15.03.1974
Efri deild: 79. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2567)

237. mál, vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Allshn. Ed. hefur rætt um þetta mál á fundi sínum og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Sú breyting, sem hér er um að ræða, er að fjölga hlutamiðum í vöruhappdrætti SÍBS úr 65 þús. í 75 þús. Það hefur komið í ljós á undan förnum árum, að vegna hinna mörgu umboða, sem happdrættið hefur úti um allt land, hefur það jafnvel viljað koma fyrir, að nokkur af umboðunum væru uppiskroppa með miða, og það hefur verið talið hafa áhrif á sölumöguleika happdrættisins. Hins vegar liggur það fyrir, að vegna hinna miklu verkefna, sem framundan eru hjá Sambandi ísl. berklasjúklinga, fyrst og fremst með frekari uppbyggingu vinnuheimilisins að Reykjalundi, enn fremur með starfsemi öryrkjavinnustofa hér í Reykjavík, er sambandinu þörf fyrir aukna fjármögnun og fyrir auknar tekjur. Þess vegna litum við svo á, að það sé sjálfsagt að verða við þeirri beiðni stjórnarinnar að fjölga hlutamiðunum úr 65 og upp í 75 þús.