26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

271. mál, vísitölutrygging bótafjár íbúðarhúsa vegna jarðeldanna á Heimaey

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar á þskj. 536 vil ég taka þetta fram:

Á s.l. hausti fóru nokkrar umr, fram milli mín annars vegar og Seðlabanka Íslands hins vegar um það, að verðtryggðar yrðu þær bætur, sem Vestmanneyingar fengju vegna húsa sinna, til þess að tryggja það, að þetta fé færi ekki út á markaðinn þá þegar, og enn fremur til þess að tryggja það, að byggt yrði upp í Vestmannaeyjum. Út af því átti ég umr. m.a. við stjórnarandstöðuna. En í annríki síðustu daga þingsins fyrir jól var ekki unnt að koma þessu máli áfram, enda hafði ekki unnist tími til að gera sér fullkomlega grein fyrir því.

Í jan. s.l. skrifaði fjmrn. Viðlagasjóði, þar sem spurst var fyrir um það, hvort Viðlagasjóður vildi taka að sér kostnaðinn af þeirri tryggingu, sem um var að ræða, ef verðbætur yrðu ákveðnar. Svar við þessari spurningu hefur ekki borist frá Viðlagasjóði með formlegum hætti. Hins vegar hefur mér borist munnlegt svar, og ég gat ekki skilið það á annan veg en þann, að það væri ekki ábugi á því, að þetta mál kæmi fram, enda talið, að þá væri farið að greiða út, svo að spurning væri um það, hvort þetta hefði mikil áhrif. Þetta gerði það að verkum, að ég hvorki innan ríkisstj. né á öðrum vettvangi fylgdi þessu máli eftir og taldi, að það væri úr sögunni. Frv. það, sem tilbúið var um þetta efni, var lagt til hliðar vegna þess, að ég taldi, að áhugi sá, sem fyrir þessu hefði verið, væri ekki til staðar.

Hins vegar hefur nú fyrir nokkru bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum komið til mín og óskað eftir því, að þetta frv. yrði flutt. Þar sem hann taldi, að verulegar hættur væru á því, að ef ekki væri einhver slík trygging sett fyrir þessum fjármunum, þá mundu þeir verða notaðir á markaðinum hér, en ekki til uppbyggingar í Vestmannaeyjum. Umr, um þetta efni fóru fram í s.l. viku. Inn í það blandaðist að sjálfsögðu það, hver bæri kostnaðinn af þessari verðtryggingu og hvað þar gæti orðið um mikla fjárhæð að ræða, og varð niðurstaðan af þeim umr., að vaxtamismunur, sem kæmi í sambandi við þetta, mundi þá falla ríkissjóði í hlut til þess að bera að einhverju leyti þann kostnað, sem yrði af verðtryggingunni, sem mundi að sjálfsögðu dreifast á einhvern tíma.

Í sambandi við það mál hafði ég orð á því varðandi mál það, sem við höfum þæft hér á hv. Alþ. í sambandi við hafnargerðir, að ef að þessu yrði horfið, þá vonaðist ég til, að það yrði úr sögunni, svo að menn væru ekki að þreyta sig á því lengur, og tók bæjarstjórinn vel undir það.

Niðurstaðan er svo sú, að ríkisstj, hefur samþykkt að heimila mér að leggja fyrir Alþ. frv. um það, að ríkissjóður gefi út skuldabréf að fjárhæð allt að 600 millj. kr., sem yrðu verðtryggð og eingöngu bundin við þær bætur, sem Vestmanneyingar fengju vegna húsa sinna þar, sem urðu eldinum og hrauninu að bráð. Endurgreiðsla á þessu fé verðtryggðu kæmi aðeins til greina hjá þeim, sem byggðu aftur í Vestmannaeyjum, en ekki öðrum. Ef þeir notuðu þessa fjármuni til þess að kaupa hér uppi á landi eða byggja hér, þá yrði ekki um verðtryggingu að ræða, því að tilgangurinn með þessu væri sá einn að tryggja það, að byggt yrði upp í Vestmannaeyjum aftur. Til þess að það mætti verða, yrði að skila vottorði um fokhelt, byrjuðu þá bæturnar að greiðast út, og yrði svo ákveðið, á hvað löngum tíma það yrði gert.

Þetta mál er því þannig á vegi statt, að ég geri ráð fyrir því að leggja fram hér á hv. Alþ. á morgun frv. um þetta efni, og þar sem ég hafði áður rætt málið við stjórnarandstöðuna, þegar ég var með hugleiðingar um að flytja það í vetur, þá treysti ég því, að það fái fljótan byr hér í gegnum Alþ., þar sem útborganir á næstu bótum eru bundnar við næstu mánaðamót.

Ég tel, að með þessu hafi ég svarað bæði fsp. um, á hvaða vegi málið sé statt, og einnig gert grein fyrir því, af hvaða ástæðu málið lagðist til hliðar upp úr áramótunum. En er það hefði þá ekki tafist eða komið upp önnur sjónarmíð, sem ég skildi á þann veg, að ekki væri áhugi á því, þá hefði ég að sjálfsögðu fengið samþykki ríkisstj. til þess að mega leggja málið fyrir hér á hv. Alþ., eins og ég hafði hugsað mér.