06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

352. mál, hitaveita á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég hef á þskj. 30 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh. um hitaveitu á Suðurnesjum:

„1) Hvað líður rannsóknum orkustofnunar á jarðhitasvæðum á Suðurnesjum?

2) Liggur fyrir samanburður á hagkvæmni virkjana á þeim hitasvæðum, er til greina koma?“

Íbúar Suðurnesja hafa lengi haft áhuga á hagnýtingu þess hita, sem þar er í jörðu. Lengst af beindist athyglin að Reykjanesinu sjálfu, enda mikill yfirborðshiti þar. Fjarlægð frá þéttbýli og seltan í gufunni, sem þar kemur upp úr jörðu, var þess þó valdandi, að ekki var talið ráðlegt að nýta það svæði. Árið 1971 var boruð hola í Svartsengi, aðeins 5 km frá Grindavík og um 12 km frá Keflavík. Sú hola og önnur, er boruð var 1972, gefa næga orku, að því er mér skilst, til þess að hita upp nálægt þéttbýli.

Á s. l. ári gaf Orkustofnunin út rit, sem var frumáætlun um varmaveitu til þéttbýlis á Suðurnesjum. Þar kemur fram, að öruggt má telja, að nægur varmi, sem hagkvæmt er að virkja, er í Svartsengi, en vegna seltu í gufunni þurfa að fara fram sérstakar rannsóknir til að komast að því, hvaða millihitun er hagkvæmust. Vegna öryggisleysis í orkumálum heims og síhækkandi olíuverðs er áhugi íbúanna þar syðra vaxandi fyrir því að fá sem fyrst heitt vatn til húshitunar. Sveitarfélögin þar eru nú að bindast samtökum um rekstur hitaveitu, og þess vegna er fróðlegt að fá upplýsingar um, hve langt á veg rannsóknir séu komnar í Svartsengi og hvenær líklegt sé, að framkvæmd við gerð hitaveitu geti hafist.

Um 2. lið fsp. minnar: „Liggur fyrir samanburður á hagkvæmni virkjana á þeim hitasvæðum, er til greina koma?“ er þetta að segja:

Það er talið mjög líklegt, að fá megi jarðvarmann með því að bora í Keflavik sjálfri eða í Njarðvíkum. 43 m hola, sem boruð var í Keflavík, bendir til þess og einnig 500 m hola, sem boruð var á Njarðvíkurheiði fyrir nokkrum árum. Því er ekki að neita, að það væri mjög fróðlegt að bora tilraunaholu á þessu svæði, þar sem þetta liggur inn í þéttbýliskjörnunum sjálfum.