02.04.1974
Sameinað þing: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3340 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

422. mál, dreifing sjónvarps

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 1. þm. Norðurl. e. var vísað til Ríkisútvarpsins. Um liði fsp. er fjallað í svo hljóðandi bréfi frá útvarpsstjóra:

„1. Verið er að koma upp míkróbylgjusendum fyrir sjónvarp í samvinnu við Landssíma Íslands, sem einnig stendur að framkvæmdum, á svæðinu frá Akureyri vestur undir Blönduós. Þessi framkvæmd á að tryggja og bæta móttöku á Vaðlaheiði og Gagnheiði og öllum þeim dreifistöðvum, sem þeim eru tengdar.

2. Ríkisútvarpið hefur sótt um 35 millj. kr. lánsheimild til fyrrgreindra framkvæmda.

3. Ríkisútvarpið hefur ekki gengið frá neinni fullnaðaráætlun, þar eð framkvæmdafé er ekki fyrir hendi.

Þess skal að lokum getið,“ segir útvarpsstjóri í bréfi sínu, „að ein síðasta framkvæmd í dreifingu sjónvarps var hús og sendistöð á Húsavíkurfjalli. Þessi stöð hefur staðið fullbúin af hálfu Ríkisútvarpsins frá því í fyrrahaust, en rafmagn hefur ekki enn fengist til stöðvarinnar.“