05.04.1974
Efri deild: 101. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3587 í B-deild Alþingistíðinda. (3212)

308. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð við þessa 1. umr. og þau frv., sem koma svo skjótt til umr.

Mig langar til að beina fsp, til hæstv. ráðh., hvort rétt sé, að þegar hafi verið framkvæmt efni þessara laga varðandi það, að þau gjöld, sem frv. gerir ráð fyrir, hafi verið lögð til hliðar, eins og frv. mæla fyrir, og ef svo hafi verið, hvort hæstv. ráðh, geti upplýst, þótt með stuttum fyrirvara sé, hversu háar tölur hér sé um að ræða.

Það kemur ekki fram í aths. við frv., hve hér sé um stórar tölur að ræða, en það hefur lengi verið háð nokkuð hörð barátta til að ná inn í gegnum útflutningsgjald af sjávarafurðum nægilegu fjármagni, svo að tryggingasjóður og fleiri sjóðir, sem njóta þessara gjalda til baka aftur, hafi nægilegt fjármagn.

Ég held, að við séum sammála um það, allir hv. þm. í d., að nauðsynlegt er að tryggja lagmetisiðnaðinum nægilegt fjármagn og ekki síður góð stofnlán, og efni þessara frumvarpa getur því sennilega verið ágreiningslaust mál. En ég tel samt rétt, af því að það fer í n., sem ég á ekki sæti í, þar sem hæstv. ráðh. lagði til, að það væri iðnn. en ekki sjútvn., þó að sjávarútvegurinn standi þarna undir verulegum gjöldum, að við a.m.k. ættum kost á að fá hugmynd um, hversu stór gjaldtaka sé hér á ferðinni og hversu fjármagnshreyfingar breytast miðað við það, að frv. fari í gegn óbreytt.

Það voru þessi atriði, sem ég vildi fá upplýsingar um, ef tök væru á með svona stuttum fyrirvara.