22.04.1974
Neðri deild: 110. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

281. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er orðið alllangt síðan ég kvaddi mér hljóðs um þetta mál. Eins og sjá má, er það iðnn. Nd., sem flytur frv. eftir beiðni hæstv. iðnrh., en þegar málið var hér fyrst til umr., var það lítið, sem frsm. n. hafði að segja, en hæstv. iðnrh. gerði málinu því betri skil með langri framsöguræðu. Út af fyrir sig er engin ástæða til þess að vera með aðfinnslur út af því, þótt brugðið sé þannig út frá venjunni og ráðh. tali fyrir máli, sem hann flytur ekki. En það er tekið fram af n. hálfu, að hún áskilji sér rétt til þess að flytja brtt. og gera aths. við þetta mál, eftir því sem ástæða þykir til að athuguðu máli.

N. hefur ekki rætt þetta frv., ekki tekið það til athugunar, en að sjálfsögðu munu nm. hafa lesið frv. yfir og gert sér nokkra grein fyrir innihaldi þess. Enginn vafi er á því, að ýmislegt er í frv., sem er athyglisvert og gæti verið til framdráttar og bóta fyrir iðnaðinn í landinu. Það er einnig enginn vafi á því, að ýmislegt í frv. mætti betur fara.

Það má segja, að ekki sé ástæða til að ræða frv. á þessu þingi, vegna þess að þegar n. var beðin um að flytja málið, fylgdi það með, að það væri ekki ætlunin, að frv. næði fram að ganga á þessu þingi, frv. væri flutt til þess, að þm. gætu gert sér grein fyrir því, hvað hér væri um að ræða. Út af fyrir sig ber mál oft þannig að, ekki síst þegar um stórmál er að ræða. En þetta mál er í sjálfu sér ekki nýtt, það hefur verið nokkuð lengi á ferðinni, og það hefur verið hjá hæstv. ráðh. nokkuð lengi til athugunar. Það má segja, þó að þetta frv. yrði að lögum, að þá dugar það eitt út af fyrir sig ekki til þess að styrkja iðnaðinn, til þess að vinna gegn því neikvæða, sem nú herjar á í iðnaðinum. Því miður er ekkert „patent“ fundið til þess. En ég ætla ekki að fara að ræða um ástand og horfur í iðnaði í sambandi við þetta mál. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess, heldur einfaldlega vegna þess, að málið ber að eins og ég hef lýst, n. hefur ekki tekið það til meðferðar og nm. ætlast áreiðanlega ekki til, að málið verði tekið aftur á dagskrá í þessari hv. d., nema n. hafi tekið það til athugunar og gert sér grein fyrir málinu. Það liggur í hlutarins eðli, að stórmál eins og þetta getur ekki gengið fram nema eftir gagngerða athugun í þeirri n., sem um málið fjallar. Ég ætla þess vegna ekki nú að tala meira um þetta mál, en vil endurtaka það, sem ég áðan sagði, að það eru ýmsir ljósir punktar í þessu frv. og aðrir neikvæðir. Þetta þarf að vega og meta, og e.t.v. er unnt að gera þetta frv. að góðu máli með því að gera hæfilegar breyt. á frv.