02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3351 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég verð að leggjast á móti þessari brtt. Með þessu ákvæði er Seðlabankanum ekki á nokkurn hátt veitt neitt vald yfir Þjóðhagsstofnuninni. En ástæðan til þess, að þetta ákvæði er þarna, er sú, að gert er ráð fyrir því, að Þjóðhagsstofnunin vinni ýmis störf fyrir Seðlabankann, svo sem verið hefur, og þykir sanngjarnt, að Seðlabankinn greiði fyrir þau störf og taki þátt í kostnaði stofnunarinnar. Það má sjálfsagt segja, að þessu mætti koma fyrir með öðrum hætti og gera Seðlabankanum sérstaklega reikning fyrir þessum störfum, en þessi háttur hefur verið hafður á. Þessi háttur var hafður á í sambandi við Framkvæmdastofnunina, og þetta ákvæði er í lögum um hana, að Seðlabankinn tekur þátt í kostnaði við Framkvæmdastofnunina. Sú ákvörðun var auðvitað fyrst og fremst byggð þá líka á því, að hagrannsóknadeildin ynni ýmis grundvallar- og rannsóknarstörf fyrir Seðlabankann. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að alveg hliðstæð ákvæði hafi verið, — ég skal ekki fullyrða, hvort það var í lögum eða samningi, — varðandi Efnahagsstofnunina, að Seðlabankinn tók þannig þátt í kostnaði við hana. Á þessu sjónarmiði og þessu sjónarmiði eingöngu er þetta ákvæði byggt, en ekki á hinu, að með þessu sé ætlunin að gera þessa stofnun á neinn hátt háða Seðlabankanum.