19.04.1974
Neðri deild: 109. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

191. mál, málflytjendur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af sömu brtt. og ræðumenn hér á undan mér. Ég get stytt mál mitt með því að segja, að ég get í einu og öllu tekið undir það, sem hv. 8. þm. Reykv. var að enda við að segja hér áðan í sinni ræðu. Sjálf er ég sannfærð um, að það sé mikið nauðsynjamál að koma með einhverjum hætti á réttarhjálp fyrir efnalítið fólk. En í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að það form, sem bent er á í þessari brtt., er að nokkru leyti þegar leyst í gildandi lögum. Það hafa raunar fleiri bent á hér. Nú þegar gilda í okkar réttarkerfi reglurnar um gjafsókn og gjafvörn, svo að að því er tekur til gjalds eða þóknunar fyrir málflutning leysa þær reglur að því leyti þann vanda, sem við er að etja. Enn fremur hvílir á dómurum leiðbeiningaskylda varðandi réttarstöðu þeirra, sem undir högg eiga að sækja með mál sín fyrir dómi. Margir hafa notið góðs af þeirri þjónustu. Enn fremur má benda á, að vissar stofnanir reka nú þegar réttarhjálp, að því er tekur til nokkurs hóps manna. Nokkur réttarhjálp er rekin á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, og ein stofnun, sem ég er nokkuð kunnug hér í borginni, hefur um áratuga skeið rekið réttarhjálp. Það er mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur. Það var fyrir mörgum árum að frumkvæði Laufeyjar heitinnar Valdimarsdóttur, að hafin var leiðbeiningaþjónusta um lögfræðileg efni. Fyrst og fremst náði hún til einstæðra mæðra. Smátt og smátt varð sú þjónusta nokkru víðtækari og nær aðallega til barnsfaðernismála og ýmiss konar leiðbeininga í sambandi við skilnaðarmál.

Menn skyldu e.t.v. halda, að með því að rekin væri skrifstofa með ókeypis réttarhjálp væru tekin verkefni úr höndum lögmanna. Ég held aftur á móti, að slík starfsemi létti verkefnum af lögmönnum, þannig að þeir, sem þurfa að reka mál fyrir dómi t.d., ættu að geta fengið fljótari fyrirgreiðslu. Þarna er í mörgum tilfellum aðeins um að ræða, eins og hv. 8. þm. Reykv. benti á áðan, að menn þurfa leiðbeininga á algjöru frumstigi mála. Menn þurfa einfaldlega stundum að vita um það eitt, hvort réttarleg úrræði séu fyrir hendi í vandamálum fólksins eða ekki. Í mörgum tilfellum er alls ekki um að ræða málefni, sem eru lögfræðilegs eðlis, og þá getur lögfræðingur hjá slíkri leiðbeiningaþjónustu leiðbeint um það, eða þá að einungis þarf leiðbeiningu um það, til hvaða aðila beri að snúa sér og hvernig málið fáist leyst með sem skjótustum hætti, án þess að þurfa að leita til dómstóla. Sannleikurinn er sá, að ég held, að slík þjónusta gæti orðið stórlega til þess að greiða fyrir skjótari lausn ýmissa mála, sem annars tefja mjög störf lögmanna og jafnvel dómstóla, að því er varðar leiðbeiningaskyldu dómara. Þess vegna vil ég lýsa því, að ég er fyllilega fylgjandi þeirri hugmynd, að með einhverjum hætti verði slík starfsemi sett á laggirnar, réttarhjálp eða leiðbeiningaþjónusta um lögfræðilega aðstöðu fólks á fyrri stigum mála, hins vegar sé ekki farið inn á það svið, sem varðar beinlínis málflutninginn og gildandi reglur um gjafsókn og gjafvörn taka til nú.

Ég mun ekki fara út í að ræða það, hvort slík starfsemi ætti að vera hjá lagadeild Háskóla Íslands eða einhvers staðar annars staðar. Ég sé ekki, að það út af fyrir sig skipti höfuðmáli. Ég held, að slík starfsemi gæti vel verið ágætlega komin í höndum laganema. Mér er kunnugt um, að svo er sums staðar annars staðar, en þá því aðeins, að um sé að ræða leiðbeiningar um mál á fyrsta stigi. Enn fremur finnst mér, að mjög vel gæti komið til greina, að launþegasamtökin veittu slíka þjónustu meira en þegar er fyrir hendi. Ég þykist vita og hef raunar oft orðið þess áskynja sérstaklega varðandi konur og þeirra vanda í sambandi við stöðu á launamarkaðinum og vinnumarkaðinum yfir höfuð, að þeim gæti verið mjög mikil stoð í því að eiga aðgang að réttarhjálp innan sinna samtaka, þar sem veittar væru ókeypis leiðbeiningar um, hvort þeirra réttur væri á einhvern hátt lögfræðilega séð fyrir borð borinn. Fleiri aðila mætti einnig telja, sem þarna kæmu til greina, og gæti verið líka mjög eðlilegt, eins og hæstv. dómsmrh, benti á, að slíkt gæti farið fram á vegum rn. En það er í mínum augum ekki aðalatriðið, hver þetta verkefni hefur með höndum, heldur einungis að það sé leyst.