04.04.1974
Neðri deild: 100. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

303. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar er flutt í samræmi við samkomulag, sem samningsaðilar vinnumarkaðarins gerðu 26. febr. s.l. Í því samkomulagi var kafli um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu, og ég held, að það sé rétt til skýringar á frv., að ég lesi þann kafla upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar starfsfólk í fiskvinnu hefur unnið samfleytt hjá sama atvinnurekanda í 4 vikur, þá er því gefinn kostur á að gera sérstakan ráðningarsamning, sem felur í sér eftirfarandi atriði:

1) Starfsfólk skal halda dagvinnukaupi fyrstu 3 atvinnuleysisdaga í viku hverri. Frá 1. mars 1976 skal starfsfólk halda dagvinnukaupi fyrstu 4 atvinnuleysisdaga í viku hverri og frá 1. mars 1978 5 atvinnuleysisdaga. Starfsfólk, sem ráðið er til hálfsdagsvinnu, nýtur hlutfallslega sömu réttinda.

2) Starfsfólki ber að vinna öll algeng störf í fiskvinnsluhúsum skv. fyrirmælum verkstjóra.

3) Starfsfólki ber að hlýða útkalli, nema lögleg forföll hamli.

4) Neiti starfsfólk skv. tölul. 2 vinnu eða mæti ekki til vinnu, þegar vinna er fyrir hendi, falla réttindi þau, sem samningur þessi gerir ráð fyrir, úr gildi þá viku.

5) Með samfelldri 4 vikna vinnu er átt við, að unnið hafi verið hjá sama atvinnuveitanda fulla dagvinnu í 4 vikur, enda jafngildi fjarvistir vegna veikinda, slysa, hráefnisskorts eða sambærilegra orsaka fullri vinnu.

6) Heimilt er að segja kauptryggingu verkafólks upp með viku fyrirvara, ef fyrirsjáanleg er vinnslustöðvun. Eftir að vinnsla hefst á ný, nýtur verkafólk áunninna réttinda.

7) 60% af greiðslu, sem vinnuveitendur greiða vegna þessarar tryggingar, skal atvinnuleysistryggingasjóður endurgreiða viðkomandi fyrirtæki mánaðarlega, enda hafi trúnaðarmaður og annar launþegi, er trúnaðarmaður eða stéttarfélag velur, staðfest framlögð gögn með daglegri uppáskrift. Þann 1. mars 1979 lækkar greiðsluhlutfall Atvinnuleysistryggingarsjóðs í 50% og síðan um 10% á ári næstu 5 ár, þannig að greiðsla sjóðsins fellur niður frá og með 1. mars 1984.

8) Samkomulag þetta tekur gildi við undirskrift samnings þessa, enda hafi ríkisstj. lofað að beita sér fyrir, að breyt. á l. um Atvinnuleysistryggingasjóð verði gerð á Alþingi því, er nú situr, er heimili greiðslu til vinnuveitenda, sbr. tölul. 7 hér að framan. Reglugerð um framkvæmd og eftirlit verði gerð í samráði við Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands.“

Þessu samningsákvæði aðila vinnumarkaðarins fylgir yfirlýsing frá ríkisstj., svo hljóðandi: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir, að breytt verði á yfirstandandi þingi l. um Atvinnuleysistryggingasjóð þannig, að greiðslur skv. framanskráðu samkomulagi geti farið fram.“

Undir þetta rituðu Lúðvík Jósepsson, Björn Jónsson og Halldór E. Sigurðsson.

Í samræmi við þetta fyrirheit fól ég þriggja manna n. að gera drög að frv. um breytingu á l. um atvinnuleysistryggingar, og áttu sæti í n. Hjálmar Vilhjálmsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, sem var form. n., Eðvarð Sigurðsson alþm. og Kristján Ragnarsson framkvstj., og hafa þeir samið það frv., sem hér liggur fyrir. En þau atriði, sem meginbreytingin felst í, er að finna í 5. gr. frv., sem er framkvæmd á því samkomulagi, sem ég var að lýsa hér áðan. Það skiptir einnig verulegu máli, hvernig þessi lög eru framkvæmd í verki, og því fylgja hér með drög að reglugerð um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu, í öðru lagi drög að ráðningarsamningi um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnu og enn fremur drög að skrá um það, hvernig skrá skuli atvinnuleysisdaga, sem atvinnurekanda ber að greiða dagvinnukaup fyrir, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir, hvernig hugsað er að framkvæma þessa lagabreytingu í verki.

Ég þarf ekki að hafa nein orð um það, hversu mikið réttindamál þetta er fyrir starfsfólk í fiskvinnu, það ætti öllum að vera ljóst. En ég vil minna á það, að í þessu eiga naumast að felast neinar nýjar byrðar fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Á síðasta þingi var 1. um hann breytt þannig, að biðtími var felldur niður, þannig að menn áttu kost á atvinnuleysistryggingabótum þegar á fyrsta degi, er þeir urðu atvinnulausir, þannig að segja má, að með því hafi verið kominn vísir að almennri kauptryggingu.

Að sjálfsögðu verður ekki hjá því komist, að við afgreiðum þetta mál á þessu þingi, og ég hygg, að það muni verða auðsótt. Mér er ekki kunnugt um, að neinn ágreiningur sé um þetta mál. Ég legg til, herra forseti, að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2, umr. og hv. heilbr: og trn.