20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2972 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

113. mál, skipulag ferðamála

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skipulag ferðamála hlaut þá afgreiðslu í samgn., að n. leggur til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja frekari brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ferðalög hafa aukist mjög ört á síðustu áratugum og eru enn í örum vexti. Orsakir þess eru af ýmsum toga, svo sem að batnandi lífskjör fólks ýta undir ferðalög og aukinn frítími almennings víða um heim hefur gert fólki fært að ferðast meira og lengra en áður þekktist. Öll þessi aukning byggist þó fyrst og fremst á þeirri byltingu, sem orðið hefur síðasta aldarfjórðunginn í flutningamálum, fyrst og fremst með tilkomu reglubundinna, tíðra og öruggra flugsamgangna um allan heim og einnig með bættum samgöngum á landi og sjó.

Tilgangurinn með flutningi þessa frv. er sá að stuðla að þróun ferðamála og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk hér á landi og að þetta geti orðið mikilvægur þáttur í íslensku félags- og atvinnulífi. Þetta á að ná bæði til ferðalaga landsmanna sjálfra og útlendinga, sem til landsins koma. Einnig skal þess gætt, að miklum straumi erlendra ferðamanna getur fylgt nokkur áhætta í sambandi við umgengni um landið og miður æskileg áhrif, einkum fyrir fámenna þjóð. Er því mikilvægt, að unnið sé skipulega að hæfilegri þróun og aukningu á ferðamannaþjónustu og ferðum manna um landið. Skipulagsbreytingar á þessu sviði samkv. frv. eru m.a. þessar:

Komið skal á fót Ferðamálastofnun Íslands, og fer hún með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn. Stofnunin verður til við sameiningu Ferðaskrifstofu ríkisins og starfsliðs ferðamálaráðs, þess sem nú starfar. Verkaskipting milli þessara tveggja aðila hefur ekki verið nægilega skýr, og á með þessum ákvæðum að reyna að bæta úr því og stuðla að aukinni hagkvæmni í störfum. Auk þeirra verkefna, sem þessum tveimur stofnunum eru nú falin með gildandi l. um ferðamál, er gert ráð fyrir ýmsum nýjum verkefnum, eins og 6. gr. frv. sýnir.

Ferðamálaþing á samkv. frv. að koma í stað ferðamálaráðstefna þeirra, sem haldnar hafa verið árlega, frá því að ferðamálaráð var stofnað árið 1964, en ákveðið verður með reglugerð, hverjir hafa þar rétt til setu. Ferðamálaþing skal samkv. frv. kjósa 7 manna ferðamálaráð, en það verður sá hluti hagsmunasamtakanna, sem hefur beint samband við stjórnkerfi ríkisins. Ferðamálaráð á síðan að kjósa 2 af 5 mönnum í stjórn Ferðamálastofnunar íslands og 2 af 3 í ferðamálasjóðsnefnd, en hún á að fjalla um málefni ferðamálasjóðs og m.a. gera rökstuddar till. um lán eða framlög úr sjóðnum. Samkvæmt frv. verða ferðamálaþing og ferðamálaráð tengiliður milli þeirra fjölmörgu aðila, stofnana og samtaka, sem ferðamálaþjónustan varðar á einhvern hátt, og þess hluta af stjórnkerfi ríkisins, sem þessi starfsemi lýtur.

IV. kafli frv. fjallar um almennar ferðaskrifstofur. Á þeim kafla eru gerðar litlar breytingar frá því, sem er í gildandi lögum. Þess skal þó getíð, að trygging sú, sem ferðaskrifstofu ber að setja, er samkvæmt frv. hækkuð úr 1.5 millj. í 3 millj. kr., þannig að leyfi til rekstrar ferðaskrifstofu má því aðeins veita, að umsækjandi setji bankatryggingu, sem eigi sé lægri en 3 millj. kr. Rekstur ferðaskrifstofa er að því leyti frábrugðinn flestri annarri atvinnustarfsemi, að viðskiptamaðurinn greiðir þar oft fyrir fram þá þjónustu, sem ferðaskrifstofan veitir. Af því leiðir, að viðskiptavinurinn á það undir heiðarleika ferðaskrifstofunnar fyrst og fremst, hvort hann fær þá þjónustu fyrir greiðslu sina, sem til var ætlast og um var samið. Þegar við þetta bætist, að ferðaskrifstofur fá í langflestum eða öllum tilfellum gjaldfrest hjá skipafélögum, flugfélögum, hótelum og greiðasölustöðum, þá liggur í augum uppi, að starfsemi ferðaskrifstofu krefst ekki mjög mikils rekstrarfjár. En nokkur freisting er þá fyrir hendi fyrir einstaklinga til þess að hefja rekstur ferðaskrifstofu í skjóli þess án þess að ráða yfir nægilegu fjármagni til þess að mæta óvæntum áföllum. Með tilliti til þessa er gert ráð fyrir að hækka það gjald, sem ferðaskrifstofu ber að setja sem tryggingu gagnvart rekstrinum. Og reynsla undanfarinna ára sýnir, að það er full ástæða til að gefa þessu atriði gaum.

Skv. frv. á að efla ferðamálasjóð verulega frá því, sem nú er, með því, að árlegt framlag úr ríkissjóði verði eigi lægra en 10 millj. kr. Einnig á að renna til sjóðsins hluti tekna af aðgöngumiðagjaldi að vínveitingahúsum skv. lögum. Enn fremur skal ferðamálasjóði heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka allt að 200 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, ef árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins nægir ekki til þess, að hann geti á viðunandi hátt gegnt hlutverki sínu.

Skv. ákvæðunum í frv. um ferðamálasjóð er gert ráð fyrir nokkru víðtækara starfssviði sjóðsins heldur en er skv. gildandi lögum. Skv. þeim má sjóðurinn eingöngu lána til framkvæmda við gisti- og veitingastaði, og er hann því í reynd ekki almennur ferðamálasjóður, heldur fyrst og fremst hótelsjóður.

Samgn. hefur orðið ásátt um að bera fram nokkrar brtt. við frv., og eru þær prentaðar á þingskj. 451. Þessar brtt. fela ekki í sér stórfelld efnisatriði, heldur er í mörgum þeirra fremur um orðalagsbreytingar að ræða, eftir því sem n. að athuguðu máli þótti mega betur fara.

1. brtt. er um það, að í greininni, þar sem rætt er um tilgang laganna, sé það tekið fram, að ferðamál eigi að vera mikilvægur þáttur í íslensku félags- og atvinnulífi. Þarna er orðinu félags eða félagslífi bætt inn í.

2. brtt. fjallar um það, að einn af 5 stjórnarmönnum Ferðamálastofnunar Íslands skuli skipaður eftir tilnefningu náttúruverndarráðs. En af því leiðir, að ráðh. skipar einn fastan starfsmann í samgrn. í stjórnina og enn fremur einn mann án tilnefningar. En í frv. er gert ráð fyrir, að ráðh. skipi svo tvo menn óbundið eða án tilnefningar. Þessi till. er flutt eftir ósk náttúruverndarráðs, en þangað fór frv. til umsagnar eins og í nokkra fleiri staði.

3. brtt. er við 6. gr. Þar er gert ráð fyrir, að felld séu niður í I. kafla 3. tölulið þessi orð: „Þ. á m. aðild að rekstri kynningarskrifstofa erlendis.“ N. sýnist vera ástæðulaust, að það sé lögbundið, að Ferðamálastofnun Íslands skuli eiga aðild að rekstri kynningarskrifstofa erlendis. Þó að þetta verði ekki lögbundið, þá verður það að sjálfsögðu frjálst val þeirra, sem að stofnuninni starfa eða stjórna henni, á hvern hátt þeir vinna að landkynningarstarfsemi.

Aðrir liðir í brtt. við 6. gr. eru orðalagsbreytingar, sem ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um. 4. brtt. er um að binda það ekki svo fast, sem frv. gerir ráð fyrir, í hvaða mánuði ársins ferðamálaþing skuli haldið. Í frv. er ákveðið, að það skuli vera í septembermánuði, en að athuguðu máli þykir eðlilegra, að það sé meiri sveigjanleiki í þessu efni, en þingið verði þó eigi haldið síðar en í septembermánuði.

Í 5. brtt. felst það, að gert er ráð fyrir, að ferðamálaráð kjósi sjálft formann og varaformann úr hópi aðalmanna í ráðinu, en þeir séu ekki kosnir sérstaklega á ferðamálaþingi.

6. brtt. er um, að bað sé ekki gert að ófrávíkjanlegu skilyrði til þess að geta öðlast rétt til þess að reka ferðaskrifstofu, að aðili hafi náð 25 ára aldri. Það er í samræmi við lækkun aldursmarks í ýmsum öðrum greinum, enda hlýtur það að nokkru leyti að bindast af þeim skilyrðum, sem sett eru um undirbúning og starf, áður en menn geta öðlast slík réttindi, að mjög ungur maður getur ekki fullnægt þeim skilyrðum — fengið þann rétt, sem 14. gr. frv. á að veita.

7. brtt. fjallar um það að gera nokkru víðtækari þá heimild eða þau fyrirmæli, sem í greininni felast, til Ferðamálastofnunar Íslands og hníga að því að bæta hreinlætis- og snyrtiaðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Í 9. brtt. felst sú orðalagsbreyting, að í stað þess, að í frv. var gert ráð fyrir heimild til þess, að greiddur skuli aðgangseyrir að fjölsóttum ferðamannastöðum, sem eru eign ríkisins, þá sé þetta orðað á þann veg, að það geti komið sanngjarnt gjald fyrir þjónustu, sem veitt er á stöðum í umsjá ríkisins. Þetta felst í 9. brtt.

Í 8. brtt. er fjallað um n. manna, sem á að hafa til athugunar málefni ferðamálasjóðs. Í frv. segir, að ráðh. skipi 3 menn til 4 ára í senn til að fjalla um málefni ferðamálasjóðs. Skuli þeir gera rökstuddar tillögur um lán eða framlög úr sjóðnum. Ferðamálaráð tilnefnir 2 fulltrúanna. En í brtt. samgn. er lagt til, að formaður stjórnar Ferðamálastofnunar Íslands eigi sæti í n., ferðamálaþing tilnefni einn nm. og hinn þriðja skipi ráðh. án tilnefningar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að svo stöddu að fara fleiri orðum um málið. En í samræmi við það, sem ég lýsti um afgreiðslu málsins í n., þá er lagt til, að frv. verði samþykkt.