05.04.1974
Neðri deild: 102. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3560 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

267. mál, aðstoð við kaupstaði eða kauptún vegna landakaupa

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Hér er lítið frv. á ferðinni, stjfrv., sem er komið frá hv. Ed., þar sem það hlaut einróma samþykki. Efnisatriði þessa frv. varða lánakjör úr svokölluðum landakaupasjóði, en þau hafa verið þannig allt frá því 1963, að l. tóku gildi, að lánstími hefur verið 25 ár og ársvextir 5%. Nú er lagt til með þessu frv., að lánskjörunum verði breytt þannig, að lánstíminn verði 15 ár, en heimilt verði að ákveða, að lán verði afborgunarlaust 3 fyrstu árin, en vextir skuli vera 3% lægri en almennir útlánsvextir lánastofnana. Þetta er efni frv., og er það þess vegna mjög einfalt og þarfnast ekki mikilla skýringa.

Það er, held ég, alveg auðsætt öllum þeim, sem á þetta lita, að ákvæðin um lánakjörin eru orðin algjörlega úrelt eftir þær miklu vaxtahækkanir, sem urðu á s.l. vori, og einnig þegar litið er til þeirrar miklu verðbólguþróunar, sem orðið hefur í landinu undanfarin ár, þar sem hér er um algjörlega óverðtryggð lán að ræða. Tilgangurinn með frv. er vitanlega sá, að það takmarkaða fé og ég vil segja of litla fé, sem veitt er til aðstoðar sveitarfélögunum til landakaupa, verði svolítið drýgra í meðförum og eyðist ekki alveg eins skjótt upp og nú er, og einnig að hægt sé að gera fleirum, sem um þau sækja og eiga fullan rétt á þeirri aðstoð, sem hér um ræðir, frekar úrlausn heldur en ella.

Ég vil svo geta þess, að það hefur verið haft samband við Samband ísl. sveitarfélaga, áður en þetta frv. var lagt fram, og síðan hefur það verið staðfest af stjórn sambandsins, að það er þessari breyt. algjörlega samþykkt, og ætti þá ekki að standa á öðrum að veita þessari breyt. athygli.

Á fskj. eru svo skýringar, bæði um það, hvernig því fé hefur verið varið, sem á undanförnum árum hefur verið til ráðstöfunar til sveitarfélaganna vegna landakaupa, og eins skrá yfir óafgreiddar lánsumsóknir. Sést á því, að það fé, sem sjóðurinn hefur til umráða, hrekkur of skammt og ekki veitir af því að gera þá breyt., sem hér er um að ræða.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess, þar sem hér er um einfalt mál að ræða, að hafa um það fleiri orð. Ég legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.