, sem hér er um að ræða. Sumir einstaklingar eru því marki brenndir að gera sér ekki grein fyrir breyttum aðstæðum. Því veldur ýmislegt: óraunsæi, þrái eða bara einfaldlega skringilegheit. Þess eru dæmi, að menn klæðist sumarfötum að morgni, þótt nokkurn veginn víst sé, að rigning verði síðdegis. Þess eru jafnvel dæmi, að menn gangi með regnhlíf í sólskini. Atvinnurekendur auka stundum framleiðslu sína, þótt allt bendi til þess, að söluhorfur fari minnkandi. Þess eru ótal dæmi, að einstaklingar auki eyðslu sína, þótt tekjur þeirra fari minnkandi. Þess eru líka dæmi, að menn, sem misst hafa völd, halda sig enn ráða miklu og hegða sér eftir því.

Þetta, sem ég nú hef sagt, á í ríkum mæli við um núv. hæstv. ríkisstj. Hún áttar sig ekki á breyttri aðstöðu, hvorki aðstæðum í efnahagsmálum í kringum sig né heldur á sinni eigin aðstöðu hér á hinu háa Alþ. Ríkisstj. hegðar sér í efnahagsmálum í algeru ósamræmi við það ástand, sem hefur verið að skapast og er orðið og verður enn alvarlegra á næstu mánuðum. Hún tekur ekkert tillit til þess arna. Og hún hefur ekki heldur áttað sig á því, að því er virðist, að hún hefur misst meiri hl. í annarri deild Alþingis. Hún hegðar sér eins og hún hafi enn þá óskoraðan meiri hluta á Alþingi. Þetta kemur t.d. fram í því, að hún hefur fyrir skömmu lofað voldugum og mikilsvirtum almannasamtökum aðgerðum í efnahagsmálum án þess að athuga, hvort hún gat staðið við loforðið eða ekki. Hér á ég auðvitað við þá skattkerfisbreytingu, sem þetta frv. fjallar um. Ef ríkisstj. hefði áttað sig á breyttri aðstöðu sinni hér á hinu háa Alþ., hefði hún auðvitað átt að láta svo litið að ræða við stjórnarandstöðuna, Alþfl. og Sjálfstfl. og fulltrúa Frjálslynda flokksins hér á hinu háa Alþ., sem nú verður að telja til stjórnarandstæðinga. En það gerði hún ekki. Hún hegðaði sér eins og hún hefði sömu aðstöðu hér á þingi og hún hafði, þegar hún kom til valda í júní 1971. En það hefur hún bara ekki.

Sannleikurinn er sá, að auðvitað hefði ríkisstj., þegar einn helsti stuðningsmaður hennar í upphafi sagði henni upp trú og hollustu, þ.e.a.s. hv. þm. Bjarni Guðnason, þá hefði hún suðvitað átt að draga þá þingræðislegu ályktun af því og segja af sér og leita til forseta Íslands um það, hvort ekki væri hægt að skapa með öðrum hætti starfhæfan meiri hl. í báðum deildum Alþingis. En það gerði hún ekki. Hún hegðar sér eins og maðurinn, sem klæðist sumarfötunum að morgni, þó að hann viti, að það komi rigning eftir klukkutíma. Hún hegðar sér eins og atvinnurekandinn, sem eykur framleiðsluna, eykur athafnir sínar, þótt hann viti, að söluhorfur fari minnkandi. Henni fer eins og óforsjálum einstaklingi, sem heldur áfram að auka eyðsluna og óhófslifnaðinn, þótt hann viti, að tekjur hans fari minnkandi. Hún hegðar sér eins og hrokafullur valdsmaður, sem heldur áfram, heldur fast við hroka sinn, þótt hann viti, að öllum grundvelli sé kippt undan völdum hans. Auðvitað hefði ríkisstj. átt að vera búin að segja af sér, því að henni ætti að vera jafnljóst og öllum íslenskum almenningi er nú ljóst, að henni hafa mistekist hrapallega þau meginverkefni, sem hún tók að sér, þegar hún tók við völdum fyrir tæpum þremur árum.

Ég skal aðeins nefna tvö dæmi um þetta. Getur nokkur verið í vafa um það, að þessari ríkisstj. hefur mistekist stjórn efnahagsmála hrapallegar en nokkurri annarri ríkisstj., síðan stjórnin fluttist inn í landið? Þetta er almenningi vel ljóst, meira að segja skynsömum og grandvörum stuðningsmönnum núv. ríkisstj. í öllum stuðningsflokkum hennar. Ég þarf ekki að nefna annað dæmi til sönnunar þessari staðhæfingu minni en það, að árið 1974, þjóðhátíðarárið, árið, sem víð höldum hátíðlegt 1100 ára afmæli byggðar í landinu, verður mesta verðbólguár í sögu landsins. Ég hef athugað svolítið verðbólgusögu Íslendinga s.l. 30 ár. Það er fróðleg saga og merkileg að mjög mörgu leyti, því að allar götur í meira en 30 ár hefur verið við verðbólgu að etja á Íslandi og allar ríkisstj. reynt að hafa hemil á henni, með afar misjöfnum árangri þó. Ég hef aðeins getað fundið eitt stutt skeið í sögu Íslendinga s.l. þrjá áratugi, þar sem verðbólga hefur á hálfu ári vaxið meira en hún vex nú á hálfu ári, og það er fyrri hluti árs 1942. Þá var stríð í heiminum, og þá var Ísland hernumið land, það var lokað land, gat lítil almenn innflutningsviðskipti átt við aðrar þjóðir. Hins vegar var hér mikil þörf fyrir vinnuafl, hærra verð á íslenskum útflutningsvörum en nokkurn tíma hafði áður átt sér stað í sögu landsins. Þetta olli geysilegu peningaflóði, eins og þeir menn, sem svo eru gamlir að hafa lifað þetta, eflaust muna. Hinir yngri hafa eflaust lesið um það. Það skapaðist sérstakt ástand á Íslandi vegna gífurlegra tekna innanlands, sem aftur áttu rót sína að rekja til gífurlega mikillar atvinnu og gífurlega hás verðlags erlendis. En fólk gat ekkert gert við peningana, því að það var ekki hægt að kaupa þær vörur, sem menn vildu kaupa fyrir peningana, vegna stríðsins. Þetta ásamt stjórnleysi eða illri stjórn, lítilli stjórnfestu í landinu, varð þess valdandi, að á fyrri hluta ársins 1942 var hér meiri verðbólga en áður hafði þekkst. En nú erum við að nálgast þetta fyrra met, og það er ekki á styrjaldartímum, það er ekki á hörmungartímum, heldur er það á mestu blómatímum í sögu íslensks atvinnulífs, þar sem viðskiptin við útlönd eru frjáls, bæði útflutningsviðskipti og innflutningsviðskipti, og þar sem hagur þjóðarinnar er betri eða skilyrði til góðs hags eru betri en nokkru sinni fyrr. Þá gerist það, að við náum því fyrra meti, sem styrjöldin knúði upp á okkur með hörmungum sínum á fyrri hluta ársins 1942. Er hægt að hugsa sér þyngri dóm, ömurlegri dóm um lélega stjórn en þetta, að undir þessum kringumstæðum skuli þjóðinni að þessu leyti, hvað verðbólguna snertir, farnast jafnilla og ekki varð hjá komist, að henni farnaðist um miðbik styrjaldarinnar.

Hitt dæmið, sem ég vildi nefna um stjórnleysi ríkisstj., um vanhæfi hennar til heilbrigðrar stjórnar, er meðferð hennar á varnarmálunum. Ég skal láta nægja að hafa um þetta örfá orð, bara minna á annað dæmi úr annarri átt, sem sýnir, hversu fullkomlega ríkisstj. hafi fatast tökin á stjórn mikilvægra mála. En þessi tvö mál hljóta að teljast kjarni íslenskra vandamála: efnahagsmálin annars vegar og öryggismálin hins vegar.

Ég þarf ekki að minna á, hver yfirlýsing var sett í stjórnarsáttmálann sumarið 1971, það er allri þjóðinni fullvel kunnugt. En síðan eru liðin tæplega 3 ár, og hvað hefur ríkisstj. gert með þessa yfirlýsingu sína, sem hún taldi vera einn af hornsteinum stjórnarstefnunnar? Hvað hefur hún gert í þessu máli? Bókstaflega ekki neitt. Hún hefur ekki einu sinni markað stefnu í málinu, hún hefur átt nokkra fundi. Það eina, sem hún hefur gert, er, að hún hefur áskilið sér rétt til að segja samningnum upp, — áskilið sér rétt til að segja honum upp! Háðulegra getur það varla verið. Hún hefur boðað uppsögn, boðaði uppsögn skömmu eftir að þetta nýja ár hófst, en ekkert hefur gerst. Algert aðgerðaleysi, alger aumingjaskapur, algert stefnuleysi. Það hafa verið haldnir nokkrir fundir með fulltrúum frá stjórn Bandaríkjanna, bæði í Washington og á Íslandi. Ríkisstj. hefur engar till. lagt fram á þeim fundum, hún hefur enga stefnu haft. Eftir tæplega 3 ár er hún enn að leita að stefnu sinni í viðræðum við Bandaríkjamenn. Er hægt að hugsa sér ömurlegri frammistöðu en hér á sér stað og það í því máli, sem sjálf stjórnin taldi vera eitt meginmál sitt, þegar hún var mynduð fyrir tæpum þremur árum? Og enn er ástandið þannig, enn vitum við ekkert, hvenær næsti fundur verður, enn veit enginn, hvort stjórnin hefur stefnu á þeim fundi eða enga stefnu. En ég get ekki annað en lokið þessum pistli með því að segja, að ég vona bara, að stjórnin finni enga stefnu, áður en hún leggur upp laupana. Það væri best fyrir íslensku þjóðina, að hún fyndi hana ekki og færi frá, áður en hún hefur uppgötvað hana.

Ég nefni ástandið á þessum tveim sviðum, í efnahagsmálunum og varnarmálunum, sem sönnun þess, sem óræka sönnun þess, að ríkisstj. hefur reynst gersamlega ófær um að takast á við helstu vandamálin, sem við er að etja í íslenskum þjóðmálum. Þetta hefði hún átt að sjá sjálf og draga af því ályktun að hverfa frá völdum, að segja af sér, í staðinn fyrir að halda áfram að spóka sig í sumarfötum, löngu eftir að komin er rigning.

Nú skal ég snúa mér að því frv., sem hér er til 2. umr., þ.e.a.s. frv. um skattkerfisbreytingu. Ég gat þess í upphafi þessara orða minna, um hvað er í raun og veru deilt. Það er einfalt og augljóst, hvað ber á milli annars vegar stefnu þessa frv. og hins vegar þeirra hugmynda, sem við í þingflokki Alþfl. höfum sett fram. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að það er engin deila um tölur í þessu sambandi. Við deilum ekki við ríkisstj. um það, hvort tölur þær, sem hún hefur birt í frv., séu réttar eða ekki réttar. Við völdum þann kostinn að byggja allan okkar málflutning á þeim tölum, sem ríkisstj. og hennar sérfræðingar hafa lagt fram um málið, einmitt til þess að forðast það leiðindapex, sem í allt of ríkum mæli hefur um langan tíma sett svip sinn á íslenskar umr. um efnahagsmál, þ. á m. skattamál: Er þessi tala svona eða er hún hinsegin? Er þessi tala rétt eða er hún röng? Af okkar hálfu verður ekki um neinar deilur um réttar eða rangar tölur að ræða. Það, sem ég segi hér á eftir, og það, sem við höfum sagt hingað til, verður byggt á þeim tölum, sem ríkisstj. sjálf hefur lagt fram. En um eitt deilum við, og það er í raun og veru kjarni málsins. Það er um eitt grundvallaratriðið, sem deilan snýst á milli ríkisstj. annars vegar og þeirra sjónarmiða, sem Alþfl. hefur sett fram um þetta mál, hins vegar, og það er, hvernig á að meta skattkerfisbreytingu, á hvaða grundvelli á að dæma um það, með hverjum hætti einn skattur getur komið í staðinn fyrir annan.

Ef við breytum tekjuskatti í söluskatt, hvernig á að bera hreyt. saman? Við höfum sagt og segjum enn og frá því munum við ekki hverfa, því að það er rétt, að þegar um skattkerfisbreytingu er að ræða, þegar tekjuskatti er breytt í söluskatt, þá á að miða við ársgrundvöll, þá á að miða við það, hvað tekjuskattslækkunin þýðir mikinn tekjumissi fyrir ríkissjóð á einu ári og hvað söluskattshækkunin veitir ríkissjóði mikla tekjuaukningu á einu ári. Við viðurkennum fúslega, að ef ríkisstj. fellst á að lækka tekjuskatt með breyt. á tekjuskattslögum og þegar hún reiknar út, sem við véfengjum ekki, að sú tekjuskattslækkun þýði tekjumissi um 2700 millj. kr. á ári, þá segjum við: Við skulum samþykkja þá hækkun söluskatts, sem gefur ríkissjóði 2700 millj. kr. á einu ári. Hreinskiptari getur þessi afstaða ekki verið. Einfaldara getur reikningsdæmið ekki verið. Og þegar ríkisstj. sjálf segir, að eitt söluskattsstig svari til 800 millj. kr. á ári, þá þarf hún ekki að kunna annað en einfalda deilingu til þess að sjá, hvað mörg söluskattsstig þarf til þess að jafna 2700 millj. kr. tekjumissi, og það er um það bil 31/2 stig. Einfaldara getur reikningsdæmið ekki verið. Á þessu byggist tilboð okkar um að samþykkja hækkun söluskattsins um 31/2 stig.

En þá er eðlilegt, að menn segi: Í frv. felst meira en þetta, meira en lækkun tekjuskatts. Það felst líka í frv., að tekið skuli upp skattafsláttarkerfi, sem ríkisstj. sjálf segir, að muni kosta 550 millj. kr. Við álítum það líka skyldu okkar að benda á möguleika til þess, að hægt sé að standa undir þessum kostnaði, 550 millj. kr. Í því sambandi viljum við fyrst benda á það, að eftir að núgildandi fjárlög voru samin, tók hæstv. fjmrh. ákvörðun um nýjan tekjustofn, sem ekki er gert ráð fyrir í fjárl. Svo sem kunnugt er, var maí eigin húsaleigu við skattaframtöl metið sem ákveðinn hluti af fasteignamatsverði. Áður gilti sú regla, að húsaleiga var miðuð við 2% af faseignamati, og við þessa reglu óbreytta voru fjárl. miðuð og eru miðuð. Í jan. tók hæstv. fjmrh. þá ákvörðun að hækka þetta mat eigin húsaleigu úr 2% af fasteignamati upp í 3% af fasteignamati. Þetta er ný ákvörðun, tekin eftir að fjárlög eru samin, sem færir ríkissjóði auknar tekjur og jafngildir alveg nýjum tekjustofni. Mjög varlega áætlað mun þessi nýi tekjustofn auka tekjur ríkisins um 150–200 millj. kr. á ári.

Í öðru lagi er svo þess að geta, að tekjur af tekjuskatti eru í fjárl. ársins í ár miðaðar við það, að tekjuskattur aukist um 25–26% á milli áranna 1972 og 1973, m.ö.o,: sá tekjuskattsstofn, sem lagður verði á í ár, sé 25–26% hærri en sá, sem lagt var á í fyrra. Ég dreg ekki í efa, að þetta hafi verið samviskusamlega fengnar niðurstöður, þegar fjárl. voru samin, þ.e.a.s. í des. En athuganir í jan. og febr. hafa sýnt, að þær voru of varfærnar. Aukning tekjuskattsins verður meiri en þetta, mun meiri. Ég skal engu spá um það, hver hún raunverulega verður. Endanlegar tölur munu ekki liggja fyrir um það. En eitt þori ég að fullyrða: Aukningin verður alveg örugglega meiri en 27–28%. Það er algert lágmark að áætla hana það, hún verður meiri, líklega 29–30 eða 31%. En þó að ekki sé gert ráð fyrir því, að aukningin milli áranna 1972 og 1973 verði nema um 2–3% umfram áætlun fjárlaga, gefur það 350–400 millj. kr. aukningu á tekjuskatti umfram tölur í fjárl., svo að hér er komin sú tala, sem þarf til að standa undir skattafsláttarkerfinu, 550 millj. kr. af þessum tveimur liðum, svo að ríkisstj. þarf í raun og veru ekki að gera annað en að taka einfalda ákvörðun um það, — mér skilst, að hún taki margar ákvarðanir á sínum mörgu fundum, — hún þarf bara að taka einfalda ákvörðun: Tekjurnar af hækkun skattmats eigin húsaleigu úr 2 í 3% og 350–400 millj. kr. af þeim tekjuauka, sem við fáum af tekjuskattinum, skulu renna í sérstakan sjóð, sem skal standa undir skattafsláttarkerfinu. Þá verður þeim sjóði séð fyrir nægilegum tekjum. Að þessu er þannig varið, hefur einnig komið í ljós nú alveg nýlega í skýrslu, sem embættismenn gáfu fjh: og viðskn. í fyrradag á fundi hennar, sem eru enn þá nýrri upplýsingar og staðfesta þennan hugsunarhátt fullkomlega. Það eru nýjar tölur, sem mér var ekki kunnugt um fyrr en einmitt á fundi, sem haldinn var í fyrradag. Í skýrslu embættismanna kom fram, að tekjur einstaklinga í gildandi fjárl. eru áætlaðar 5864 millj. kr. Miðað við núgildandi forsendur eru tekjur af tekjuskattinum áætlaðar 4100 millj. kr., ef frv. er samþ. Tekjur af tekjuskatti eru m.ö.o. taldar verða aðeins 1764 millj. kr. minni en fjárlög gerðu ráð fyrir. Embættismennirnir telja nú í dag, að tekjur af tekjuskatti muni í reynd í ár verða aðeins 1764 millj. kr. minni en fjárl. gerðu ráð fyrir.

En hvað segja sérfræðingarnir um söluskattinn? Tekjur af honum eru áætlaðar í fjárl. 6702 millj. kr. En nú áætla sérfræðingarnir, að tekjur af söluskatti í reynd á árinu 1974 muni verða 10780 millj. kr. eða m.ö.o. 4078 millj. kr. hærri en fjárl. gera ráð fyrir. Niðurstaðan af ályktuninni er alveg augljós. M.ö.o.: frv. ríkisstj. er byggt á því, að tekjur af söluskatti aukist um 4078 millj. kr., en tekjur af tekjuskatti lækki ekki nema um 1764 millj. kr., m.ö.o.: tekjuaukning af söluskattinum er meira en tvöföld á við þá lækkun á tekjuskatti, sem sérfræðingarnir nú gera ráð fyrir.

Það er ekki hægt að fá gleggri sönnun en þessa, sótta til sérfræðinganna sjálfra, um það, að frv. byggir á því að taka meiri tekjur af söluskattsgreiðendum en það ætlar að skila tekjuskattsgreiðendum. Meiri en helmingi meiri tekjur ætlar ríkið að hafa upp úr söluskattinum en það, sem þeir missa í tekjum vegna lækkunar tekjuskattsins. Þetta er staðfesting á því, sem mann grunaði i upphafi og hefur fengist meiri og meiri staðfesting fyrir, að ríkisstj. ætlar sér að nota skattkerfisbreytinguna, vinsæla skattkerfisbreytingu, til þess að næla sér í viðbótartekjur — til þess að leggja nýjar álögur á skattgreiðendurna til þess að bæta úr bágum fjárhag ríkissjóðs. Þessar tölur sérfræðinganna frá því í fyrradag eru sönnun fyrir því, að þessi grunsemd var í upphafi rétt og það, sem við höfum verið að segja um þetta undanfarnar vikur og daga, t.d. þm. Alþfl., án þess að geta sannað það beinlínis. Nú er sönnunin komin. Það þurfti ekki á neinni reikningslist af okkar hálfu að halda. Sérfræðingar ríkisstj. reiknuðu þetta fyrir okkur og sönnuðu, að við hefðum haft og höfum enn rétt fyrir okkur.

Sannleikurinn er sá, að tilraunir ríkisstj, til þess að blanda saman vinsælu máli sem skattkerfisbreytingu annars vegar og óvinsælu máli, sem er að lappa upp á lélegan fjárhag ríkissjóðs, hins vegar, eru auðvitað fullkomlega óheiðarleg viðleitni, og allt, sem sagt er til að styðja hana, er óheiðarlegur málflutningur. Á það verður ekki lögð nægilega rík áhersla, að skattkerfisbreyt. er eitt mál og fjárhagsvandræði ríkissjóðs á árinu 1974 eru annað mál. Þetta eru óskyld mál, sem ekki á að ræða saman og ekki á að fjalla um í einni og sömu löggjöf. Þetta frv. heitir „frumvarp til laga um skattkerfisbreytingu“. Það heitir ekki „frumvarp til laga um fjárhagsvandræði ríkissjóðs á árinu 1974“. Ef það héti það, gæti maður skilið, að menn töluðu eins og hv. 4. þm. Reykv. talaði hér áðan og hæstv. fjmrh. við 1. umr. En það heitir ekki það. Ég er ekki að bera á móti því, að það væri ekki þörf á því fyrir ríkisstj. að bera fram frv. um fjárhagsvandræði ríkissjóðs á árinu 1974. Það er afskaplega alvarlegt mál. Ætti að sýna Alþ. þann sóma að bera fram frv., sem fjallaði um þetta, skulum við ræða það. En það yrði meira vandræðamál og óvinsælla en frv., sem hér er um að ræða. Ríkisstj. er nógu óheiðarleg til að gera tilraun til að blanda þessu tvennu saman, sem er þó algerlega óskylt.

Öll röksemdafærsla fulltrúa hæstv. ríkisstj. um það, að ekki megi reikna nema með 91/2 mánaða tekjum af söluskattshækkuninni, er byggð á þeirri grundvallarvillu, að það sé eitt og hið sama, skattkerfisbreyting og fjárhagsvandræði ríkissjóðs á árinu 1974. En er það ekki alveg augljóst mál, að ef við berum saman tekjumissi af lækkun tekjuskatts í 12 mánuði, þá er eina talan, sem er sambærileg við þetta, tekjuaukning vegna hækkunar söluskatts í aðra 12 mánuði? Það er aðeins með einu móti, sem svona mætti hugsa, svona mætti haga málflutningi sínum. Það væri, ef skattkerfisbreytingunni væri ætlað að standa bara árið 1974. Ef hún ætti að standa bara 1974, má rökstyðja það, að þörf sé á 5 stigum. En skattkerfisbreytingunni er ekki ætlað að standa bara 1974, henni er ætlað að standa til frambúðar. (Gripið fram í.) Þá reiknum við líka tekjuskattinn á grundvelli 91/2 mánaðar. (Gripið fram í: Við skulum bara samþykkja það 1974.) Tekjuskattinn líka? Það er kjarni málsins. Þá er enn sennilegra, að við reiknum rétt. (Gripið fram í.) Ráðh. getur talað á eftir, hann þarf ekki að nota þann ræðutíma, sem ég hef. — Kjarni málsins er sá, að annaðhvort reiknum við með 12 mánuðum báðum megin eða 91/2 mánuði báðum megin, og alveg sama hvort við gerum. Annars er slagsíða á dæminu og það er það, sem ráðh. allir vilja. Þeir vilja hafa slagsíðu á dæminu eins og á sjálfri ríkisstj. En það dugir ekki að rétta slagsíðu stjórnarinnar á því að reyna að hafa slagsíðu á þeim dæmum, sem þeir setja upp, og þeim till., sem þeir flytja. Það réttir þá ekki af, þó að ég heri ekki á móti því, að þeir þyrftu eitthvað til að rétta sig reglulega af.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem nokkuð hefur verið úr gert, að ríkisstj. hafi gefið yfirlýsingu gagnvart Alþýðusambandinu, sem hún muni standa við. Að vísu er það svo, að hún hefur í hliðarherbergjum og á nefndarfundum gert ýmsar till. til okkar í stjórnarandstöðuunni, sem einmitt eru um að standa ekki við yfirlýsingar gagnvart Alþýðusambandinu. Þeir eru búnir að gera mörg tilboð um að svíkja þessar yfirlýsingar, — mörg, fleiri en eitt, fleiri en tvö og fleiri en þrjú, svo að það er ekki bara umhyggja fyrir því, sem ASÍ var sagt, sem hér ræður verkum, heldur er það, sem stjórnar gerðum ríkisstj., vandræðin með ríkissjóð á árinu 1974. Það er það, sem ræður öllum till. og öllum gerðum hæstv. ríkisstj. En í þessu sambandi vildi ég benda á í fyrsta lagi, að það var engan veginn eining um þá yfirlýsingu, sem ríkisstj. fékk samþykkta í 30 manna nefnd Alþýðusambandsins. Það var tiltölulega naumur meiri hl., sem samþykkti hana. Ýmsir menn án tillits til flokka, — þarna skipti flokkapólitík ekki minnsta máli og á ekki að gera og sem hefur fer gerði hún það ekki, ýmsir fulltrúar verkalýðsfélaga greiddu atkv. gegn því að taka við þessari yfirlýsingu, margir aðrir sátu hjá, og það var naumur meiri hl. n. í heild, sem samþykkti að taka yfirlýsinguna gilda. Allt þetta eru aukaatriði. Hitt er aðalatriðið og kjarni málsins, að ríkisstj. hlekkti 30 manna n. Það er auðvitað ríkisstj, til vansæmdar, en ekki 30 manna n. Það er þeim til vansæmdar, sem blekkir, en ekki hinum, sem því miður lætur blekkjast, því að þegar dæmið er skoðað niður í kjölinn kemur í ljós, að það þarf ekki 5 stig, eins og ég er búinn að sýna fram á, sýndi fram á við 1. umr., sýndi fram á í nál. og sýni enn fram á í þessari ræðu. Það þarf ekki nema 31/2 stig, til þess að staðið sé að öllu leyti við skuldbindingarnar gagnvart Alþýðusambandinu.

Það er gerður greinarmunur á því. Í yfirlýsingunni eru annars vegar skuldbindingar og hins vegar fórn, — skuldbindingar af hálfu ríkisstj. og hins vegar fórn af hálfu launþegasamtakanna. Skuldbindingar ríkisstj., sem í eiga að felast hagsbætur fyrir launþeganna, þ.e. lækkun tekjuskattsins og skattafsláttarkerfið, — þetta var það, sem ríkisstj. lofaði verkalýðshreyfingunni, og við það á hún auðvitað að standa. Hitt var fórnin, verðið, sem ríkisstj. heimtaði af launþegasamtökunum, og þar blekkti hún. Hún heimtaði 5 stig, þó að hún hefði átt að vita eða a.m.k. ætti að vita núna, ef hún skilur almennan reikning, að það þarf ekki nema 31/2 stig. Það var þessi blekking, sem er hið alvarlega í málinu. Og þó að ekkert yrði af þessu öllu saman, eru það reginsvik af hálfu ríkisstj., því að hún er búin að lofa launþegunum hagsbótum í tekjuskattslækkuninni og skattakerfinu, sem hún sviki nú um, af því að hún vill ekki játa, að hún blekkti verkalýðshreyfinguna á hinum löngu næturfundum í Loftleiðahótelinu. Ég veit ekki, hvort hún ber ábyrgð á blekkingunum, það skiptir ekki máli, ég skal enga tilraun gera til þess að dæma um það, en um blekkingu var að ræða, og það er mergurinn málsins. Auðvitað hlýtur verkalýðshreyfingin að fagna því að fá þær hagsbætur, sem henni hefur verið lofað, og þurfa ekki að borga fyrir þær nema það verð, sem sannanlega þarf til að standa undir hagsbótunum.

Til þess að undirstrika þetta sjónarmið á mjög alþýðlegan hátt og með þeim orðum, sem enginn vafi er á, að hvert mannsbarn í landinu skilur, vil ég ljúka máli mínu með því að leggja eftirfarandi dæmi fyrir frsm. n., hv. 4. þm. Reykv., og biðja hann um að hugleiða það, þangað til hann talar næst, og hafa þá á reiðum höndum svör við vandamálinu í þessari stuttu dæmisögu.

Við skulum hugsa okkur, að dóttir Jóns Jónssonar komi til hans og biðji hann um að gefa sér kápu. Jón svarar og segir við dóttur sina: Hún er afskaplega dýr, hún kostar 3 þús. kr., og ég hef ekki efni á því, elskan mín, að gefa þér þessa kápu, fyrst hún er svona dýr, kostar 3 þús. kr. — Stelpan segir: Ég verð að fá kápuna, ég verð að fá hana. — Þá segir Jón við hana: Heyrðu góða, komdu á morgun, ég skal hugsa málið. — Og aftur kemur stúlkan daginn eftir og segir við hann: Heyrðu pabbi. Kápan kostar ekki nema 2000 kr. Ég fór í búðina og gáði að því, hún kostar ekki nema 2000 kr. — Hvað gerir nú Jón Jónsson í þessu efni? Lætur hann stelpuna fá 3 þús. kr.? Nei, auðvitað ekki. Hann lætur hana fá rétta verðið. Hann lætur hana fá 2000 kr., og stelpan eignast kápuna, sem hún hefur eflaust fulla nauðsyn fyrir og hefur mikla ánægju af. Það að láta hana hafa 3000 kr. hefði verið algerlega út i bláinn, algerlega óþarft. Hvað hún hefði gert við þá peninga, veit enginn, og þess vegna hefði auðvitað góður faðir alls ekki hegðað sér með þessum hætti. Nú vil ég biðja hv. þm. Þórarin Þórarinsson að hugsa um, hvað hann mundi hafa gert í sporum Jóns Jónssonar.