06.11.1973
Sameinað þing: 13. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

355. mál, lánsfé til byggingar leiguhúsnæðis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann, en ég held, að það sé nauðsynlegt að leiðrétta það, sem hv. síðasti ræðumaður var að segja hér áðan. Þetta voru samningar við ríkisstj., ekki við atvinnurekendur. Það ætti þessi hv. þm. að vita. Ef hann veit það ekki nú þegar, þá ætti hann að afla sér upplýsinga um það. En ég veit, að hann veit það. Það er hins vegar nokkuð athyglisvert, hvað hv. stjórnarandstöðuþm. og þá fyrst og fremst sjálfstæðisþm., — ég tala nú ekki um þeirra spekinga í húsnæðismálum, sem verið hafa undanfarna áratugi, — hvað þeir eru allt í einu orðnir ákafir í sambandi við húsnæðismálin nú til dags. Þeim hefði verið sæmra að hugsa betur um þessi mál, meðan þeir fóru með völd í 12 eða 13 ár. Það er fyrst og fremst þeirra sök, hvernig húsnæðismálum úti á landsbyggðinni er nú komið. Það ætti hv. 5. þm. Vestf. að taka fyrst og fremst til sín.