05.04.1974
Efri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Með þessu frv. er ráðgert, að lagmetisiðnaðurinn falli undir skilgreiningu laga um iðnrekstur og greiði iðnlánasjóðsgjald, en verði undanþeginn öllum útflutningsgjöldum, sem tengd eru sjávarútveginum. Þegar Sölustofnun lagmetis var stofnsett með lögum 1972, var gert ráð fyrir því, að öll þáverandi útflutningsgjöld af lagmeti skyldu renna í svonefndan þróunarsjóð til eflingar lagmetisiðnaði. Síðan hafa ýmis ný útflutningsgjöld á sjávarafurðir verið lögð á lagmetisiðnað, þ. á m. 1% gjald, sem renna skal til Fiskveiðasjóðs Íslands, og fer það gjald ekki í þróunarsjóðinn. Á sama tíma hefur það gerst, að lagmetisiðnaðurinn hefur ekki notið lánafyrirgreiðslu úr sjóðum sjávarútvegsins, en hins vegar úr Iðnlánasjóði, án þess þó að vera skyldur til þess að greiða iðnlánasjóðsgjald. Hefur af þessu orðið öngþveiti fyrir lagmetisiðnaðinn, og er staða hans mjög óskýr hvað þessi atriði varðar. Þá hefur komið í ljós, að verðmyndun á lagmetisafurðum er mun líkari því, sem gerist um almennar iðnaðarvörur, og fylgir ekki þeim sveiflum og reglum um verðlagningu, sem almennt gerast á sjávarafurðum. Aukaálögur af auknum útflutningsgjöldum hafa því reynst þungbærar á síðustu mánuðum.

Þessu frv. er ætlað að undanskilja lagmetisiðnað öllum almennum útflutningsgjöldum af sjávarafurðum, tengja starfsemina við lánakerfi iðnaðarins og leggja á hana iðnlánasjóðsgjald í staðinn. Hins vegar gilda áfram ákvæðin um greiðslu í þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, en samkv. l. áttu þær greiðslur að standa um 5 ára skeið.

Ég tel rétt, að ég geri við þetta tækifæri einnig grein fyrir frv. um Iðnlánasjóð, því að þessi frv. eru tengd hvort öðru. Þar er ráðgert, að lagmetisiðnaðurinn greiði iðnlánasjóðsgjald og fái þannig sama rétt til lánveitinga úr Iðnlánasjóði og önnur iðnfyrirtæki. Þessi lánafyrirgreiðsla hefur verið veitt að undanförnu, en til þess að hægt sé að gera það á eðlilegan hátt, þarf lagmetisiðnaðurinn að greiða iðnlánasjóðsgjald eins og önnur iðnfyrirtæki.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.