05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

Umræður utan dagskrár

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Mér finnst, að þær umr., sem hér hafa farið fram, undirstriki þá staðreynd mjög rækilega, hvílíkt ófremdarástand er ríkjandi í landi voru að því er snertir læknamálin almennt. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur fengið því framgengt, að læknum er boðið upp á hlunnindi og kjör, sem eru úr öllum tengslum við það, sem þekkist hjá öðrum stéttum launamanna hér á okkar landi. Og við það bætist nú það, að núv. hæstv. ríkisstj. virðist láta viðgangast, að fjöldi nemenda í læknadeild Háskólans er takmarkaður. Yfirlýsing hæstv. ráðh, er góðra gjalda verð, og vonandi tekur hann sig nú til og kippir þessu í lag og afnemur þá fásinnu, sem takmörkun fjölda nemenda í læknadeild Háskóla Íslands er.

Ég hjó eftir því, að hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, taldi eðlilegt í alla staði, að læknadeildin tæki þá ákvörðun að takmarka fjölda nemenda til þess að tryggja eðlilega gæðakennslu og tilsögn í deildinni, eins og hann orðaði það. Það má vel vera, að út frá slíku sjónarmiði kunni að vera hægt að færa fyrir því rök, að takmörkun í læknadeild sé eðlileg. En það ríkir hreint ófremdarástand í þessum málum í dag. Það er ekki aðeins, að skortur sé á læknum í dreifbýli nú til dags, heldur einnig hér í þéttbýli á suðvesturhorni landsins, það þekki ég úr mínu byggðarlagi, svo að það er satt að segja furðulegt, að á sama tíma og ráðamenn þessa lands hafa á undanförnum árum sagst vera að gera ráðstafanir til þess að tryggja bætta læknaþjónustu úti um landsbyggðina, þá skuli annað eins og þetta eiga sér stað, að fjöldi nemenda í læknadeild Háskóla Íslands er takmarkaður.