02.04.1974
Neðri deild: 98. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3390 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

9. mál, grunnskóli

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef við 1. umr. þessa máls lýst fylgi mínu við meginstefnu þessa frv., og það fylgi mitt hef ég áréttað í nál. ásamt öðrum nm. Ég er samþykkur lengingu skólaskyldunnar og tel það eitt meginatriði þessa frv. Ég fylgi því á þeirri forsendu, að það sé algjört skilyrði fyrir jafnrétti til náms, og ég fylgi því einnig vegna þess, að það er forsenda þess, að menn flytjist sjálfkrafa milli skólastiga, og því engin hætta á því, eins og nú er, að menn stöðvist á unga aldri á námsbrautinni.

Um vinnubrögð í n. hefur þegar verið rætt, og þarf ég því ekki að bæta þar neinu við. Ég hef eins og aðrir nm. gert fyrirvara um fylgi við einstakar till., þótt þær séu fluttar af n. allri. Sumar af brtt. mínum hafa verið teknar inn í sameiginlega nál. og n. því gert þær að sínum. Aðrar flyt ég sjálf á þskj. 547 og mun nú gera í sem stystu máli grein fyrir þeim.

1. brtt, er við 13. gr., og þar legg ég til, að greinin orðist svo: „Menntmrn, ræður fræðslustjóra að fengnum till. hlutaðeigandi fræðsluráðs, en þó ekki lengur en til 5 ára í senn. Að þeim tíma liðnum má endurráða hann til jafnlangs tíma, ef meiri hluti fræðsluráðs mælir með því. Við skipun í starf fræðslustjóra skal taka tillit til kennslufræðilegrar menntunar umsækjanda, stjórnunarreynslu í opinberri þjónustu og þekkingar á skólamálum.“

Hér er hafnað æviráðningu fræðslustjóra. Lagt er hins vegar til, að hann verði ráðinn til 5 ára í senn. Það hefur, eins og hv. þm. er kunnugt, mjög verið rætt að undanförnu, að æviráðning í mikilvæg störf á vegum hins opinbera sé óæskileg. Starf fræðslustjóra hlýtur að teljast til þeirra starfa, sem þurfa sífelldrar endurnýjunar við, og er það beinlínis forsenda jákvæðrar þróunar í skólamálum hvers umdæmis, að vel takist til um val fræðslustjóra og samstarf milli haus og þeirra, er til hans þurfa að leita, Hér veltur allt á góðri stjórn fræðslustjórans, þekkingu hans og hæfileikum.

Till. mín gerir þó ráð fyrir, að megi endurráða fræðslustjóra, og ætti þá að vera tryggt, að hæfur fræðslustjóri þyrfti ekki að hverfa frá starfi. Endurnýjunarreglunni þarf því ekki að beita eingöngu sjálfrar hennar vegna. Ef hún á að ná tilgangi sínum, hlýtur hún að taka mið af því, að nýtist kraftar góðs manns, sé hann fyrir hendi. Hins vegar koma kostir hennar í ljós, ef sá, sem ráðinn er, veldur ekki hlutverki sínu.

Ég vil taka það fram, að Félag háskólamenntaðra kennara lagði þessa skipan mála til í umsögn sinni, og ég held, að það hafi komið til álita hjá fleiri aðilum. Ég hygg, að Landssamband framhaldsskólakennara hafi ekki verið andvígt þessari skipan. Í frv. er gert ráð fyrir, að yfirkennari sé ráðinn til 5 ára, og hef ég tekið mið af því og legg til 5 ára ráðningu fræðslustjórans.

Eins og kom fram í ræðu hv. 9. landsk, þm., er hann fylgjandi þessari ráðningaskipan, en ágreiningur er milli okkar um ráðningaraðila, og því taldi hann sér ekki fært að gerast meðflm. að þessari till.

2. brtt, mín er við 21. gr. Þar er fjallað um foreldrafélög. Í frv. er gert ráð fyrir, að foreldrafélag skuli stofnað eingöngu, ef þess sé óskað af skólastjórum eða foreldrum. Menntmn. bætti þar við þriðja aðilanum, almennum kennarafundi, sem er vissulega til bóta, en þó tel ég hvorugt ganga nógu langt. Margir, sem hafa látið sig skólamál varða, hafa bent á nauðsyn þess að efla tengsl milli heimila og skóla. Þar verður að takast gott samstarf, ef skólastarfið á að heppnast og nemandinn að komast til þroska. Ég hygg því rétt að gera það að skyldu, að foreldrafélag sé stofnað við grunnskóla. Önnur ástæða til þess, að ég tel þetta nauðsynlegt, er s.l. að sumir skólastjórar hafa beinlínis lýst sig andvíga því, að foreldrafélög séu stofnuð við skóla. Það er mín skoðun, að slík sjónarmið eigi ekki rétt á sér. Þau tengsl. sem þarna er nauðsynlegt að efla, geta varla talist einkamál skólastjórans. Það kunna einhverjir að segja sem svo, að það þýði lítið að skylda skólastjórann til að stofna foreldrafélag við skólann, ef foreldrar sýna því ekki áhuga. Það kann vissulega að fara svo illa sums staðar, þá verður líklega svo að vera, en þá verður ekki heldur unnt að kenna skólayfirvöldum um, að þau hafi ekki gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að koma á þessu nauðsynlega sambandi.

3. brtt. mín er við 22, gr., og fjallar um nemendaráðin. Í frvgr. er heimild til handa nemendum 7.–9. bekkjar grunnskóla að stofna nemendaráð, er sé skólastjóra og kennararáði til aðstoðar og ráðuneytis um málefni nemenda. Í frvgr. er ákvæði um félagsform nemendaráðsins og beinlínis tekið fram, að það skuli vera form. nemendaráðsins, sem eigi rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs og kennarafundum. Ég tel hér allt of ítarlega fyrirskipað í l. um það, hvernig nemendur hagi sínu félagsstarfi, og held, að best sé, að þeir ráði því sjálfir. Ný félagsform eru að ryðja sér til rúms, og er því rangt að mínu viti að festa hefðbundið félagsform í lögum. Ef nemendur hins vegar kjósa hefðbundið félagsform, geta þeir vitaskuld notað það, án þess að það sé fyrirskipað í lögum. Ég tel því rétt að sleppa öllu því, sem snertir innri málefni nemendaráðsins. Þá tel ég rétt, að skólastjórn og nemendur ákveði það sjálfir, hverjir skuli mynda nemendaráð. Það kann vel að vera, að í framkvæmd reynist það eingöngu áhugamál elstu nemendanna að stofna slíkt nemendaráð. Ég tel hins vegar ekki rétt að banna yngri nemendum að taka þátt í þessu sjálfsagða lýðræðislega fyrirkomulagi og treysti skólunum og skólayfirvöldum til þess að sjá það af hyggjuviti sínu og ráða því sjálf, hverjir eigi þar aðild að. Í gr. er einnig strangt fram tekið um bekkjaskipan, en n. hefur í öðrum gr. frv. reynt að losa um hefðbundna bekkjaskipan og opna fyrir nýjum leiðum til kennsluhátta.

Ég legg því til, herra forseti, að gr. orðist svo: „Heimilt er nemendum grunnskóla að stofna nemendaráð, er sé skólastjóra og kennararáði til aðstoðar og ráðuneytis um málefni nemenda. Einn af kennurum skólans aðstoðar nemendaráð. Fulltrúi nemendaráðs á rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti.“

Ég hef ekki átt þess kost að sýna n. 4. og 5. brtt, mína, þar eð ég athugaði þessi atriði ekki fyrr en n. hafði skilað frv. frá sér. Ég hygg þó, að a.m.k. sú 4. sé það sjálfsögð, að rétt sé, að ég taki hana aftur til 3. umr., til þess að n. geti skoðað hana. Á síðasta þingi samþ. Alþingi ný lög um heilbrigðisþjónustu, þar sem tekið er fram, að heilsugæsla nemenda skuli falin heilsugæslustöðvum, og því legg ég til, að á eftir 1. mgr. 76. gr., þar sem fjallað er um heilbrigðisþjónustu, komi ný mgr. svohljóðandi: „Sé heilsugæslustöð í námunda við grunnskóla er heimilt að fela henni að annast vernd nemenda, samkv. i, um heilbrigðisþjónustu, nr. 56/1973, 21. gr.

5. brtt. mín er við 77. gr. Við vorum raunar sammála um það í n., eða a.m.k. meiri hl. hennar, að fella 3. mgr. burt, en hún hljóðar svo í frv., með leyfi forseta: „Kennsla óskólaskyldra barna umfram það sem segir í gr. þessari, er háð leyfi fræðslustjóra. Nánari ákvæði má setja í reglugerð.“ Við vorum sammála um, að túlka mætti gr. þannig, að ekki einu sinni foreldrum væri leyfilegt að kenna börnum sínum heima, nema leita leyfis fræðslustjóra. Okkur þótti þetta heldur langt gengið. Eftir nánari athugun hygg ég, að hér muni vera átt við forskóla, sem einkaaðilar reka jafnvel í heimahúsum gegn gjaldi, og tel því rétt að bæta hér úr og skilgreina nokkru nánar. Ég legg því til, að mgr. orðist svo: „Óheimilt er einkaaðila að reka skóla fyrir óskólaskyld börn nema með leyfi fræðslustjóra.“

Ég hef nú mælt fyrir brtt. mínum á þskj. 547. Það er þó ein till., sem n, flytur sameiginlega, sem ég hlýt að fara nokkrum orðum um og lýsa mig algjörlega andvíga. Það er 42, gr., sem fjallar um styttingu starfstíma grunnskóla. Þessa gr. verður að skoða í nánu samhengi við 43. gr. og 45. gr. þ.e.a.s. brtt. n, nr. 27, 28 og 29. Ég er andvíg þessari gr. menntmn., einkum vegna þess að hún gerir ráð fyrir, að hinn árlegi námstími sé styttur í allt að 71/2 mánuð fyrir efstu bekkina. Ég hefði getað fallist á, að starfstíminn hefði verið styttur fyrir yngri börnin, en ég hygg, að ekki sé nokkur einasta leið að komast yfir það námsefni, sem efstu bekkjunum er ætlað, á 71/2 mánuði, einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að ef brtt. n. við 43. gr. verður samþ., þá styttist skólatíminn enn vegna atvinnuþátttöku, en þeirri skipan mála er ég eindregið fylgjandi. Ég tel slíkt bæði gott og þroskandi. En komi þetta hvort tveggja til, óttast ég, að það muni annaðhvort auka misréttið í skólakerfinu eða valda óhemju vinnuálagi á nemendur, þar sem sýnt er, að þeir muni ekki komast yfir námsefnið á svo skömmum tíma. Og óhóflegt vinnuálag er í algjöru ósamræmi brtt. n. við 45. gr. þar sem nánast er lögboðin 40 stunda vinnuálag er í algjöru ósamræmi við brtt. n, við er í frv., og tel að frv. geri ráð fyrir það mörgum undanþáguheimildum, að fyllilega ætti að nægja.

Hv. 9. landsk. þm. gerði að umræðuefni 12. brtt. n. við 18. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta: „Í kaupstöðum með 10 þús. íbúa eða fleiri fara fræðsluráð og hverfisnefndir með hlutverk skólanefndar. Viðkomandi bæjar- eða borgarstjórn skiptir kaupstaðnum í hverfi í samráði við fræðsluráð. Í hverju hverfi skal vera hverfisn., skipuð 5 mönnum. Hverfisn. skal kosin til 4 ára í senn af bæjar- eða borgarstjórn. Verkefni hverfisn. skulu vera hin sömu og þau verkefni skólan., sem talin er í 19. gr. Um starfshætti hverfisn., boðun funda, kosningu og fjölda kennarafulltrúa og rétt skólastjóra til setu á hverfisnefndafundum gilda að öllu leyti sömu ákvæði og um skólanefndir.“ Hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, hefur lýst andstöðu sinni við þessa breyt. Sú andstaða hans hlýtur að koma öllum hv. þm. á óvart, sem hlustuðu á bann í umr, um frv. um skólakerfi og um þetta frv. Hann fór mörgum orðum um dreifingu valdsins, en þegar um er að ræða að dreifa valdinu í Rvík, snýst hann allt í einu öndverður við. Þau rök, sem hann færði gegn þessari till., voru að mínu viti ákaflega léttvæg. Hann talaði um búferlaflutning milli hverfa. Það er vitaskuld rétt, að það kemur fyrir, að Reykvíkingar flytjist milli hverfa. En á þeim hvílir fortakslaus skylda um að tilkynna slíkan búferlaflutning hið skjótasta. Það ætti því ekki að vera nokkrum vandkvæðum bundið að koma slíkri tilkynningu til viðkomandi hverfisnefnda. Það má bæta því hér við, að Reykvíkingar eru jafnvel sektaðir, ef það dregst of lengi, að þeir tilkynni búferlaskipti. Ég hygg því, að menn geri það ekki að gamni sínu að draga slíkar tilkynningar.

Hann sagði einnig, að það væri rangt að binda í lögum skipan skólamála í Rvík. Ég veit ekki, hvort ég fer alveg rétt með, en inntakið í mótbárum hans var það, að slíkt skipulag sem þetta ætti ekki að binda í lögum. Þetta eru furðuleg rök, þar sem frv. bindur vissa skipan mála í Rvík, sem á ekki að gilda fyrir önnur fræðsluumdæmi, og ég hef aldrei heyrt hv. þm. Ellert B. Schram minnast á það einu orði á öllum nefndarfundum okkar, að þetta væri óheppilegt. Ef brtt. n. er of fortakslaus, þá er hitt enn fortakslausara. Ég hef einhvern grun um, að þessi rök séu til komin eftir á. Ég vil leiðrétta þau ummæli hans, að hverfisn. skv. þessari brtt. eigi að koma í stað skólan. Það er alls ekki rétt, að þær eig að koma að öllu leyti í stað skólan. Það er skýrt tekið fram, — og gott væri ef hv. þm. vildi lesa till. einu sinni enn sér til glöggvunar, — að hverfisnefndir skuli fá þau verkefni skólan., sem talin eru í 19. gr. Skólan. skv. frv. hafa viðtækari verkefni en talin eru upp í 19. gr., og það var einmitt þess vegna, sem ekki var hægt að kalla þessar hverfisn. í kaupstöðum skólan. Ég vil t.d. benda á 17. gr., þar sem segir, með leyfi forseta, um skólan.: „Hún sér um skiptingu nemenda milli þeirra og samræmir rekstur þeirra, eftir því sem hún telur haganlegt.“ Skv. till. n. er alls ekki ætlast til þess, að hverfisn. hafi þetta verkefni með höndum, svo að eitt dæmi sé tekið. Þau verkefni skólan., sem talin eru upp í 19. gr., snerta eingöngu innri málefni skólanna. Hér er því að vissu marki um heimastjórn að ræða, um dreifingu valds frá 7 manna fræðsluráði út til kjörinna hverfisnefndarfulltrúa, sem eiga þá að geta tekið ákvarðanir um það, sem næst þeim er, án þess að þurfa að leita til hinnar miklu miðstjórnar, sem frv. gerir ráð fyrir, að ráði skólamálum í Rvík. Ef við athugum muninn á fyrirkomulaginu í Rvík og annars staðar á landinu, eins og frv. gerir ráð fyrir því, sker í augun einmitt miðstjórnarvaldið í Rvík. Þar segir beinlínis, að fræðsluráðið í Rvík skuli jafnframt vera skólan. Nú er í grg, með frv., á bls. 67, rakinn áætlaður fjöldi nemenda í grunnskóla. Þar eru taldir 14 200 nemendur í Rvík. í öðrum umdæmum fer nemendafjöldinn allt niður í 1900 og hvergi upp fyrir 4 350 nema í Reykjaneskjördæmi. Hér er gríðarlega mikill munur á nemendafjölda í Rvík og öðrum kjördæmum. Í öðrum kjördæmum er gert ráð fyrir fræðsluráði umdæmisins alls og síðan skólanefndum, sem annast málefni, sem standa þeim næst, Í Rvík er hins vegar gert ráð fyrir 7 mönnum, sem eiga að hafa alla yfirstjórn á hendi. Þar skiptist valdið ekki, enda þótt nemendafjöldinn sé miklu, miklu meiri. Í aths. við frv. er beinlínis staðfest fjarlægðin milli valdsstjórnarinnar og þeirra, sem á að stjórna. Í grg. með 18. gr. segir, með leyfi forseta: „Fræðsluráð Reykjavíkur fer með hlutverk skólanefndar í Rvík. Sakir fjölda skóla þar hefur ekki komist á þar sú venja, að skólastjórar sitji fundi fræðsluráðs, enda yrði sá vettvangur í stærra lagi.“ Hér er beinlínis sagt, að leiðin milli skólastjóra og kennara í Rvík annars vegar og fræðsluráðsins hins vegar sé lengri en annarsstaðar. En í frv. er það nýmæli, að gert er ráð fyrir setu kennarafulltrúa og skólastjóra á fundum skólan. Hins vegar mundi slíkt ekki gilda um Rvík. Skólastjórar og kennarar mundu ekki sitja fundi fræðsluráðs nema þrisvar á ári. Sterk rök hníga að því, að valdinu sé dreift innan Rvíkur, ekki síður en annars staðar á landinu. Eftir sem áður hefur fræðsluráð Reykjavíkur þau verkefni, sem fræðsluráði eru falin skv. frv., þar með talin heildarstjórn, svo sem fjármálastjórn, og hvers konar samræming og hagræðing, sem nauðsynleg er. Ég tel þetta mjög mikilvægt atriði, sérstaklega fyrir Rvík og Reykvíkinga, og fagna því, að meiri hl. menntmn. var sammála mér um þetta atriði, og hygg, að það geti orðið til góðs, nái það fram að ganga.