05.04.1974
Efri deild: 99. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Á fundi þessarar hv. d. í gær gerði ég nokkuð að umræðuefni það frv. til l. um skráningu og mat fasteigna, sem hér er til 3. umr. nú. Ég gerði aths. við og lýsti mig andvígan ákvæði, sem er að finna í 16. gr. frv., og hef því leyft mér að flytja brtt. við þá gr., þar sem lagt er til, að 2. mgr. hennar falli niður. En eins og ég ræddi um í gær, sýnist mér með öllu óeðlilegt að hafa annan hátt á um mat á bújörðum en öðrum eignum landsmanna, einnig og ekki síður fyrir það, að það ákvæði er að finna í þessari sömu gr., að til þess eins, að bújörð skuli metin á sama hátt og aðrar fasteignir í landinu, þarf að búa illa á jörðinni eða vera með hana í niðurníðslu, til þess að hún komist undir almenn ákvæði.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að þegar fasteignamat var gert siðast á áratugnum milli 1960 og 1970 og lokið á árinu 1970, voru það fyrirmæli til fasteignamatsnefndanna, að miða skyldi við gangverð eða söluverð, eftir því sem föng væru á. Mér er kunnugt um það af starfi mínu í fasteignamatsnefnd Árnessýslu, að þó að við iðulega reyndum að finna verð út eftir öðrum leiðum heldur en þeirri, hvað við byggðum, að eign mundi seljast á, þá urðu niðurstöðurnar þær, að þar sem við fréttum eða urðum varir við, að sölur hefðu farið fram, var matið mjög nálægt því. Ég tel því, að ef horfið yrði að þessu ráði, að meta bújarðir með einhverjum öðrum hætti, sem ekki er skilgreint í l., hvernig skuli gert, þá sé horfið frá þeim starfsaðferðum, sem áður voru viðhafðar.

Ég segi, að það sé ekki skilgreint, hvernig þetta mat skuli vera undirbyggt. Þar er aðeins sagt, að bújarðir skuli metnar miðað við notkun þeirra til búskapar, á meðan þær eru nýttar þannig. Þetta segir ekkert um það, hvernig matið skuli uppbyggt. Ef miðað er við það, hvernig verð jarðanna vegur í uppbyggingu verðlagsgrundvallar landbúnaðarafurða, sem manni kannske gæti dottið í hug, að þarna skyldi lagt til grundvallar, þá segir þar, að vextir af eigin fé séu 5%, vextir af lánum úr Stofnlánadeildinni séu 7.07%, en lausafjárvextir eða víxlavextir eru metnir þar 12%. Auk þess er í meðalverðlagsgrundvellinum, ef ég man rétt, eitthvað milli 400 og 500 þús. kr. verðmæti, sem engum vöxtum er látið svara í verðlagsgrundvellinum enn sem komið er, þó að það sennilega leiðréttist að nokkru leyti á næsta 11/2 ári eftir þeim samningum, sem fyrir eru.

Með þetta allt í huga hef ég leyft mér að leggja fram þessa brtt., og mér þykir rétt að geta þess hér um leið, að í umsögnum, sem bárust til þeirrar hv. n., sem hafði þetta frv. til athugunar, er vikið að þessu a.m.k. á þremur stöðum. Það er í umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er ljóst af 2. mgr. 16. gr., hvernig meta eigi bújarðir. Ástæðulaust virðist að hafa sérreglur um bújarðir hvað þetta snertir Þetta er frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þá segir Fasteignamat ríkisins um þessa hluti í umsögn, sem það hefur gefið til fjh: og viðskn., undir 4. tölul. umsagnar sinnar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í 16. gr. frv. eru sett fram ákvæði um, hvernig meta skuli tilteknar fasteignir, þ.e. bújarðir, hlunnindi og verðmætaskiptingu leigulands, milli landeigenda og leigutaka. Hér er um að ræða vafasöm einhliða ákvæði, ef að lögum verða.“

Og í þriðja lagi hef ég séð hér í umsögn frá hús- og landeigendasambandi Íslands, að þeir gera ekki aths. við það, þar sem lagt er til, að fasteignir séu metnar á gangverði, og benda á það, eins og ég var að benda á í upphafi ræðu minnar, að við það var miðað í eldri lögum.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að ég hafi um þessa till. mína öllu fleiri orð en ég hef nú gert. Ég þykist hafa tínt fram það veigamikil rök í þessu máli, að það sé með öllu óeðlilegt að ætla að nota einhverja aðra uppbyggingu á mati um bújarðir, auk þess sem engin fyrirmæli eru um það, á hverju það mat skuli byggt. Og ég er andvígur því, eins og ég tók fram hér í gær, að bújarðirnar séu metnar sem annars flokks eigu í landinu. Ég vil benda á, að það eru engar líkur til þess, að með þessu ákvæði muni bændur verða firrtir fasteignasköttum. Eins og ég gat um áðan, eru bújarðirnar núna metnar eftir gangverði, og síðan það gangverð var sett, er tvisvar búið að hækka matið með tilliti til álagningar fasteignaskatta, búið að hækka það um 45%, frá því að matið var gert, svo að það eru engar líkur til annars en það verði í svipuðu horfi um skattlagningu, þó að metið sé eftir gangverði eignanna, eins og nú er gert.