02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að það er mjög auðvelt að kanna, hvort núv. ríkisstj. hefur meiri hl. á Alþingi eða ekki. Það hefur ekki tíðkast á Alþingi Íslendinga, að ríkisstj. færi fram á traustsyfirlýsingu. Það hefur, að ég best veit, aðeins gerst einu sinni og margir áratugir síðan. Hitt er reglan, að til þess að sanna það, að ríkisstj. sé komin í minni hl., þarf stjórnarandstaðan að leggja fram vantraustsyfirlýsingu og fá hana samþykkta. Og þessa leið hefur stjórnarandstaðan. Hún getur hvaða dag sem er lagt fram till. um vantraust á ríkisstj., og það ætti hún að gera, ef hún þyrði, en ekki að vera með sífelldar dylgjur um það, að ríkisstj. sé komin í minni hl.

Hv. þm. sagði, að ég hefði gert að fráfararatriði ákveðið mál. Það, sem ég sagði, var, að ef ekki næðist viðunandi samkomulag við Bandaríkjamenn, mundi ég telja mér skylt að leggja fram á hæstv. Alþingi till. til uppsagnar á varnarsamningnum. Ég sagði enn fremur, að ef sú tillaga næði ekki samþykki á Alþingi, mundi ég telja mér skylt að segja af mér. Ég vona, ef útvarpið hefur farið tvisvar með þessi ummæli, þá hafi það farið rétt með þau, en ekki eins og hv. síðasti ræðumaður gerði.

Það liggur ekkert fyrir um það, hvort það reyni nokkurn tíma á það, að þetta mál verði fráfararatriði. Ég er vongóður um, að það takist að leysa þessi mál með góðu samkomulagi við Bandaríkjamenn. Það er fjarri því, að ég hafi gefið upp von um, að það megi leysa þessi mál með samkomulagi. Ég vildi satt að segja vona, að hér á Alþingi Íslendinga væri ekki einn einasti þm., sem hefði gefið upp von um, að það mætti leysa þessi mál með samkomulagi við Bandaríkjamenn. Við höfum enga ástæðu út af fyrir sig til að ætla annað. Það hefur verið margundirstrikað af Bandaríkjamönnum sjálfum, að það yrði tekið fyllsta tillit til óska Íslendinga í þessu efni, og meira en það, verið undirstrikað nú alveg nýlega af valdamanni úr því landi, að það væri algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, eins og líka er margsamlega tekið fram í samningum um þetta efni.

Ég mun þess vegna ekki víkja fyrir neinu orðagjálfri um það, að ríkisstj, sé komin í minni hl. hér á Alþingi. Ég bara bíð ósköp rólegur, þangað til hv. stjórnarandstæðingar leggja fram till. um vantraust á ríkisstj, og fá hana samþykkta hér.