02.04.1974
Sameinað þing: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3342 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

285. mál, skipan gjaldeyris- og innflutningsmála

Flm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Ég vil nú láta í ljós þakklæti mitt til forseta fyrir þá tilhlutunarsemi, sem hann sýnir mér með því í þessu mikla annríki, sem nú ríkir í þingstörfunum, að taka þessa till. mína svo fljótt á dagskrá, að mér gefist tækifæri til þess að fylgja henni úr hlaði.

1. gr. reglugerðar þeirrar, sem þáltill. sú, sem hér er til umr., skírskotar til, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Innflutningur á vörum til landsins skal vera frjáls, nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum eða í reglugerð. Sama máli gegnir um gjaldeyrisgreiðslur til útlanda.“

Þetta er ágætt, svo langt sem það nær. Gallinn er bara sá, að með ýmsum ákvæðum, sem um er rætt sérstaklega í II. kafla fyrrgreindrar reglu gerðar, eru margvísleg fyrirmæli um eyðublaða notkun og skriffinnsku alls konar í sambandi við almennar umsóknir og þá sérstaklega afgreiðslur, er snerta yfirfærslur eða greiðslur í erlendum gjaldeyri, svo að í framkvæmdinni verða öll þessi mál seinvirkari, fyrirhafnarmeiri og erfiðari viðfangs en þyrfti að vera.

Eins og getið er í grg. af hálfu flm. þessarar till., hafa á þeim nær hálfum öðrum áratug, sem liðinn er frá því, að umrædd reglugerð tók gildi, orðið svo örar breytingar í heiminum á sviði viðskipta og þá sérstaklega fjármagnsflutnings almennt, að nú er svo komið að dómi flm. þessarar þáltill., að mörg ákvæði reglugerðarinnar eru orðin gersamlega úrelt og standa beinlínis í vegi fyrir eðlilegum hagvexti þjóðarinnar í heild.

Að dómi flm. þessarar þáltill. er helstu agnúa á reglugerðinni að finna í ákvæðum í II. kafla reglugerðarinnar, 7.–10. gr., og hefði verið freistandi að lesa þessar greinar upp með leyfi hæstv. forseta, en tími leyfir það nú ekki. En það er skoðun flm., að þegar um innflutning og yfirfærslu fyrir frílistavörur er að ræða, — mætti vera um verulega upphæð að ræða, — þá gilti sú regla, að það þyrfti bókstaflega engar umsóknir eða eyðublaðanotkun, hlutaðeigandi gjaldeyrisbönkum væri fullkomlega frjálst að afgreiða slík mál viðstöðulaust og gætu sjálfir séð um að halda nauðsynlega skrá eða skýrslur um notkun og yfirfærslu gjaldeyris í viðkomandi tilfellum.

Þá er að dómi flm. fráleitt ákvæði 10. gr. fyrrgreindar reglugerðar, að eigi sé heimilt að tollafgreiða vörur, nema innflutningsreikningar séu áritaðir eða stimplaðir af gjaldeyrisbanka um, að vörurnar séu greiddar eða greiðsla tryggð í erlendum gjaldeyri. Þar sem frjáls viðskipti eru ríkjandi, eiga slík málefni að vera algjört samningsatriði milli seljanda og kaupanda vörunnar um tilhögun á greiðslu. Það getur oft staðið þannig á, að samningar séu á lausu um þetta atriði milli seljanda og kaupanda, og ekkert við það að athuga, þar sem frjálsræði er ríkjandi um viðskipti manna á meðal. Slíkt fyrirkomulag á að sjálfsögðu ekki að hindra eða tefja á nokkurn hátt, að lögboðin aðflutningsgjöld, tollar og þess háttar greiðslur séu skilvíslega innt af hendi.

Í 8. og 9. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um heimild innflytjanda til að flytja inn vörur með gjaldfresti. Þessi ákvæði eru að dómi flm, allt of þröng. Ég þykist vita, að það vaki fyrir hlutaðeigandi gjaldeyrisyfirvöldum að vilja hafa hönd í bagga með, að ekki sé stofnað til óþarflegra lausaskuldbindinga í erlendum gjaldeyri vegna innflutnings varnings eða annarra hluta. Þetta er algjörlega úrelt fyrirkomulag. Í lýðfrjálsu landi á það að vera fullkomlega á valdi einstaklinganna sjálfra að gera hverjar þær skuldbindingar sem þeir kjósa. Þeir eiga sjálfir að vera ábyrgir gerða sinna í þeim efnum og bera afleiðingar af þeim, en ekki þurfa að lúta boði eða banni einhverra opinberra stjórnvalda og skriffinnskubákna hvað snertir slík viðskipti, enda hefur reynslan sýnt það, að ákvæðið, sem hér er vikið að, hefur skaðað þjóðina um stórkostlegar fjárhæðir. Þegar t.d. um miklar fyrirsjáanlegar verðsveiflur er að ræða á helstu — neysluvörum, hráefnum og t.d. nauðsynlegustu verksmiðjuvörum atvinnuveganna, er afar áríðandi, að ákvæði sem þessi hindri ekki, að hægt sé án tafar að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að gera sem hagkvæmust innkaup. Ég vil nefna sem dæmi, að á árinu 1972 var gert mikið veður út af því, að lausaskuldir verslunarinnar við útlönd væru komnar í 2 milljarða kr., en það var ekkert í því sambandi minnst á það, hvernig væri háttað með vörubirgðir í landinu á móti þessum skuldbindingum. Á þeim tímum, þegar öllum, sem augun höfðu opin, var ljóst, að stórkostleg verðhækkunaralda var að skella á í heiminum á öllum vöruflokkum, var þessum vanda mætt hér með því að herða á ákvæðunum um að kaupa vörur gegn gjaldfresti, stytta leyfilegan lánstíma. Hvað halda menn, að slíkar ráðstafanir sem þessar hafi kostað þjóðina í auknu innkaupsverði varanna, og hvað halda menn, að ekki hvað síst þessi ráðstöfun eigi mikinn þátt í hinum mikla og sívaxandi verðbólguvanda, sem við erum alltaf að stríða við? Í stað þess að örva og hvetja hina ýmsu aðila og beinlínis létta undir með þeim að gera sem hagkvæmust innkaup og þar með að tryggja, að í landinu væri sem allra mest af birgðum af nauðsynlegustu neysluvörum, hráefnum og rekstrarvörum á sem hagstæðustu innkaupsverði, er allt sett í gang til þess að torvelda og hefta allar skynsamlegar athafnir í þessum málum, og afleiðingin verður einfaldlega sú, að þjóðin í heild þarf að nota miklu meira af ársframleiðslu sinni til þess að greiða fyrir þessa hluti heldur en þurft hefði, ef meiri fyrirhyggja og frjálsræði hefðu ríkt í þessum málum. Ég tel, að það, sem hér hefur verið sagt, sé hvað mest sláandi dæmi um það, hvílíkri blindni og skorti á yfirsýn og fyrirhyggju þeir hafa verið haldnir, sem ráðið hafa gangi þessara mála. Þá má benda á þá staðreynd, að sú takmarkaða heimild, sem veitt er til erlendra vörukaupa, miðast almennt við víxla, sem eru dýrustu vörukaupalán, sem um ræðir. Því má ekki heimila góðum og traustum fyrirtækjum og einstaklingum, sem þess eru megnugir, að fá lán í erlendum bönkum eða hjá öðrum aðilum til þess að gefa gert sem hagkvæmust innkaup, t.d. með því að gera stórinnkaup gegn staðgreiðslu í erlendum gjaldeyri og ná þannig oft afslætti eða fyllsta magnsafslætti? Slík tilhögun og viðskipti þjóða á milli er yfirleitt heimiluð í samskiptum ríkja á Vesturlöndum og í hinum frjálsa heimi. Við erum eina landið af svokölluðum lýðræðisríkjum utan Sovét-Rússlands og annarra sósíalistaríkja, sem virðumst þurfa að hafa eitthvert járntjald eða múr í sambandi við slík viðskipti. Það er vert að athuga, að það eru mörk fyrirtæki og einstaklingar, sem eru í þeirri aðstöðu, sem betur fer, að njóta trausts á erlendum lánamarkaði og hafa möguleika til fjárútvegunar, sem þeir kannske hins vegar hafa ekki hér heima. Þess konar viðskipti eru eingöngu rekin á ábyrgð hlutaðeigandi aðila, og gildir um slík viðskipti allt annað en t.d. opinberar lántökur, sem raunar eru þær einu, sem aðgæslu þarf við því að slíkar lántökur verða í langflestum tilfellum ekki endurgreiddar nema með margs konar skattaálögum á þegna þjóðfélagsins.

Í till. þeirri, sem hér er til umræðu, er minnst á sem áfanga svipað fyrirkomulag og er í gildi á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku. Það er nú ekki farið fram á meira til að byrja með. Í Danmörku er frílistavöruinnflutningur algjörlega frjáls og ekki háður neinum umsóknum eða eyðublaðavafstri. Ferðamannagjaldeyririnn er svo að segja frjáls og laus við allar umsóknir og eyðublöð. Lántökur einstaklinga og fyrirtækja allt að mjög hárri upphæð á íslenskan mælikvarða, sem skiptir millj. kr., er algjörlega frjáls og mjög greitt um lántökur, t.d. til fjárfestingar og annarra framkvæmda.

Þá vil ég minnast á eina tegund viðskipta, sem mjög er tíðkuð hjá nágrannaþjóðum okkar, og það er svokölluð „termin“, sem lauslega mætti þýða tímasetningarviðskipti. Öllum er kunnugt, að það hefur alltaf verið viss beygur í aðilum hér að takast á hendur skuldbindingar um greiðslu í erlendum gjaldeyri. Með „termin“viðskiptum er hægt að tryggja sig algjörlega gegn tapi eða öðrum skakkaföllum vegna hugsanlegra gengisbreytinga. Þetta gerist á þann hátt, að hlutaðeigandi, sem hefur t.d. tekist á hendur skuldbindingu um greiðslu í erlendum gjaldeyri, getur með slíkum kjörum tryggt sér gegn vægu gjaldi kaup á honum, nauðsynlegum erlendum gjaldeyri, á tilsettum tíma á því gengi, sem skrásett er, þegar hann tekst skuldbindinguna á hendur. Hvílíkt öryggi og þægindi eru slíku samfara, vænti ég, að leynist engum, sem þekkir til þessara mála. En hins vegar sýnir það kannske ljósast, hve gersamlega við erum á eftir tímanum í nútíma viðskiptum, að þessi háttur í sambandi við innlausn erlendra skuldbindinga er gjörsamlega óþekkt fyrirbrigði hér á landi. Þess má einnig geta hér, að slík tilhögun er einnig framkvæmd erlendis í sambandi við sölu erlends gjaldeyris af framleiðanda útflutningsvöru og gæti oft komið sér vel, jafnmiklar sveiflur og hér eru á gengi.

Þá er atriði, sem ég vildi minnast á og tel mjög þýðingarmikið í sambandi við öll þessi mál, og það er heimild bankastofnana og innlánastofnana hér á landi til þess að taka við erlendu fé til geymslu með þeim hætti, að slíkir reikningar séu algjörlega frjálsir, á erlendu máli „convertible“, að því er snertir aðila, sem búsettir eru erlendis. Þessi tilhögun viðgengst í öllum þróuðum löndum og viða um heim, og það er náttúrlega langæskilegast, að allir innlánsreikningar og allt fjármagn yfirleitt sé gersamlega frjálst til hvaða ferðar eða notkunar sem er. Það er staðreynd, að okkur Íslendinga hefur ávallt og þá ekki síst á hinum síðustu tímum hrjáð mjög bagalega vöntun á fjármagni. Við höfum ekki verið þess megnugir, — og kannske ekki hægt með sanngirni að ætlast til þess, að jafnfámenn þjóð og við erum geti komið því við, — að skapa jöfnum höndum það fjármagn, sem við þurfum bæði til neyslu, almenns rekstrar og til þeirra mörgu og mikilvægu fjárfestingarframkvæmda, sem ávallt eru og verða á döfinni hjá okkur. Það hefur alltaf verið svo, að við höfum í sívaxandi mæli þurft að leita fyrir okkur að erlendum lánamörkuðum í sambandi við nauðsynlega fyrirgreiðslu í þessu efni, enda tala verkin í þeim málum, þar sem skuldir okkar erlendis nema nú milljarðatugum, og þá er öllum ljóst, hver stórkostleg upphæð það er, sem á hverjum tíma fer af andvirði þjóðarframleiðslunnar í að greiða afborgun og vexti af slíkum skuldum. Og hvað halda menn, að íslenska þjóðin sé á undanförnum árum búin að greiða mörg hundruð millj. kr. í beina þóknun til erlendra fjármagnsmiðlara í sambandi við lánsfjárútlátanir fram yfir eðlilegar vaxtagreiðslur á hverjum tíma? Með þessa staðreynd í huga, er það þá ekki þess virði, að gerð sé a.m.k. smátilraun með að koma á svipaðri tilhögun á þessum málum hjá okkur og gerist hjá þeim þjóðum, sem næst okkur standa og við höfum nánust samskipti við eins og t.d. Norðurlandaþjóðirnar?

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir hv. Alþingi, er gert ráð fyrir því, að við væntanlega breyt. á reglugerð um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála verði þó ekki gengið lengra til að byrja með en að þessum málum verði hagað hér með svipuðum hætti og hjá t.d. Dönum. Þar hafa bankastofnanir og aðrar innlánsstofnanir fullt umboð og leyfi til þess að taka við fé til geymslu fyrir erlenda aðila og eru ósparar á að auglýsa þá þjónustu í hinum ýmsu heimsfjölmiðlum. Og hjá þjóð, sem stöðugt vantar fjármagn, hvað getur eiginlega verið því til fyrirstöðu að heimila slíka starfsemi? Að dómi flm. þessarar till. er fyrirsjáanlegt, að með slíkri ráðstöfun mundum við á ódýrastan og hagkvæmastan hátt geta bætt úr fjármagnsskorti okkar, og ef vel tækist til, sem ég hef óbifandi trú á, yrði þróunin sú, að okkur yrði falið að geyma miklu meira fé en við þurfum á að halda vegna okkar framkvæmda. En það er enginn vandi að miðla því fjármagni á annan hátt, og af slíkri starfsemi gætu orðið riflegar tekjur í þjóðarbúið og miklu meiri, held ég, en menn gera sér í hugarlund nú.

Smáþjóð eins og Bahamaeyjar gaf þessa starfsemi algjörlega frjálsa fyrir nokkrum árum og fékk á tæpum þremur árum innlánsfé til geymslu, sem nálgaðist 3 milljarða dollara. Er virkilega ekki þess virði, að tilraun, sem felst í að skapa möguleika fyrir slíka fjármagnsmiðlun hér, sé gerð? Ef við lítum á ástandið hér, þá er eins og við þjáumst af einhverri ólæknandi minnimáttarkennd í sambandi við meðferð fjármagns. Hér er ekki einu sinni hægt að skila erlendum gjaldeyri nema sækja um það á sérstöku eyðublaði og útfylla einhver ósköp af dálkum, upplýsingum og skýringum. Slík tilhögun er ekki beinlínis hvetjandi til skjótra og stórra aðgerða eða almennrar fjármagnssköpunar. Merkur erlendur fjármálamaður, sem er sérfræðingur í alþjóðlegum fjármagnsviðskiptum, sagði mér einu sinni, er við ræddum þessi mál saman, að hann vildi kenna mér eina stutta, einfalda, en gullvæga reglu í sambandi við fjármagn, og voru orð hans eitthvað á þessa leið: Það er eðli fjármagns, að þar sem vegferð þess er fullkomlega frjáls, þar sem það má koma, dvelja og fara, eftir því sem hentar því hverju sinni, þar stöðvast fjármagnið. Við minnstu hindrun eða torfæru styggist það og flögrar á braut. — Ég held, að það sé mikið til í því, sem þessi mæti maður hélt fram.a.m.k. finnst mér, að þessi regla sannist á okkur.

Við Íslendingar höfum lengst af búið við mismunandi strangar reglur og höft um tilkomu og meðferð fjármagns og þá alveg sérstaklega að því er lýtur að erlendum viðskiptum. Íslenskur gjaldmiðill hefur þess vegna aldrei notið trausts. Alltaf hefur verið fyrir hendi tilhneiging hjá landsfólkinu og öðrum til þess að vantreysta hinum opinbera gjaldmiðli þjóðarinnar. Þetta er ekki sagt út í bláinn. Þetta er staðreynd, sem meira að segja er viðurkennd af þeim, sem fara með æðstu stjórn peningamála í þessu landi. Verðtryggðu skuldabréfin eða vísitöluskuldabréfin, sem aðeins opinberum stjórnvöldum er heimilt að gefa út og selja, hvað eru þau annað en viðurkenning á því, að seðlarnir, sem seðlabanki landsins er látinn gefa út og prenta og eru ávísanir til landsmanna á svo og svo margar krónur, séu ofskráðir, þ.e. þeir standi ekki fyrir sínu verðgildi? Hvað segja auglýsingarnar, sem klingja í eyrum manna daglega úr öllum fjölmiðlum? „Hygginn maður“ o.s.frv. „ávaxtar fé sitt í verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs“ — og aðrar auglýsingar í þeim dúr.

Ég legg áherslu á þá staðreynd, að mér vitanlega þekkjast þessar vísitölubundnu fjárskuldbindingar hvergi í vestrænum löndum utan Íslands. Við erum algjört viðundur á þessu sviði, og það er verið að skapa hér stórhættulegan vítahring, sem okkur er lífsnauðsyn að rjúfa hið allra fyrsta, ef allt fjármálakerfi þjóðarinnar á ekki hreint og beint að hrynja til grunna.

Nú háttar svo til hjá okkur, að við höfum háþróað bankakerfi, höfum prýðilega menntuðum og hæfum starfskröftum á að skipa til þess að reka hverja þá banka- og fjármálastarfsemi, sem frjálst nútíma fjárhagskerfi þarfnast. Við eigum atorkusama og dugmikla stétt kaupsýslumanna meðal félaga og einstaklinga. Það er því ekkert annað en einhver rótgróin minnimáttarkennd, úrelt oftrú á yfirburðum eyðublaðaskriffinnskukerfisins, sem að dómi flm. þessarar þáltill. hefur staðið í vegi fyrir því, að við erum ekki fyrir löngu búnir að breyta til og færa fjármála- og viðskiptakerfi okkar í það horf, að við stæðum fyllilega jafnfætis öðrum frjálsum þjóðum, þ.e. að skapa hér frjálst hagkerfi. Á þann hátt einan höfum við möguleika til þess að hefja gjaldmiðil þjóðarinnar til þess vegs, að hann njóti á hverjum tíma fyllsta trausts hjá bæði þjóðinni sjálfri og hjá öðrum, eins og hæfir sjálfstæðu, frjálsu og fullvalda ríki. Það er ekki þýðingarminnsti þátturinn í sjálfstæðisbaráttu einnar þjóðar, að gjaldmiðill hennar sé traustur, bæði inn og út á við, að hann standi fyrir sínu, hvar sem er, hvenær sem er, hafta- og hömlulaust.

Ef þáltill., sem hér er til umr., fengist samþ., er að dómi flm. verið að stiga mikilvægt spor í rétta átt. Eins mikil og náin samskipti og við höfum t.d. við hin Norðurlöndin, ætti það að vera okkur nokkur hvatning til þess að gera a.m.k. tilraun til þess að skipa innflutnings- og gjaldeyrismálum þjóðarinnar á svipaðan hátt og gerist hjá þeim, eftir því sem staðhættir frekast leyfa. Og flm. er ekki í neinum vafa um það, að þegar reynsla hefur fengist á þeirri breyt., sem lagt er til. að gerð verði með þessari þáltill., þá mun þess ekki langt að bíða, að komið verði á fullkomlega frjálsu hagkerfi á Íslandi, þjóðinni allri til ómetanlegra heilla og velfarnaðar. Við höfum allt of lengi verið þrælar og unnið fyrir fjármagnið. Nú skulum við taka upp aðra háttu. Við skulum fara eftir ráðum hins glögga fjármálamanns, sem ég vitnaði í áðan, veita fjármagninu frjálsa vegferð. Við skulum láta það vinna fyrir okkur, þegar það kerfi er komið á og fær að njóta sín að fullu. Þá mun sannast, að slíkar ráðstafanir verða veigamikill þáttur í að bæta úr þeim sífelldu efnahagserfiðleikum, sem nú virðist vera orðinn krónískur sjúkdómur hér á landi og orðið hefur hverri ríkisstj. af annarri að fótakefli og falli.