14.03.1974
Efri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

259. mál, skattkerfisbreyting

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 499 er frv. til l. um skattkerfisbreytingu. Þetta frv. hefur verið til umr. í hv. Nd. nú að undanförnu og gengið þar í gegnum allmikla eldskírn.

Eitt af því, sem mér þykir rétt að gera grein fyrir í upphafi máls míns hér í hv. d., er meðferð málsins, áður en það kom til þings. Eins og kunnugt er, er þetta frv. fram borið m.a. sem árangur af samstarfi ríkisstj. við heildarsamtök alþýðunnar í landinu, Alþýðusamband Íslands og þá n. manna, sem Alþýðusambandið kaus til þess að eiga viðtöl við ríkisstj. Því hefur verið haldið fram í þessum umr., að óeðlilegt væri, að slíkt samkomulag væri gert, áður en málið væri kynnt á hv. Alþingi, en ég hygg, að allmörg dæmi séu um, að slík vinnubrögð hafi verið viðhöfð. Í því sambandi leyfi ég mér að nefna lög um Atvinnuleysistryggingasjóð, en hann er upphaflega til orðinn með þeim hætti, að það var gert sem, komulag í kjaradeilu álíka og þeirri, sem samið var um þetta skattalagafrv., af samninganefndarmönnum þá fyrir hönd ríkisstj., að Atvinnuleysistryggingasjóður yrði upp settur og drög að þeirri löggjöf, sem þá síðar var samþykkt, voru þar lögð.

Annað dæmi, sem ég vil nefna um slík vinnubrögð, eru Breiðholtsframkvæmdirnar, en þær voru árangur af samkomulagi, sem gert var á milli hæstv. ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands á árinu 1965. Málið varð til við slíka samninga.

Þá vil ég enn fremur minna á landhelgissamninginn, sem gerður var á sínum tíma á milli ríkisstj. Íslands og ríkisstj. Bretlands og var af þeirri gerð, að hann var fyrir Alþingi lagður með þeim hætti, að það átti ekki kost á að breyta honum.

Þess vegna mun það ekkert einsdæmi vera, að þau mál, sem eru gerð með samkomulagi við aðila utan Alþingis, séu lögð fyrir Alþingi með þeim hætti, að það sé ekki hægt að gera breyt. á þeim málum, sem miklu máli skipta.

Enn fremur hefur verið á það bent, að um stefnubreytingu væri að ræða hjá núv. ríkisstj. að hverfa frá beinum sköttum til óbeinna. Það hefur oft verið tekið fram í umr. á hv. Alþingi, hæði af mér og öðrum fyrir hönd ríkisstj., að ríkisstj. væri til þess fús að breyta skattal. þeim, sem nú gilda, í þá átt að draga úr beinum sköttum og færa þá yfir á óbeina, ef fengist samkomulag um að gera þá breyt., án þess að tekjuöflun í óbeinum sköttum gengi inn í vísitöluna. Í skýrslu þeirri, sem skattanefndin skilaði á s.l. hausti, kemur fram, að gert er ráð fyrir því, að sú breyt, verði á, að það verði dregið úr beinum sköttum og farið yfir í óbeina skatta, og í því sambandi er virðisaukaskatturinn nefndur sem framtíðarstefna í þeim málum.

Ég vil einnig nefna það, að það hefur komið fram í þessum umr., að hv. þm. hafa tekið það sem dæmi, sem ádeilu á núv. skattalög, að fleiri greiði nú tekjuskatt en áður hafi verið. En það stafar fyrst og fremst af þeirri skattkerfisbreytingu, sem var gerð með þessum skattalögum, að þeir, sem áður greiddu persónuskatt til trygginganna, greiða hann nú í gegnum tekjuskattinn, að því leyti sem þeir greiða þennan skatt. Og í öðru lagi hefur verið dregið úr útgjöldum eða skattálagningu sveitarfélaga og fært yfir á ríkið vegna þeirra verkefna, sem ríkissjóður hefur tekið að sér.

Í framhaldi af þessu vil ég minna á þær umr., sem hafa orðið um skattamál hér á hv. Alþingi í vetur og hafa verið allnokkrar. Þessi mál eru nú mjög til athugunar, því að nú er verið að setja á laggirnar til viðbótar þeirri skattanefnd, sem áður hefur unnið að þeim málum, fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum, sem eiga að hafa vald til þess að hafa sömu áhrif og skattanefndarmennirnir á þann hátt, sem þeir vilja, og þá fyrst og fremst stefnt að því, að þeir geti komið sér saman um þau atriði, sem hægt er að ná saman um. Er þar lögð höfuðáhersla á, að virðisaukaskatturinn geti orðið sameiginlegt álit stjórnmálafl. í landinu. En þau atriði önnur, sem ekki er hægt að koma sér saman um, koma auðvitað til ákvörðunar stjórnvalda þeirra, sem endanlega leggja málið fyrir.

Í ræðu þeirri, sem hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, flutti hér um beina skatta og óbeina í sambandi við skattafrv. 1972, taldi hann það höfuðstefnumark Sjálfstfl. að ganga lengra í óbeinum sköttum en verið hefur og minnka aftur hlutfall beinu skattanna. í ályktunartillögu, sem Alþýðusambandið gerði á kjaramálaráðstefnu sinni í Reykholti 27. og 28. ágúst s.l. og á framhaldsfundi í Reykjavík 12. og 13. okt. s.l., voru samþ. ályktanir um skattamál, sem fólu í sér ósk um lækkun á tekjuskatti einstaklinga, sem þeir einnig gerðu sér grein fyrir, að leiddi til hækkunar á óbeinum sköttum.

Ríkisstj. tók upp viðræður við forráðamenn ASÍ, bæði formann ASÍ og formann samninganefndar ASÍ, upphaflega á grundvelli þessarar ályktunar, sem henni barst, og þær umr. urðu svo víðtækari, fleiri nm. bættust í hópinn, og síðar beindust vinnubrögðin inn á annað svið.

Meginatriðið í þeim umr., sem fram fóru á milli ríkisstj. annars vegar op ASÍ-mannanna hins vegar, var, að tekjuskattur einstaklinga yrði lækkaður verulega, en á móti kæmi söluskattur, sem yrði hækkaður svo, að ríkissjóður yrði skaðlaus á þessu ári af skiptunum, og þau söluskattsstig, sem á móti kæmu, yrðu ekki reiknuð inn í kaupgreiðsluvísitöluna. Þeim tekjulægstu yrði þetta einnig skaðlaust, og það væri gert með því að greiða þeim neikvæðan skatt, sem bætti þeim upp kostnaðinn af söluskattaukanum.

Framhaldið af þessum viðræðum var svo í framkvæmdinni þannig, að það voru ákveðnir 3 menn frá ASÍ: Björn Þórhallsson, formaður Verslunarmannasambandsins, Guðmundur J. Guðmundsson, varaform. Dagsbrúnar, Þórólfur Daníelsson, form. Prentarafélagsins, annars vegar, en Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, ásamt þeim Ólafi Davíðssyni hagfræðingi og Höskuldi Jónssyni skrifstofustjóra í fjmrn., unnu að málinu af hálfu ríkisstj.

Árangurinn af þessum viðræðum er yfirlýsing sú um skattamál á bls. 7–9 í grg. frv., sem var undirrituð af hálfu 3 ráðherra, sem tóku þátt í þessum umr., þ.e. hæstv. félmrh., hæstv. viðsk.- og sjútvrh, og mér, og síðar var samþ. í 30 manna n. ASÍ með miklum meiri hl. atkv., 19 greiddu henni atkv., 3 voru á móti og 6 sátu hjá.

Vinnubrögð við samningu þessa frv. hafa verið þau, að Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri hefur haft forustu um undirbúning málsins, og þeir embættismenn, sem ég greindi frá áðan, unnu verkið með honum. Þó forfallaðist Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri vegna veikinda, en Árni Kolbeinsson fulltrúi í fjmrn. bættist þá í hópinn. Af hálfu ASÍ tilnefndi forseti ASÍ sömu menn og ég hef áður greint til þess að vinna að gerð frv. Einnig fékk forseti ASÍ málið í sínar hendur á undirbúningsskeiði frv. Ríkisskattstjóri benti svo n. á ýmis tæknileg atríði, er málið varða.

Algert samkomulag varð um gerð frv. af hálfu starfsmanna ríkisstj. og fulltrúa ASÍ, og töldu þeir, að frv. væri í fullu samræmi við áðurgreinda yfirlýsingu, og gerðu við þetta viðbótaryfirlýsingu, sem er að finna á bls. 11 í grg. frv., en hún er um þá væntanlegu breyt., sem yrði á l. um næstu áramót, þegar til heils árs gæti komið.

Efni þessa frv., að því leyti sem það er breyt. frá gildandi skattalögum, er í fyrsta lagi, að einhleypur aðili hefur í persónufrádrátt 238 þús. kr., hjón 355 þús. og barn 50 þús. Enn fremur er á bls. 8 í þessu frv. að finna viðbót við þetta, sem er fram komin, eftir að skattafslátturinn hefur verið reiknaður, og eins og kemur fram í þeirri grg. frv., er hækkunin meiri í raun en um var samið. Þetta ákvæði var notað til að jafna metin vegna þeirra tekjulægstu, eins og stefnt var að með ákvæði samkomulagsins, er ég vitnaði til. Verður persónufrádrátturinn þá eins og þar segir, að einhleypur hefur í persónufrádrátt 293 þús., barnlaus hjón 448 þús., hjón með 2 börn 572 þús., og einstætt foreldri með eitt barn 500 þús. Þetta eru þær tekjur, sem frá eru dregnar, áður en skattur er á lagður.

Þá vil ég og benda á það í sambandi við unga fólkið, sem komið er að í þessu frv. í sambandi við skattafsláttinn, að þar er tekið fram, að að því leyti sem fjármunir muni ganga til námslánasjóðsins, þá verði síðar sett í reglugerð, hvernig með skuli farið. En eins og kunnugt er, hefur aðstoð ríkisvaldsins við unga fólkið mjög verið aukin á síðustu árum. Ber þar fyrst að nefna persónuskattana, sem nú væru í reynd á milli 20 og 30 þús. kr. á hvern einstakling, ef kostnaður til trygginga og sjúkrasamlags væri framkvæmdur á sama hátt og gert var, áður en lög voru sett árið 1971 þar um. Þá hafa námslánin mjög verið aukin og aðstoð við dreifbýlisfólkið einnig samkv. þeim l., sem sett voru á þinginu 1972. Þessu til viðbótar kemur svo sá skattafsláttur, sem hér er gert ráð fyrir að framkvæmdur verði.

Um skattafsláttinn er svo það að segja, að það er ekki gert ráð fyrir því, að hann nái lengra niður en í 6% af brúttótekjum, og það ákvæði er sett vegna þess, að ef lengra er haldið eru viðkomandi farnir að fá heinar greiðslur umfram það, sem gert er ráð fyrir að þeir mundu eyða í söluskatt vegna skattkerfisbreytingarinnar. En það er ekki hugsunin með þessu frv., að lengra sé gengið í því en að bæta það upp, sem söluskatturinn kynni að taka vegna kaupa viðkomandi aðila, en tekjur, sem svo tekjulágt fólk hefði til ráðstöfunar til kaupa á söluskattsskyldum vörum, yrðu sáralitlar.

Þá inniheldur frv. annað atriði, sem er meginatriði þess, þ.e. að skattstiginn er gerður rýmri, bæði eru þrepin lengd og skattprósentan lækkuð. Í staðinn fyrir 77 þús. kr., sem var fyrsta stigið, sem á var lagt, frá 0–77 þús., kemur nú 100 þús. kr., og á þetta er lagt 20% í staðinn fyrir 25%. Í öðru lagi er svo lagt á 30% frá 100 þús. til 200 þús., en þetta skattþrep var frá 77 þús. í 115 þús. og álagningarprósentan 35%. Í þriðja lagi er svo 200 þús. og þar yfir, sem áður var 115 þús., og er það 40% í staðinn fyrir 44%, eins og er í gildandi lögum.

Þessi tvö meginatriði frv., hækkaður persónufrádráttur og breyting á skattþrepum, lægri skattprósenta, er það, sem snýr að skattamálunum veldur þeirri meginbreytingu, sem í þessu frv. er fólgin á því sviði.

Þá vil ég geta þess, að öll réttindi og annað, sem snýr að gamla fólkinu, er með svipuðum hætti og áður hefur verið, þannig að það nýtur fullkomlega þeirrar breytingar til hagsældar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hitt meginatriði frv. er svo það að bæta ríkissjóði upp það tekjutap, sem hann verður fyrir vegna skattbreyt. og frv. gerir ráð fyrir því, að til þess að ríkissjóður verði þannig haldinn á þessu ári, 1974, að það nægi honum til þess að mæta tekjutapi, sem hann verður fyrir vegna skattalækkunarinnar, þurfi að koma á 5 söluskattsstig.

Útreikningar þeir, sem frv. fylgja, eru miðaðir við það, að frv. hefði orðið að lögum 1. febr. og söluskatturinn hefði gilt frá þeim tíma. Er gert ráð fyrir því, að tekjur af söluskatti á þessu tímabili mundu nema með álagningu fram til áramóta um 3400 millj. kr., hins vegar mundu ekki innheimtast af þessari fjárhæð nema 3000 millj. kr., en áætlun fjárl. miðar í þessu sem öðru við greiðslutöluna en ekki álagningartöluna, enda kemur ekki til nota á því ári, sem á er lagt, nema það, sem innheimt er. Þess vegna, þegar á þetta er litið, sýnir það sig, að hér stenst á það, sem gert er ráð fyrir að tapist, og það, sem gert er ráð fyrir að vinnast, nema þó að heldur hallast á ríkissjóð þar um, vegna þess, að þegar frv. var lagt fram, lá ekki fyrir áætlun um væntanlegar tekjur af tekjuskatti á þessu ári, nema sú álagningarregla, sem reiknað var með, þegar frá fjárl. var gengið fyrir jólin. Nú hafa hins vegar verið gerð úrtök, sem sýna að gera má ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs reynist meiri af tekjuskattinum, en gert var ráð fyrir í frv., og er reiknað með, að þar sé um að ræða 3–4 hundruð millj. kr. Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess, að tekjuskattur sá, sem ríkissjóður gefur eftir vegna kerfisbreyt., verður einnig hærri tala, og er óhætt að fullyrða, að þar sé um að ræða a.m.k. 2.9 milljarða eða jafnvel 3000 millj. kr. En ef ég held mig við lægri töluna, sem örugg er, þá er þar um að ræða 2900 millj. kr., skattafslátturinn er reiknaður um 550 millj., og söluskattur, sem ríkissjóður verður að greiða vegna söluskattsbreyt., er 100 millj. kr. Hér er því um að ræða fjárhæð, sem nemur 3550–3600 millj. kr. Tekjur, sem áætlað er, að ríkissjóður hafi af söluskatti, þá miðað við 1. mars, miðað við það, að hvert stig gæfi á ári um 800 millj. kr., sem eru verulega hærra en nokkurn tíma hefur verið, væru 3400 millj. á þessu tímabili.

Hins vegar er ljóst, að þó að þetta frv. verði að lögum, nýtur ríkissjóður ekki tekna af söluskattinum fyrr en seint í þessum mánuði eða jafnvel undir mánaðamót. Þar getur því ekki orðíð um að ræða álagningartölu nema um 3300–3400 millj., það var það hámark, sem gert var ráð fyrir, og af þeirri fjárhæð mundu um 4400 millj. kr. færast yfir til næsta árs, vegna þess að þær innheimtust ekki fyrr en á því ári. Þess vegna má gera ráð fyrir því, að mismunurinn, ríkissjóði í óhag vegna þessarar kerfisbreyt., geti orðið 200–600 millj. kr. Þessu vildi ég vekja athygli á, því að hér er um staðreyndir að ræða, sem ekki verða hraktar.

Ég vil svo, til þess að eyða ekki of löngum tíma í að mæla fyrir þessu frv. á þessu stigi, geta þess, sem ég vil að sé höfuðþátturinn í þessum umr., að blanda ekki öðrum fjármálum ríkissjóðs inn í þetta dæmi en kerfisbreytingin gefur tilefni til. Ég hef því haldið mig algerlega við það í umr. í hv. Nd. og mun einnig gera það hér.

Ég vil leggja á það áherslu, að þetta frv. ríkisstj. stefnir í þá átt að gera verulega meiri hluta af tekjum skattþegnanna skattlausan en áður hefur verið með auknum persónufrádrætti. Það gerir skattbyrðina einnig léttari með því að lengja þrepin á milli stiganna og lækka afsláttinn. Í þriðja lagi vil ég benda á það til viðbótar því, sem ég sagði um persónufrádráttinn, að þar kemur afslátturinn til viðbótar því, sem greinir í 3. gr. frv. um hann. Hann er 11 þús. kr. fyrir einstakling, 18.500 fyrir hjón og 3.300 fyrir hvert barn.

Ég vil líka endurtaka það, að 6% markið er miðað við það að halda því, að hér sé ekki verið að fjalla um annað en það, sem frv. hefur áhrif á og ekki verið að bæta það, sem er, miðað við þau mörk, sem söluskatturinn gæti tekið af þeim tekjulægstu. Greiðslur úr ríkissjóði fyrir þá, sem eru tekjulægstir, vegna skattafsláttar mundi því verða, eins og ég áður sagði, um 550 millj. kr. Er gerð grein fyrir því í grg. frv., sem ég vísaði hér til, hvernig með skuli farið, og er það byggt á því, að vanskil frá fyrri árum og önnur gjöld á þessu ári en gjöld af tekjuskatti gangi fyrir í greiðslum, sem þeir nota þessa fjármuni til. Sama er að segja um vanskil frá fyrri árum. Vona ég, að það sé öllum ljóst, að þau á ekki að virða á þann hátt, að það sé verið að greiða mönnum fjármuni úr ríkissjóði, ef þeir skulda honum eða sveitarsjóðum, því að það er hægt að draga undan söluskatt eða tekjuskatt alveg eins með því að greiða ekki álagða skatta og að komast undan því, að þeir séu álagðir. Þess vegna kann ég ekki við rödd, sem heyrðist í hv. Nd. um það, að það væru einhver fráleit vinnubrögð að ætla sér að nota þetta til þess að greiða eldri skuld við opinbera aðila.

Ég vil svo vekja athygli á því, að í þessu frv. eru öll ákvæði, .er varða söluskatt, þau sem refsingar varða, þyngd mjög frá því, sem áður hefur verið, og gert ráð fyrir, ef um stærri brot er að ræða eða ítrekuð, að þá geti það verið um 10 millj. kr. sekt og varðað fangelsi allt að 6 árum, eins og um auðgunarbrot væri að ræða í almennri hegningarlöggjöf.

Einnig er gert ráð fyrir því í frv., að hægt sé að koma upp sölukössum eða stimplunarkössum, þar sem söluskattur er stimplaður sérstaklega inn, og starfsmenn fjmrn. eða fulltrúar þess geti lesið af þeim, hvenær sem þeir koma. Þetta hefur verið reynt í öðrum löndum og mér sagt, að gefist vel, og er án efa það, sem við verðum að taka upp, þegar söluskatturinn hækkar eða virðisaukaskatturinn kemur til. Ekki orkar það tvímælis, að eftir því sem söluskatturinn verður hærri, er freistingin til þess að draga undan meiri en ella.

Það kemur fram í töflum, sem frv. fylgja, að gera má ráð fyrir, að hagnaður einstaklinga yfirleitt af þessu sé frá 21/2 til 3 og jafnvel upp í 4% af skattahreytingunni í heild. Og ástæðan til þess, að svo getur verið, þó að tölurnar séu svipaðar, sem ríkissjóður ætlar sér að fá í óbeinum sköttum og hann lætur í þeim beinu, er m.a. sú, að aðrir aðilar greiða óbeina skatta. Fyrirtæki greiða af sínum rekstri og vegna fjárfestingar í eigin fyrirtækjum, og svo greiðir ríkissjóður aftur sjálfur af þeim umsvifum, sem hann hefur af söluskattsskyldri vöru. Þess vegna getur það komið heim, að einstaklingarnir í heild hafi hagnað af þessu, þó að tilfærslan sé með þessum hætti.

Þá vil ég í þessu sambandi minna á það, að við afgreiðslu á tollskrá, sem afgreidd var hér frá hv. Alþ. fyrir stuttu, var höfð hliðsjón af þessum samningum. Þetta var gert til þess að greiða fyrir samningum við iðnrekendur. Þá féllst ríkisstj. á það að lækka tollana meira en áður hafði verið ætlað, og það var gert með því að láta þá lækkun, sem átti að koma til framkvæmda 1976 vegna iðnaðarins, koma til framkvæmda nú. Enn fremur var í því sambandi fallíð frá að innheimta tekjur sérstaklega vegna þessara breytinga með tilliti til þessa máls.

Það hefur nokkuð verið til umr., hvort ástæða hafi verið fyrir ríkisstj. til að ætla, að mál þetta næði fram að ganga á hv. Alþingi. Ég hef látið það koma skýrt fram, að ég hafi talið, að full ástæða væri til þess. Í því sambandi hef ég vitnað til þeirra viðræðna, sem ég átti við ákveðinn stjórnmálaflokk um þetta mál, og vil einnig, með leyfi hæstv. forseta, benda á hluta af ræðu, sem form. Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, flutti 27. nóv. s.l. Hún er birt í þingtíðindunum, 8. hefti, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Augljóst er, að jafnstórfelld lækkun á tekjuskatti til ríkisins sem hér er gert ráð fyrir mun hafa í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð: Og í framhaldi af þessu segir hann, að tekjutap ríkissjóðs af þessu mundi verða 21/2–3 milljarðar, miðað við fjárlög þessa árs. „Þennan tekjumissi þarf að sjálfsögðu að bæta ríkissjóði, Till, um tekjuskattslækkun, sem ekki gerðu ráð fyrir því að bæta ríkissjóði tekjutapið, mætti með réttu nefna sýndartill. Slíkar till. gerir þingflokkur Alþfl. ekki. Þess vegna er í till. einnig um það fjallað, hvernig ætlast sé til, að ríkissjóði sé bættur tekjumissirinn. — Aðalatriðið í þessu sambandi er, að gerð verði till. um, að sú hækkun söluskatts, sem runnið hefur í Viðlagasjóð, skuli haldast, en hún nemur sem kunnugt er 2% og ætti að falla niður 1. mars n.k. að óbreyttum l. Ef söluskattinum, sem rennur nú í Viðlagasjóð, yrði haldið og söluskatturinn hækkaður um 2–3 stig umfram það, sem hann nú er, yrði ríkissjóði bættur sá tekjumissir, sem hann yrði fyrir vegna lækkunar tekjuskattsins.“

Hér er um að ræða sömu tölu og mat var hjá sérfræðingum ríkisstj. og Alþýðusambandi Íslands um það, hve mikið þyrfti til að mæta tekjutapi ríkissjóðs, til þess að ríkissjóður yrði skaðlaus af breytingunni á þessu ári.

Ég gat um það áðan, að umr. þær, sem fram hefðu farið, hefði ég ekki viljað blanda öðrum sviðum ríkissjóðs í fjármálum en sem beint leiddi af þessum breyt. Ég vil einnig geta þess, sem kom fram í hv. Nd. og ég get endurtekið hér, að ríkisstj. er reiðubúin til þess að láta þessa löggjöf um skattkerfisbreytinguna gilda til næstu áramóta, þannig að þá tækju aftur gildi þau skattalög, sem nú eru í gildi, og niður félli söluskatturinn, þannig að tekjurnar frá des. yrði síðasta innheimtau, en ekki nein álagning í jan. Þetta átti að dómi ríkisstj. að vera til þess, að hv. þm. gætu gengið sameiginlega að þessu máli, því að eins og ég hef þegar vikið að, virðast allir stefna að því, að það sé rétt að lækka beina skatta og hækka óbeina. Það verður ekki heldur hrakið með rökum, að ríkissjóður ætli sér að ná í meiri hagnað af þessum hreyt. á árinu 1974 en frv. gerði ráð fyrir, eins og það upphaflega var, áður en þær breyt., sem gerðar voru á. því í hv. Nd., voru gerðar. Þess vegna er ræða mín hér miðuð við frv. upphaflega, enda er það það samkomulag, sem var gert og n. úr öllum stjórnmálaflokkum stóð að á þinginu, og kann ég ekki skil á því, hvort ríkisstjórnarmenn eða flokkarnir hafi haft þar meiri hl. eða ekki. Hitt er mér kunnugt um, að það voru menn úr öllum stjórnmálaflokkum, sem tóku þátt í afgreiðslunni með jákvæðum hætti.

Ég verð að segja það að lokum, að ég treysti enn á það, að þetta frv. nái fram að ganga með þeim hætti, að ekki verði gerðar breyt. á upphaflega frv., eins og það var lagt fram í hv. Nd., á þeim atriðum, sem eru meginatriði þess, þ.e. tekjuskattinum annars vegar og söluskattinum hins vegar. Og ég tel mig hafa rökstutt það, að ég hafi enn þá fulla ástæðu til að ætla, að svo sé, jafnvel þótt á ýmsu hafi gengið. Fari svo, að þetta mál fái þá afgreiðslu hér á hv. Alþ., að það nái ekki fram að ganga, þá er ekkert annað að gera en að taka því. Og þá verður baráttunni fyrir framgangi þess haldið áfram á öðrum vettvangi, hjá þjóðinni sjálfri, til þess að efla það lið, sem fyrir þessum breyt. stendur, og þá að láta meðhöndla á réttan hátt þá aðila, sem komu í veg fyrir það, að þessi breyt. næði fram að ganga. Hjá því verður ekki komist, þótt síðar verði, því að málinu verður ekki lokið með þeirri afgreiðslu, ef hv. Alþ. fellir það að þessu sinni.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr., verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.-og viðskn.