19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3778 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

191. mál, málflytjendur

Frsm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. d. hefur að undanförnu haft til athugunar frv. til laga um málflytjendur, 191. mál þessa þings. Nefndin sendi frv. til umsagnar nokkrum aðilum, og til viðræðu við nefndina komu m.a. þrír stjórnarmeðlimir Orators, félags laganema, og eins bárust n. álitsgerðir frá Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Félagi bankalögfræðinga, Hæstarétti og Orator, félagi laganema. Hefur n. yfirfarið allar þessar umsagnir og álitsgerðir, og er niðurstaða n. sú að leggja til, að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum, sem er að finna í nál. á þskj. 542 og ég ætla að víkja að örfáum orðum.

Brtt. þær við frv., sem n. stendur öll að, eru þrjár. Fyrsta breytingin er við 7. gr. frv. um það, að við 3. málsgr. bætist: „Þessa ákvörðun má kæra til lögmannsdóms skv. 11. gr. með 4 vikna kærufresti. Á sama hátt má kæra til lögmannsdóms ákvörðun um málsvarnarlaun í opinberu máli.“ Þessi breyting er ljós, og þykir mér ástæðulaust að fara um hana frekari orðum.

Önnur brtt. n. er við 10. gr. 4. málsgr. Lagt er til, að 4. málsgr. orðist svo: „Laun dómenda í lögmannsdómi skulu greiðast úr ríkissjóði eftir úrskurði dómsmrh.

Þriðja og síðasta brtt. n. og sú, sem er einna mikilvægust, er við 13. gr. 5. tölul. Lagt er til, að 1. málsl. hans orðist svo: „Hefur starfað sem tilkynntur fulltrúi héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanns í eitt ár og eftir þann tíma sýnt hæfni sína með flutningi tveggja munnlega fluttra mála eða að öðrum kosti sýnt hæfni sína með flutningi 4 munnlegra mála fyrir prófnefnd, er dómsmrh. skipar. — Prófnefndin skal fylgjast með starfi að undirbúningi málflutningsins og stuðla að því, að hann veiti prófmanni þekkingu á störfum lögmanna. Dómsmrh. setur með reglugerð ákvæði um prófgreinar, framkvæmd prófs, skipun prófnefndar o.fl. að fengnum till. Lögmannafélags Íslands.“

Í nál. hefur fallið niður að geta þess, að nefndarmenn hafa skrifað undir það með þeim almenna fyrirvara, að þeir hefðu rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um málið.