23.04.1974
Sameinað þing: 77. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3873 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

322. mál, vegáætlun 1974-1977

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Vegáætlun, sem gerð var 1972 fyrir árin 1972–1975, er nú til endurskoðunar. Eins og lög gera ráð fyrir, er ætlast til þess, að vegáætlun, sem gerð hefur verið til fjögurra ára verði endurskoðuð, þegar áætlunartímabilið er hálfnað.

Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh. hér áðan, að vegagerðarkostnaður hefur hækkað um nærri 100% á tveimur árum, og má reyndar lesa það út úr þeirri till. og þeim gögnum, sem hér liggja frammi, að svo hefur verið. Má segja, að þetta sé staðfesting á þeirri verðbólgu, sem geisað hefur nú í seinni tíð. Aldrei áður nema á styrjaldarárum, þegar verst lét, hefur verðbólgan verið eins mikil og nú. Af hverju þetta stafar, geta menn deilt um, enda þótt það sé augljóst að mestu leyti. Þetta 9tafar af þeirri stjórnarstefnu og því stjórnleysi, sem hefur verið nú síðustu þrjú árin. Þjóðin verður að súpa seyðið af því að hafa haft í landinu stjórn, sem ekki ræður á neinn hátt við efnahagsmálin.

Vísitala vegagerðarkostnaðar miðað við vísitölu 1. mars er um 88%, en verði miðað við vísitölu 1. júní, sem aðallega verður unnið eftir á þessu ári, er hækkunin komin yfir 100%. Það er þess vegna ekki eðlilegt, að vegaféð sé drjúgt. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þótt sé gat í vegáætluninni.

Hæstv. ráðherra talaði hér áðan um þessi mál og virtist vera nokkuð ánægður með það fjár magn, sem hann fær frá ríkisstj. til Vegasjóðsins. Hann talaði um, að þetta fjármagn yrði á þessu ári nærri 800 millj. kr. Það er rétt, að þegar allt er tekið með, þá munu þetta vera um 785 millj. kr. En hvað er þetta stór hluti af því fjármagni, sem ríkissjóður tekur af umferðinni til sín? Það hefur verið ákaflega erfitt að fá upp réttar tölur um þetta. Fyrir nokkru voru mér gefnar tölur um það, að á s.l. ári hefðu tekjur ríkissjóðs af umferðinni numið 2 milljörðum, en í gær, þegar betur var farið ofan í þessi mál, virtist þeim manni, sem á að vera þessu kunnugur og er reikningsglöggur, að þetta hafi verið á s.l. ári, þegar allt er talið, um 2500 milljónir. Hæstv. ráðh. þyrfti að hafa þetta í huga, þegar hann lýsir ánægju sinni yfir því að fá 785 millj. kr. á þessu ári úr ríkissjóði til vegaframkvæmda. Þetta er ekki nærri 1/3 af þeirri upphæð, sem ríkissjóður tekur til sín af umferðinni.

Árið 1972 voru lagðir þungir skattar á bifreiðaeigendur, innflutningstollar voru hækkaðir, og á s.l. ári munu þessir nýju skattar hafa numið um 300 millj. kr. Þetta ætti hæstv. ráðh. einnig að hafa í huga og hefði átt að kynna sér, áður en hann þakkaði fyrir það, sem hann hefur fengið samkv. þessum till. Þá ber einnig að hafa það í huga, að vegna þess að bensín hefur hækkað í verði hefur verið reiknað út, að auknar tekjur ríkissjóðs vegna bensínhækkunarinnar, þ.e. innflutningsgjald og söluskattur, nemi á árinu 1974 400 millj. kr. Þessu þarf hæstv. samgrh, einnig að gera sér grein fyrir, áður en hann þakkar fyrir það, sem hann hefur þegar fengið til sín.

Það er enginn vafi á því, að alþm. vilja gera sér grein fyrir ástandinu eins og það er, og þeir mundu gjarnan vilja finna einhver úrræði til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem vegamálin eru nú komin í, því að það verður ekki annað sagt en að hér sé um hreint gjaldþrot og uppgjöf að ræða í sambandi við Vegasjóðinn. Hæstv. samgrh, talaði um það hér áðan, að það væri um mikla fjáröflun að ræða til Vegasjóðs. Eins og sjá má hér í till., eru þetta nærri 3500 millj. kr., en inn í því er Skeiðarársandur, sem er fjármagnaður á sérstakan hátt og kemur í rauninni Vegasjóði ekki við. Hringvegurinn eða vegagerðin yfir Skeiðarársand og Skeiðará er fjármagnaður á sérstakan hátt og unnið að þeim framkvæmdum eftir sérstökum lögum. Þar er um sérstakt bókhald að ræða, og þegar þessu verki er lokið, þá hverfur það að nokkru leyti út úr þessari mynd. En það má segja, að þetta skipti ekki neinu verulegu máli, og má segja, að Skeiðarársandur megi að skaðlausu vera þarna með. En það er rétt að minna á þetta, þegar hæstv. ráðh, er að tala um, að þarna sé um sérstaklega mikla fjáröflun að ræða til vegaframkvæmda, að Skeiðarársandur er þarna fyrir utan það venjulega.

Hæstv. ráðh. sér ekki önnur ráð en að leggja til, að framkvæmdum verði frestað, að framkvæmdir verði minnkaðar á þessu ári um 43% og 45% á næsta ári, að framkvæmdir á þessu ári verði minnkaðar um 915 millj. kr. og á næsta ári um 1300 millj. kr., hvoru tveggja miðað við vísitöluna 1. mars s.l. Þegar miðað verður við raunverulegan kostnað, er hér um minnkun framkvæmda að ræða í allmiklu stærri mæli en hér hefur verið nefnt, og þetta er raunaleg staðreynd, raunalegt að þurfa að viðurkenna það, að hæstv. ríkisstj. leggur til að minnka vegaframkvæmdir, ekki um 43 eða 45%, heldur e.t.v. um 60 eða 70%, ef miðað verður við raunverulegan framkvæmdakostnað, þegar verkin eru unnin. Og enginn vafi er á því, að ef stjórnleysi á að vera áfram á okkar fjármálum og efnahagsmálum, verður þetta miklu meira en hér er nefnt. Þetta er til sannindamerkis um það, hvernig þessum málum er komið undir stjórn núv. valdhafa. Spurningin er, hvað sé hægt að gera til þess að gera þetta sem sársaukaminnst. Það er vitanlega Alþingi, sem verður að athuga þessi mál, og þær n., sem fjalla um till. og frv., sem hafa verið lögð fram, verða að gera till. til úrlausnar og úrbóta í þessu efni, ef hægt er að finna einhverja leið. Víst er um það, að hæstv. ríkisstj. hefur gefist upp á því að koma með nokkra frambærilega till. Það reynir á, hvort hv. Alþingi getur bjargað ríkisstj, í þessu efni, en það mun verða erfitt, ef hæstv. ríkisstj. heldur áfram að stjórna á sama hátt og hún hefur hingað til gert.

Verðbólgan geisar og ógnar atvinnulífinu og gerir gjaldmiðilinn að engu, enda er nú búið að strika yfir alla aura, þeir skulu ekki vera slegnir lengur aurarnir, og skal krónan vera minnsta mynteiningin, sem nota skal. Það má segja, að það sé afrek út af fyrir sig hjá hæstv, ríkisstj. að hafa komið þessu til leiðar. En hæstv. ríkisstj. reynir að verja sig ávallt með því að segja: Verðbólgan geisar um allan hinn frjálsa heim, og það er eðlilegt, að hún sé þá einnig hér. — En það hefur oft verið á það minnt, að opinberar skýrslur sýna, að verðbólgan hér er 2/3 og jafnvel 3/4 hærri en í nágrannalöndunum, að aðeins 1/3 eða 1/4 verðbólgunnar er fyrir erlend áhrif, en hitt er heimatilbúið. Þetta er það sem allir vita, og þess vegna er ekki unnt fyrir hæstv. ríkisstj. að verja sig á bak við það, að verðhækkanir séu einnig erlendis.

Samkv. þeim gögnum, sem fyrir liggja, vantar um 1900 millj. kr., til þess að unnt sé að standa við þá vegáætlun, sem samin var fyrir 2 árum, og 1800 millj. kr., til þess að unnt verði að standa við vegáætlunina fyrir næsta ár, en þessar upphæðir miðast við, eins og ég áðan sagði, vísitöluna 1. mars og verða vitanlega miklu hærri, ef miðað verður við raunverulega vísitölu eins og hún verður, þegar verkin verða unnin. Og hvernig er þá hugsað að afla fjárins, sem vantar? Hæstv. ríkisstj., eins og áður hefur verið minnst á, ætlar alls ekki að afla sér þessa fjár, ekki nema að nokkru leyti. Hún hugsar sér að fá lögfest frv. um fjáröflun, sem hér hefur verið rætt og nú er í hv. fjhn. Nd. Það frv. mun gefa, ef að lögum verður, 300 millj. kr. á ársgrundvelli, og má segja, að muni harla lítið um, þótt það verði lögfest, ótrúlega lítið. Þó að það verði þingfest, vantar eigi að síður 1600 millj. kr. til þess að brúa þetta bil. Eigi að síður á bensínið að hækka um 4 kr. og 13 aura á þessu ári og 5 kr. og 13 aura frá 1. jan. n.k. og þungaskatturinn í samræmi við það, sem bensínið hækkar. Auðvitað verður bensínhækkunin meiri í útsölu heldur en þetta, hún verður hærri heldur en það, sem Vegasjóður fær, og má þá gera ráð fyrir, að útsöluverð á bensíni geti orðið 35–36 kr.

Hæstv. ráðh. sagði áðan, að það væri ekkert óeðlilegt, þó að bensínið hækkaði þetta mikið, það væri í rauninni ekkert hærra en það hefði verið miðað við tekjur manna og kaupgetu. Hæstv. ráðh. minnti á, að síðan bensíngjald var tekið samkv. nýju vegalögunum, hafi bensínverð verið hækkað 5 sinnum. Þetta mun vera rétt. En það hefur aldrei verið hækkað svona mikið í einu, og alltaf, þegar bensín hefur verið hækkað, hefur það verið gert til þess, að hægt væri að halda framkvæmdum eðlilega áfram, að standa við þá vegáætlun, sem gerð hefur verið, og til þess að auka við þær framkvæmdir, sem ákveðnar höfðu verið í upphaflegri vegáætlun, þegar endurskoðun hefur farið fram að hálfnuðu tímabili. Það er reginmunur á því að samþ. álögur til þess að halda framkvæmdum eðlilega áfram og til þess að auka þær heldur en eins og nú er lagt til, að gert verði, að leggja þungar álögur á umferðina, en samtímis að draga svo stórlega úr framkvæmdum eins og hér er lagt til að gert verði. Það hefur aldrei átt sér stað áður, að gerðar væru till. um nýjar og háar álögur á umferðina um leið og lagt er til að draga stórlega úr framkvæmdum. Það er eðlilegt, að alþm. eigi erfitt með að átta sig á því, hvernig komið er, og eigi erfitt með að sætta sig við þennan nýja boðskap, sem hæstv. samgrh. boðar með því að leggja fram þessa till. og tala fyrir henni eins og hann gerði. Það er alveg nýtt í okkar sögu, sem hér er boðað. Að vísu eru það rúmlega 300 millj., sem ætlast er til, að innheimtar verði samkv. fjáröflunarfrv., því að þar er einnig veggjaldið margumtalaða, sem tvisvar hefur verið fellt hér í Alþingi, — tvisvar verið fellt, en nú er það sett í till. sem fjáröflun, og á þessu ári er gert ráð fyrir, að innheimtist 36 millj. kr. eða ca. 1% af heildarútgjöldum Vegasjóðs. Hæstv. ríkisstj. þykir borga sig að taka upp illindi út af þessu umdeilda máli, sem tvisvar hefur verið fellt í Alþingi, í því skyni að reyna að innheimta 1% af heildarútgjöldunum.

Hæstv. fjmrh, gaf fyllilega í skyn, þegar fjáröflunarfrv. var rætt við 1. umr., að ríkisstj, væri ekkert fast í hendi með þetta og þetta veggjald gæti verið samningamál. En ég held, að þetta veggjald þurfi ekki að vera neitt samningamál. Ég held, að hæstv. ríkisstj. geti ekki búist við því að fá út af fyrir sig mikið fyrir að draga þá till. til baka, því að hún gefur ekki svo mikið og er algjörlega úrelt tekjuöflunarleið. Það er víðast erlendis hætt að innheimta slíka skatta og alls ekki gert nema af vegum eða brúm, sem hlutafélög eiga eða hafa gert. Það er alls ekki lengur innheimt af ríkisvegum. Ég reikna þess vegna ekki með veggjaldinu, þegar um er að ræða fjármögnunina. Ég nefni því 300 millj. samkv. fjáröflunarfrv., og eins og ég sagði, munar ótrúlega lítið um það í það mikla gap, sem við horfum í þegar við sjáum mismun á gjöldum og tekjum Vegasjóðs.

Þá er gert ráð fyrir því, að tekin verði lán, 600 millj. kr. Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. nefndi nokkuð, hvernig lán þetta væru eða hvar ætti að taka þessi lán. Ég efast ekkert um, að hæstv. ríkisstj, á víst að fá þetta lán, úr því að það er sett í till., en fróðlegt væri að vita; hvort þetta ætti að vera vísitölulán og með hvaða kjörum það ætti raunverulega að vera. Það er uggvænlegt, ef Vegasjóður á ekki að fá öðruvísi fjármagn að láni en vísitölulán, sbr. lánin til hringvegarins, því að í þeirri verðbólgu, sem nú hefur geisað, verða þessi vísitölulán svo óhagstæð að það mun vandséð, að þeir, sem hafa atvinnu af því að veita okurlán, sem stundum hefur verið sagt, treysti sér til að taka eins mikið í sinn hlut og nemur vísitöluhækkunum á hverju ári. En það er sannarlega verið að leggja skuldir á framtíðina og gera þær þyngri, ef Vegasjóður verður að búa við það að taka eingöngu vísitölulán, ekki aðeins nú, heldur áfram, eins og hæstv. samgrh, boðaði og gert er ráð fyrir í þessari till., að Vegasjóður verði áfram fjármagnaður með lánum.

Þarna er um 900 millj. að ræða. En þá er gert ráð fyrir, að frestun framkvæmda eða minnkun framkvæmda sé 915 millj. kr. Samkv. mínum reikningi verður þetta nærri milljarður, en ekki 915 millj. Reiknað er með, að fjáröflunarfrv. gefi 300 millj., lántakan samkv. till. er 500 millj. plús 100 millj., það eru aðeins 900 millj. Svo er sagt, að það séu minnkandi framkvæmdir 915 millj., en það verður nærri milljarður, sem framkvæmdirnar minnka um samkv. þessum útreikningi, sem ég ætla, að sé réttum, en verður þó vitanlega, eins og áður er sagt, miklu meira, þegar miðað er við rétta vísitölu, sumarvísitöluna, Það eru þess vegna engin stóryrði, þó að sagt sé, að um hreint gjaldþrot sé að ræða hjá Vegasjóði. Það batnar ekki á næsta ári, ef ekki verður kippt í spottann og önnur ráðsmennska upp tekin, því að þá er gert ráð fyrir að minnka vegaframkvæmdir um 1300 millj. miðað við kostnaðarvísitöluna 1. mars. En gæti það ekki alveg eins orðið 1700–1800 millj., ef miðað verður við raunvísitölu á því ári?

Hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh., hafa oft vitnað til þess, að það hafi verið gott samstarf milli fyrrv. stjórnarandstöðu og fyrrv. ríkisstj., eða fyrrv. samgrh., þegar um vegáætlun var að ræða og endurskoðun vegáætlunar. Ég get tekið undir það og minnist þess, að þetta samstarf var gott. En það var aldrei þá farið fram á það við alþm. að minnka vegaframkvæmdir, þegar vegáætlun var endurskoðuð. Það var aldrei farið fram á það að auka álögur á umferðina, en eigi að síður að minnka framkvæmdir. Það var farið fram á það að auka álögur á stundum, en þá var það til þess að auka framkvæmdir. Stjórnarandstaða og stjórnarstuðningsmenn vildu ávallt auknar framkvæmdir og töldu til þess vinnandi að auka framkvæmdir að auka álögur. Nú er ekki um neitt sambærilegt að ræða. Eigi að síður mun stjórnarandstaðan líta á þessi mál af skilningi. Við sjálfstæðismenn munum skoða þessi mál af skilningi, en hver niðurstaðan verður, skal ég ósagt láta nú. Víst er, að bæði frv., sem nú liggja í n., og þessi till., þetta verður að skoða í einu, það verður að gera sér grein fyrir heildarmyndinni og skoða þessi mál öll í einu. Og það verður að leita að möguleikum til þess að bjarga málinu. Hvernig það á að gerast, um það flyt ég enga till. í dag a.m.k., en þetta er stór og erfiður biti, og skal ég ekkert fullyrða um, hvort þm. treysta sér til að kyngja honum. En á alvörutímum, þegar þjóðarskútan er í ósjó og allt virðist vera að komast í strand, er skylt að skoða málin af raunsæi, og ef útgönguleið er, þá þarf að leita að henni.

Í tíð fyrrv. ríkisstj, var verðlagi haldið í skefjum. Þótt ekki tækist að stöðva dýrtíðina, þá var verðlagi alltaf haldið í skefjum. Það geisaði ekki óðaverðbólga. Þótt áætlunin um vegamál væri gerð til 4 ára, var ekki allt farið úr skorðum eftir 2 ár eins og nú. Krónan hafði alltaf talsvert gildi, og þótt verðhækkanir hafi orðið milli ára, var alltaf mögulegt að brúa þetta bil með eðlilegum hætti.

Það er enginn vafi á því, að vegamálin koma öllum við og samgöngumálin yfirleitt og ekki síst samgöngumál á landi. Það er ekki hægt að búa í þessu landi nema hafa akfæra vegi. óneitanlega hefur miðað vel áfram á undanförnum árum, á síðasta áratug, og sérstaklega eftir að nýju vegalögin komu til framkvæmda var unnið stórátak í vegamálum. Brýr voru settar á stórfljótin, vegir gerðir á erfiðum stöðum, sem ekki hafði þótt fært að vinna áður, hraðbrautaframkvæmdir voru talsverðar á þessu tímabili, sérstaklega síðustu árin. Vonir manna voru miklar um, að hægt væri að halda áfram eins og þá var byrjað og eins og þá hafði verið unnið nm nokkurra ára skeið. En nú er boðuð stöðvun. Nú er boðuð minnkun framkvæmda. Nú er ætlast til, að menn sætti sig við það, að þeim framkvæmdum, sem þeir vonuðust eftir að fá á þessu ári, verði frestað. Þetta á að gerast í mesta góðæri, sem yfir þjóðina hefur komið.

Í þau 3 ár, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum, hefur vissulega verið góðæri, það getur enginn neitað því, bæði til lands og sjávar, aflaverðmæti meiri en nokkru sinni fyrr og fjárráð ríkissjóðs og stofnana verið mjög mikil. Samt sem áður, eftir þetta góðæri leggur hæstv. ríkisstj. til, að gerðar verði kreppuráðstafanir í vegamálum. Hvað er það annað en kreppuráðstafanir að leggja til að fresta framkvæmdum í vegagerð um 43% á þessu ári og 45% á næsta ári eða raunverulega miklu meira, ef tekið er tillit til allra aðstæðna, eins og ég áðan nefndi? Þetta eru ráðstafanir, sem væri eðlilegt, að gerðar væru, ef hér hefðu verið erfiðleikar, aflaleysi, verðfall á afurðum eða harðindi. Þá hefði mátt búast við einhverju slíku, En kreppuráðstafanir í góðæri gerast eingöngu vegna þess, að við stjórnvölinn hefur verið ríkisstj., sem ekki hefur kunnað að fara með þjóðmálin, þótt allt hefði átt að leika í lyndi. Þetta er raunasagan, sem flestum er nú að verða nokkuð ljós. En vitanlega geta menn sagt: Það er tilgangslítið að rekja þessa sögu, það verður ekki bætt úr þessum málum með því móti. — En menn verða að gera sér grein fyrir ástæðunum, gera sér grein fyrir því, af hverju svona er komið, um leið og menn reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig málunum verði helst bjargað.

Ég held, að málunum verði ekki bjargað, nema alger stefnubreyting geti átt sér stað í okkar efnahagsmálum. Málunum verður ekki bjargað, ef óðaverðbólgan á að geisa. Þá er alveg sama, þótt við endurskoðum vegáætlun og hvaða tölur við höfum til viðmiðunar. Engar þær tölur, sem við setjum í till. og samþykkjum hér á Alþingi, standast eða verða raunhæfar að stuttum tíma liðnum, ef núv. stjórnarstefna heldur áfram. Ég held, að það sé rétt að gera sér fulla grein fyrir þessu.

Spurningin er, hvort hæstv. ríkisstj. hefur gert sér grein fyrir raunveruleikanum. Spurningin er, hvort hæstv. ríkisstj, ætlar að þvælast fyrir og gera þetta mál erfiðara en annars þyrfti með því að sitja í stólunum og lofa engu öðru en því, að það skuli vera óbreytt ástand. Ef hæstv, ríkisstj, gerir það, verður erfitt fyrir þm., þótt þeir hafi góðan vilja, að bjarga þessu máli. Ef hæstv. ríkisstj, vildi viðurkenna getuleysi sitt og segja af sér, yrði þetta allt miklu hægara. Þá gætu þm. gert sér grein fyrir því, að það væri kominn nýr möguleiki til þess að taka á þessum málum þannig, að sú áætlun, sem yrði gerð, væri ekki markleysa ein eftir fáar vikur eða mánuði.

Ekki vil ég ábyrgjast, hvað hæstv, ráðh, vilja segja í þessu efni. Ég vil ekki heldur ábyrgjast, hvort þeir hafi raunverulega gert sér grein fyrir ástandinu eins og það er í þjóðlífinu í dag, ekki aðeins í vegamálum, heldur einnig í öðrum málum. Sannleikurinn er sá, að mér fannst hæstv. samgrh. áðan óþarflega ánægður með þetta plagg, sem hann var að lesa upp úr, og það er ekki alveg öruggt, að hann hafi raunverulega gert sér fulla grein fyrir því, hversu alvarlegt það er, sem hann var að gera grein fyrir og túlka. Það er enginn vafi á því, að vonbrigði eru mikil hjá mörgum landsmönnum, sem hafa vænst mikilla framkvæmda í vegamálum, þegar það fréttist, hvernig staða Vegasjóðs er og hvaða till. hæstv. ríkisstj. hefur fram að leggja í þessu máli.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. fjvn., þegar hún fer að skoða þessar till., þá kalli hún til sín hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. og yfirheyri þá rækilega, spyrji þá, hvort það sé virkilega þeirra meining að minnka framkvæmdir eins og lagt er til að gert verði samkv. þessu plaggi. Ég veit, að það eru margir þm., sem trúa því ekki, að það sé þeirra meining. Ég veit, að það eru margir þm., sem tel,ja alveg öruggt, að hæstv. fjmrh. skili 400 millj. kr., sem hann fær í óvæntar tekjur í innflutningsgjaldi og söluskatti vegna hækkunar á bensíni. Ég veit, að það eru margir þm., sem telja þetta alveg sjálfsagt og reikna með, að það þurfi ekki að toga þessa upphæð með töngum frá hæstv. ráðh. Ég veit líka, að sumir þm. hafa talað um, að það væri eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. skilaði nú þeim skatti, sem var á lagður vorið 1972, þ.e. hækkun á innflutningsgjöldum af bifreiðum, — skatti, sem gaf ríkissjóði í tekjur á s.l. ári 300 millj. kr., og í góðærinu, sem verið hefur, er ekki nema eðlilegt, að þessum peningum verði skilað. Spurningin til þessara hæstv. ráðh. er, hvað það sé mikið, sem ríkissjóður ætli að legg,ja fram til viðbótar því, sem er í þessari till., og hvort ekki væri unnt að minnka þetta bil verulega frá því, sem það er, gera það svo lítið, að það verði ekki tilfinnanleg vöntun. Á þetta reynir vitanlega.

Ég veit, að það eru nokkrir hv. þm., sem hafa sagt sem svo: Það kemur ekki til mála að samþykkja frv. ríkisstj. um fjáröflun til Vegasjóðs, nema ríkisstj. rétti fram höndina og leggi meira fé fram en hún hefur lofað. — Það reynir á allt þetta, þegar málin öll þrjú, sem afgreiðslu þessa máls eru tengd, verða rædd í n.

Víst er um það, að þótt mikið hafi áunnist á undanförnum árum í vegaframkvæmdum og í brúargerð, þá er víða beðið eftir framkvæmdum í öllum kjördæmum landsins. Umferðin er stöðugt að aukast með aukinni bifreiðaeign, vörubifreiðarnar að stækka og þyngjast og krafan til veganna að aukast. Vegir með bundnu slitlagi eru ekki komnir víða enn þá, en eftir þeim er beðið. Það hefur verið rætt um, að það væri vegleg afmælisgjöf í tilefni 1104 ára Íslandsbyggðar að gera samþykkt um það að gera hringveg um landið með bundnu slitlagi á ákveðnu árabili. Það væri vitanlega mjög vegleg afmælisgjöf. Ekki ætla ég að gera till. um það að þessu sinni og því síður að tilgreina þann árafjölda, sem væri hæfilegt að miða við, en það er alveg öruggt, að byggðarlögin og fólkið í landinu bíður eftir því að fá betri vegi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri nú við þessa fyrri umr., nema sérstakt tilefni gefist til. Sannleikurinn er sá, að þetta mál verður ekki leyst, því verður ekki bjargað með löngum ræðum, heldur með úrræðum, sem menn kynnu að finna, þegar menn setjast niður og leita eftir möguleikum á því að halda vegagerð í landinu áfram með eðlilegum hætti.